14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2812 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég stend upp vegna síðustu orða hæstv. utanrrh. Hann greinir frá því að hann hafi ekki orðið ábyrgur fyrir störfum utanrrn. fyrr en hann tók við yfirstjórn þess. Má það rétt vera. Ég vil leita upplýsinga um það, hvort hann er að meina með þessu að það hafi orðið einhver mistök í rn. hjá fyrrv. utanrrh. Hann tók að vísu fram að hann liti svo á að embættismenn rn. hefðu ekki brugðist trúnaði. Þar með er að þrengjast hópurinn. Ef yfirmenn rn. og fyrrv. utanrrh. og starfsmenn í rn. hafa ekki brugðist trúnaði, hverjir gætu þá farið að standa fyrir þessu prentverki? Jú, hugsanlega gætu höfundar skýrslunnar fjölritað þetta. En setjum nú svo að höfundar skýrslunnar, þessir þrír nafngreindu menn, hefðu gert það og dreift til Morgunblaðsins eintökum af skýrslunni, því hefðu þeir þá farið að merkja hana sem trúnaðarmál? Þetta er eitthvað sem ekki kemur heim og saman í mínum huga. Því hefðu þeir farið að óska eftir því? Því mér skilst að það sé samkvæmt þeirra ósk sem þetta er merkt í utanrrn. trúnaðarmál. (Utanrrh.: Ekki merkt í utanrrn. sem trúnaðarmál. Hjá sendendum sem trúnaðarmál.) Já, ég er að meina það. Og þess vegna kem ég því ekki saman, ef þeir hafa óskað eftir þessari merkingu eða sent þetta sem trúnaðarmál, því að ég geri ráð fyrir að höfundar skýrslunnar hafi sent hana sjálfir fremur en einhverjir milliliðir.

Ég lít svo á að þetta sé alvarlegt mál. Ekki það að efni þessarar tilteknu skýrslu sé kannske saknæmt þó að það komi fyrir almenningssjónir. En trúnaðarskjöl utanrrn. eiga að vera í öruggri geymstu og þau eiga ekki að vera í höndum margra í ljósriti. Þess vegna held ég að mikil nauðsyn sé að velta því fyrir sér hvar við erum eiginlega stödd.

Mér fannst nú ekki vel smekkleg aths. hjá vini mínum, hv. 3. þm. Norðurl. v., þar sem hann var að rifja upp tengsl formanns útgáfustjórnar Árvakurs og utanrrh. Ég hallast að þeirri skoðun, sem kom fram hjá hæstv. utanrrh., að það væri mikið frelsi á ritstjórn Morgunblaðsins. Mér finnst það liggja í augum uppi að það frelsi sé meira en lítið, þar sem ritstjórn Morgunblaðsins kemur hæstv. utanrrh. í þennan vanda og efnir þar með til umræðna um rn., sem hæstv. utanrrh. ber ábyrgð á, starfshætti þar eða húsleka.