13.02.1984
Neðri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég hafði raunar ætlað mér að ræða þetta mál að hæstv. fjmrh. viðstöddum. Hins vegar verður einhver dráttur á því og þess vegna mun ég ræða það núna. Tilefni þessara hugleiðinga minna er aukafrestur sem var gefinn núna á því að skila skattaframtali. Úr því sem komið er get ég ómögulega séð að þessi vikufrestur sem var gefinn skipti raunverulega nokkru einasta máli að öðru leyti en því að hann kannske kemur þeim til góða sem áttu í vandræðum við að telja fram.

Árið 1983 er liðið. Menn eru búnir að afla þeirra tekna sem þeir gerðu þá. Menn eru búnir að gera þær fjárfestingar, borga þær skuldir eða safna þeim skuldum sem til stóð á því ári. Að telja síðan fram á núverandi eyðublaði er bókfærsla sem ekkert breytist þó að einhver breyting yrði á því frv. sem hér er til umr.

Undirrótin að þessu er sú ósk að menn viti að hvaða skattareglum þeir ganga þegar þeir afla tekna eða gera aðra hluti. Það er skiljanlegt og ég styð það mjög. En þá hefðu reglur um þá álagningu sem nú fer fram þurft að vera tilbúnar í árslok 1982 þannig að þegar menn afla tekna eða fjárfesta eða hegða sér að öðru leyti eins og þeir óska í sínum fjármálum á árinu 1983 gætu þeir gert það eftir einhverjum skikk. En í því kerfi sem við höfum breytir nákvæmlega engu, að óbreyttu framtalseyðublaðinu, hvað gerist í þessari umr. hérna. Ég er ekki að vanþakka frestinn. Hann kom mér til góða eins og vafalaust fleirum en þær forsendur sem hafa verið gefnar fyrir honum tel ég algjörlega marklausar.