13.02.1984
Neðri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Útsvar er flatur skattur og kemur þar af leiðandi miklu átakanlegar við þá sem eru tekjulágir en önnur skattheimta. Þess vegna er þetta í mörgum tilfellum ranglátur skattur og þarf að gæta mjög hófs í beitingu hans. Ég er veikur fyrir hugmyndum sem lúta að útborgun á öfugum tekjuskatti eða neikvæðum tekjuskatti og ég vil skoða það allt saman vandlega. Hitt er annað mál að eins og komið er nú fram á ár 1984 er lítið svigrúm til að gera það á þessu ári. En ég held að fullkomin ástæða sé til að hugleiða allar svona hugmyndir vandlega, því að vissulega er ástæða til að hafa áhyggjur út af fólki sem nú hefur tæplega málungi matar. Því miður er orðið þröngt í búi hjá allt of mörgum. Þessu fólki verðum við að reyna að hlífa eftir því sem við mögulega getum.

Ég er hins vegar ekki sammála því sem kom fram hér hjá hv. þm. Jóni Baldvin að skynsamlegt væri að nota fjármuni sem annars fara til niðurgreiðslu á búvöruverði í þetta. Ég held að þeir niðurgreiðslupeningarnir verði mjög til tekjujöfnunar. Skv. nýlegri könnun sker það sig alveg úr að barnafjölskyldurnar eru miklu verr settar en aðrar. Mér finnst eðlilegt að álykta að þar sem margir eru munnarnir sé borðað tiltölulega meira þannig að aukaleg hækkun á búvöruverði kæmi vafalaust mjög illa við þetta fólk, þessar stóru fjölskyldur.

Það er kannske rétt hjá hæstv. félmrh. að það er strangt til orða tekið þegar ég held því fram að sum sveitarfélög hafi misnotað það frelsi sem þeim var veitt. Ég held þó að ekki verði um það deilt að borgarstjórn Reykjavíkur hafi notað frelsið alveg út í ystu æsar í þessu tilfelli. Auðvitað er skuldastaða sumra sveitarfélaga slæm. En sumir sveitarstjórnarmenn hafa verið glaðir í framkvæmdum sínum og jafnvel eru dæmi þess að þeir hafi lagt í mislukkaðar framkvæmdir. Það er hart aðgöngu að leggja á útsvör í þeim stíl sem hér hefur verið gert.