14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Kannske væri ástæða til að spyrja hv. síðasta ræðumann hvort hann hafi lesið umrædda skýrslu og ef svo er hvar hann hafi þá komist yfir hana. Annars vil ég spyrja hæstv. utanrrh. í fyrsta lagi að því hvort hann geri sig ánægðan með þetta svar Morgunblaðsins og hvort það sé af hans hálfu endanlegt, m.ö.o. hvort ekki verði leitað á það að fá þar skýrari svör.

Í öðru lagi væri fróðlegt að fá upplýsingar um upplag þeirrar fjölföldunar sem virðist hafa farið fram á þessu trúnaðarplaggi, hvort þar hefur verið um fáein tölusett eintök að ræða, nokkra tugi eða nokkur hundruð. Og þá í framhaldi af því hverjir hafa fengið það undir hendur.

Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. enn hvort hann sjái ekki ástæðu til þess að vanda um við viðkomandi fjölmiðil og senda honum umkvörtun vegna þess hversu gáleysislega hann hafi farið-með þetta plagg sem merkt er eins og allir vita hér sem trúnaðarmál.

Síðast væri svo fróðlegt að vita hvaða hugmyndir eða stefnu utanrrn. hefur hvað varðar tímalengd á leynd sem hvíla skuli yfir slíkum gögnum. Skal hún vera 25 ár, 50 ár eða skulu slík plögg um aldur og ævi hulin sjónum hins almenna þegns þessa lands?