13.02.1984
Neðri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2797 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það kom hér skýrt fram í svari hv. 2. þm. Reykv. áðan, að með því orðalagi sem er á brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. er ekki gert ráð fyrir að heimilt verði að birta álagningarskrár, heldur aðeins endanlegar skattskrár. Ég er þeirrar skoðunar að rétt sé að heimila birtingu á álagningarskrám, það stuðli að umr. um skattamál sem er jákvæð, og þess vegna leyfi ég mér að leggja hér fram nýja brtt. við brtt. meiri hl. Það er till. sem flutt er af mér og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og er um að 4. tölul. í brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 322 orðist svo:

„Á eftir 8. gr. komi ný grein sem orðist svo: Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagningu og endanlega útkomu skatta sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta.“

Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, að óska eftir því að þessi till. verði tekin hér fyrir með afbrigðum, heldur væri ég fyrir mitt leyti mjög sáttur við þá málsmeðferð að till. yrði tekin til meðferðar við 3. umr., enda verði brtt. meiri hl. einnig dregin til baka til 3. umr.

Annað atriði, herra forseti, sem ég innti hæstv. fjmrh. eftir laut að fyrirframgreiðslum aldraðra og öryrkja á fyrri hluta skattársins 1984. Svör hæstv. fjmrh. liggja ekki fyrir, en ég held að það verði þá að bera spurninguna fram á ný við 3. umr., þ.e. hvort hæstv. ráðh. er reiðubúinn að gefa þær yfirlýsingar sem ég fór fram á, að gerð verði sérstök athugun á framtölum aldraðra og öryrkja með tilliti til þess hvort fyrirframgreiðslan er hærri en ætla má að endanleg skattlagning verði og að það verði litið sérstaklega eftir að greiðslubyrðin verði þessum einstaklingum ekki ofviða.

Varðandi þær umr. sem fram hafa farið hér um útsvarsmál vil ég skýra frá því að ég hef óskað eftir því í bréfi til formanns félmn. hv. Nd. að svarað verði alveg ákveðnum spurningum um tekjustofna sveitarfélaga. Í fyrsta lagi spyr ég um þá samráðsnefnd ríkisstj. og Sambands ísi. sveitarfélaga sem hæstv. félmrh. hefur greint frá að stofnuð hafi verið eða sé að fæðast. Í öðru lagi bað ég um sérstaka athugun á gjöldum til sveitarfélaganna þar sem grunur leikur á því að eitt sveitarfélag, Reykjavíkurborg, hafi tekið miklu hærri gjöld fyrir veitta þjónustu en nemur tilkostnaði við að koma þessari þjónustu á framfæri við íbúana í borginni. Og í þriðja lagi óskaði ég eftir að félmrh. útvegaði n. og þar með þinginu upplýsingar um álagningu útsvars á árinu 1984. Ég vænti þess að þessar upplýsingar komi fram þegar umr. um tekjustofna sveitarfélaga fer fram.

Hitt er líka alveg rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. gat um áðan, að ef menn vilja koma til móts við lágtekjufólk í sambandi við skattamál verður það að gerast í gegnum útsvarið. Þannig liggja þau dæmi. Lágtekjufólkið er að borga útsvar þó það greiði engan tekjuskatt til ríkisins. Í þeim efnum er auðvitað hugsanleg sú leið, sem mér hefur verið bent á, að hækkaður verði mjög verulega persónufrádráttur við útsvarsálagninguna. Einnig er sú leið til að álagning útsvarsins verði í þrepum, það verði stiglækkandi prósenta við álagningu útsvars eins og við álagningu tekjuskatts til ríkisins. Ég vil láta það koma fram að ég áskil mér og Alþb. allan rétt til að flytja slíkar brtt. við meðferð frv. um tekjustofna sveitarfélaga, en borgarfulltrúar Alþb. í Reykjavík lögðu einmitt fram slíka hugmynd, allnákvæmlega útfærða, við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar. Ég held að það sé mál sem verður að líta á sérstaklega. Mér hefur skilist að ríkisstj. telji að skoða eigi skattamálin alveg sérstaklega í tengslum við gerð kjarasamninga. Þá liggur auðvitað miklu nær að fara í útsvarið en tekjuskattinn.