26.10.1983
Neðri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

11. mál, launamál

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég skal leitast við að fara að tilmælum forseta og hafa mál mitt stutt við þessa umr. enda er mál það, sem hér er á dagskrá, þegar mjög mikið rætt bæði innan og utan Alþingis og m.a. gerði ég grein fyrir sjónarmiðum okkar sjálfstæðismanna til þessara brbl. og staðfestingar frv. við umr. um stefnuræðu forsrh.

Það er alveg rétt að þetta frv., sem er flutt til staðfestingar brbl., ber þess merki undir hvaða kringumstæðum það er flutt. Það var engum blöðum um að fletta s.l. vor eftir að búið var að mynda ríkisstjórn á Íslandi og raunar áður að um neyðarástand var að ræða í þjóðfétaginu. Ýmsum spurningum hefur verið varpað fram í þessum umr.

Og það má varpa spurningum fram eins og gert hefur verið. Hvenær áður í Íslandssögunni hefur verðbólgan náð því stigi sem raun bar vitni s.l. vor — eða 130–150% verðbólga.

Það má varpa fram spurningu eins og þeirri: Hvenær áður hefur það komið fyrir að erlendar skuldir Íslendinga hafa numið 60% af þjóðarframleiðslu og gjaldabyrði afborgana og vaxta af þessum erlendu skuldum nálgist það að fjórða hver króna í gjaldeyristekjum þjóðarinnar fari í slíkar greiðslur?

Það má varpa fram spurningu eins og þessari: Hvenær hefur legið við borð að atvinnufyrirtæki landsmanna stöðvuðust og þúsundir Íslendinga gengju atvinnulausir án bjargar?

En allt þetta var staðreynd s.l. vor og ber vitni þeim viðskilnaði sem fráfarandi ríkisstjórn gerði sig seka um og Alþb. ber höfuðábyrgð á.

Það er þess vegna ekki að furða þótt með réttu megi lýsa efni þessa frv., sem við erum hér að ræða, sem neyðarúrræði.

Ég hef áður sagt það og ítreka það og endurtek um að ég tel það neyðarúrræði að grípa inn í gildandi kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins eins og vissulega er gert með þessu frv., bæði því ákvæði þess að gildandi samningar skuli framlengjast til 1. febr. n.k. og enn fremur því ákvæði að bannað sé að tengja verðbætur við kaupgjald. Hvort tveggja er neyðarúrræði en þau réttlætast af því neyðarástandi sem ríkjandi var s.l. vor. Og ef einhver ber ábyrgð á neyðarúrræðum þá eru það þeir sem bera ábyrgð á neyðarástandinu sem komið var. En þar er helst til sakar að sækja Alþb. og formælendur þess.

Það hefur komið sérstaklega fram að fulltrúar launþega hafa sett fyrir sig að kjarasamningar eru framlengdir til 1. febr. n.k. og þar af leiðandi taka nýir kjarasamningar ekki gildi fyrr en eftir þann tíma.

Ég hef áður vakið athygli á því að það er unnt þegar í stað að semja um öll önnur ákvæði kjarasamninga en kaupliði. En jafnvel þótt um víðtækari samninga væri ekki að ræða þá er spurningin þessi: Er það of langur tími samkv. reynslu að ætla sér um þrjá mánuði til gerðar nýrra kjarasamninga? Ég held að reynslan sýni að það veiti ekkert af þeim þremur mánuðum sem nú eru til stefnu og kjarasamningum verði vart lokið fyrr en að þrem mánuðum loknum. Þess vegna má ef til vill segja að það saki ekki þótt þessi tímamörk séu ekki í lögum vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins munu hvort eð er ekki ganga frá nýjum kjarasamningum fyrr en eftir þennan tíma.

Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hafa gert ályktun um ýmsar úrbætur atvinnuvegum landsmanna til handa svo og ýmsar úrbætur í efnahagsmálum sem eru góðra gjalda verðar og Vinnuveitendasamband Ístands hefur óskað eftir viðræðum aðila vinnumarkaðarins varðandi þessar till. Hér er um grundvallartill. að ræða, að vísu færðar í búning almennra orða, og því hafa formælendur Alþýðusambands Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja verið spurðir um hvað vaki fyrir þeim og þeir beðnir um nákvæmari skýringu á þessum annars svo merkilegu till. Því miður hafa þær skýringar ekki komið enn.

Hér er um svo mikilvæg mál að ræða að ég tel ákaflega æskilegt að viðræður aðila vinnumarkaðarins og — ef æskilegt þykir — fulltrúa ríkisvaldsins um útfærslu þeirra eigi sér stað sem allra fyrst og gengið sé í það mál.

Að vísu eru þessar úrbætur, sem um er rætt í þessari tillögugerð, þess eðlis að árangur þeirra kemur ekki fram fyrr en á lengri tíma og skapar þess vegna ef til vill ekki aukið svigrúm fyrir kjarasamninga fyrr en að nokkrum tíma liðnum. En orð eru til alls fyrst og það er alveg sjálfsagt að nota tímann til þess að unnt sé að leggja grundvöllinn að kjarasamningum sem hafi í för með sér raunverulega kjarabót launþegum til handa þótt síðar verði.

Annar er sá þáttur sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á og gerir það nauðsynlegt að hafist sé handa nú þegar við undirbúning kjarasamninga en það er viðleitni manna og samstaða manna í raun og veru um að höfuðáherslu beri að leggja á að bæta kjör hinna lægst launuðu. Ég hef að vísu áður sagt og ítreka það enn að ef til vill er þessi áhersla á bætt kjör hinum lægst launuðu til handa eitthvert mest misnotaða slagorð í kjaramálaumræðu undanfarinna ára og jafnvel þótt lengra aftur í tímann sé litið. Sannleikurinn er sá að það er eins og lítil alvara fylgi þeim orðum. Margir forustumenn í launþegasamtökunum, ekki síst úr hópi alþýðubandalagsmanna, nota þetta sem fyrirslátt en hafa ekki komið fram með raunhæfar till. sem tryggja hinum lægst launuðu bætt kjör.

Mörg eru þau dæmi sem nefna má um það að verkalýðsforusta Alþb. hafi beinlínis komið í veg fyrir að hinir lægst launuðu fengju bætt sín kjör umfram aðra launþega í þjóðfélaginu. Má í þeim efnum nefna dæmin frá febrúarlögunum 1978 og ekki síður maílögunum það sama ár. Þá var með verkföllum komið í veg fyrir að það, sem unnt var að skipta upp, kæmi hinum lægst launuðu til góða en hinir sem hærri hefðu tekjurnar yrðu að bíða og unna hinum lægst launuðu aukins hlutar án þess að fá bætt kjör sjálfum sér til handa. Þetta eru staðreyndir sem öllum þm. eru kunnugar og þarf ekki frekari orðum um að fara.

En þetta eru líka dæmi sem sýna það og sanna að það er ekki að ástæðulausu að ég segi að menn þurfi tíma til að koma sér saman um með hvaða hætti nýta megi það svigrúm — það litla svigrúm — sem vonandi er til einhverra kjarabóta til þess að beina þeim til hinna lægst launuðu. Í þeim umr. er það vissulega skylda forustumanna launþegasamtakanna að afmarka hóp hinna lægst launuðu og gera skýra grein fyrir því hvar þörfin er mest svo að unnt sé að beina því sem til skiptanna er á þá staði.

Það hefur áður verið gerð grein fyrir því í stjórnarmyndunarviðræðunum sjálfum og þegar þeim var lokið hver var skoðun Sjálfstfl. í launamálum. Ég sé enga ástæðu til þess að ítreka það en leyni því ekki að það var skoðanamunur á milli stjórnarflokkanna á því sviði — skoðanamunur sem leiddi m.a. til þess að tvívegis slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum þessara tveggja flokka.

Miðað við það neyðarástand sem við blasti og nauðsyn þjóðarinnar fyrir myndun starfhæfrar meiri hluta stjórnar á Alþingi þá tókst málamiðlun. Og eftir að málamiðlun hefur tekist þá bera báðir stjórnarflokkarnir ábyrgð á niðurstöðunni. Við sjálfstæðismenn skjótum okkur ekki undan þeirri ábyrgð.

Og í tilefni þeirra fyrirspurna, sem hér hafa verið bornar fram, um afstöðu okkar sjálfstæðismanna til þessara brbl. og samningsréttarákvæðis þeirra þá vil ég enn á ný lýsa yfir afstöðu okkar sem þó hefur komið fram áður svo að óþarfi var að spyrja.

Afstaða okkar er í stuttu máli sú að við sjálfstæðismenn stöndum að ákvæðum brbl. og berum ábyrgð á þeim og munum þess vegna standa að samþykkt frv. þess sem flutt er til staðfestingar þeirra. En það liggur í augum uppi að við teljum eðlilegt og sjálfsagt að frv. fái þinglega meðferð og kannað sé hvort rétt er að falla frá eða breyta því ákvæði frv. að nýir samningar um kaupgjald taki ekki gildi fyrr en 1. febr. n.k. enda sé markmiði ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn verðbólgu engu síður náð.

Hæstv. forsrh. hefur áður gefið efnislega sams konar yfirlýsingu hér á Alþingi og við báðir raunar einnig á samráðsfundi með aðilum vinnumarkaðarins. Á þeim samráðsfundi með aðilum vinnumarkaðarins lögðum við áherslu á það sem ég hef sagt hér í þessum fáu orðum mínum að aðilar hæfu strax viðræður um gerð nýrra kjarasamninga svo að unnt væri að komast að niðurstöðu þar að lútandi — niðurstöðu sem einkum taki mið af tveim höfuðþáttum: Í fyrsta lagi, að grundvöllur verði lagður að framfarasókn atvinnuveganna sem til þess skapaði skilyrði að bætt yrðu launakjörin í landinu með raunhæfum hætti og í öðru lagi, að nýir kjarasamningar bæru fyrst og fremst merki þess að menn kæmu sér saman um að bæta kjör hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu.

Það fer ekki á milli mála að við þurfum að hyggja að mörgum úrbótum á ýmsum sviðum efnahagsmála og atvinnumála til þess að unnt sé að bæta kjör launþega í landinu. Hér hefur ekki verið dregið í efa að nauðsyn hafi verið róttækra ráðstafana til bjargar út úr því neyðarástandi sem við vorum komnir í en þau bjargræði hljóta að vera önnur en beitt hefur verið nú um nokkurn tíma. Það hefur ekki heyrst í þessum umr. núna að það væri unnt að taka eitthvað af atvinnuvegunum eða atvinnufyrirtækjunum til þess að hækka raunverulegt kaupgjald í landinu. Þvert á móti hefur verið bent á í umr. að atvinnufyrirtækin í landinu standa höllum fæti og því miður berast fréttir um það að sum þeirra séu í þeirri hættu að stöðvast.

Við höfum líka fengið fréttir um aflabrest sem einkum hefur komið fram á síðustu vikum og mánuðum — aflabrest sem leiðir líkur að því að þorskaflinn á yfirstandandi ári verði ef til vill innan við 300 þús. tonn gagnstætt 470 eða 480 þús. tonnum fyrir aðeins tveimur árum, á árinu 1981. Það er þess vegna ekki furða þótt erfiðleikarnir geri vart við sig og lífskjörin skerðist. Þetta hlýtur að finnast í afkomu þjóðarinnar, einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Og því fremur hvílir mikil ábyrgð á herðum alþm. og aðila vinnumarkaðarins að horfast í augu við þessar staðreyndir, mæta þeim af karlmennsku og koma sér saman um hvernig á að komast út úr erfiðleikunum.

Það er t.d. algjörlega út í hött nú að vera með einhvers konar tölur með kjararýrnun vegna þess að samanburðargrundvöllurinn er ekki fyrir hendi. Réttur samanburðargrundvöllur er annars vegar þau kjör sem menn búa við í dag — og enn sem komið er og vonandi framvegis full atvinna — og hins vegar atvinnuleysi og engar tekjur. Þetta er sá raunhæfi samanburður sem hefði gildi í umr. sem þessum. Það er auðvitað unnt að gera kröfur um 30–40–50% kauphækkun í krónum. En hver er nokkru bættari þótt slíkum kröfum yrði framfylgt?

Ég held að Íslendingar og ekki síst íslenskir launþegar hafi dýrkeypta reynslu af slíkum blekkingarleik þegar krónutalan er hækkuð en verðmætin fara minnkandi. Það væri auðvitað unnt að lækka gengið eftir slíka kollsteypu en það væri ekki nema andartaksbjörg fyrir atvinnuvegina í landinu og raunar ekki einu sinni andartaksbjörg — nema afleiðingar lækkaðs gengis íslensku krónunnar yrðu ekki látnar hafa áhrif á kaupgjaldið í landinu. Þá þyrfti að ganga enn þá nær kjörum launþeganna. Og hver vill það, hver treystir sér til þess? Nei, við þurfum þess vegna að fóta okkur nú einmitt á þessu tímabili, sem við höfum, til þess að átta okkur á því hvað best verður gert í samningum milli aðila vinnumarkaðarins þannig að við getum að nýju byggt upp þróttmikið athafnalíf í landinu, sem fljótlega þegar fram líða stundir yrði til þess að bæta kjör launþeganna með hærra kaupi í verðmeiri krónum en ekki hærra kaupi í verðminni krónum eins og launþegar hafa orðið varir við undanfarin ár eins og kunnugt er.