14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. utanrrh. á þskj. 318 í III. lið. Mál þetta er þannig tilkomið að fyrir nokkrum vikum kom upp allviðamikið landráðamál í Noregi og í kjölfar umfjöllunar um þetta mál í fjölmiðlum hér á landi birtist í Morgunblaðinu útdráttur úr skýrslu sem nefndir menn hér í fsp., Bragi Jósepsson, Hannes Pálsson og Stefán Jónsson höfðu sent þáv. utanrrh. hinn 22. des. 1971.

Ég vil taka það fram til að það valdi ekki misskilningi að ég tel innihald þessarar skýrslu í sjálfu sér ekki skipta máli í þessari umr. heldur beinist fsp. einkum að því hvort hér hafi verið um trúnaðarmál að ræða, hver hafi brotið þann trúnað sem fólst í því að afhenda þessa skýrslu Morgunblaðinu og í þriðja lagi hvað hafi verið gert, hvort kannað hafi verið hvaða aðilar þarna eiga hlut að máli og hvort einhverjar aðgerðir séu í gangi til að upplýsa það mál og þá að draga þá aðila til ábyrgðar sem þá ábyrgð bera.