14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2442)

419. mál, gæða- og öryggisreglur varðandi hjólbarða

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 318 leyft mér að bera fram fsp. til dómsmrh. um gæða- og öryggiskröfur varðandi hjólbarða. Fsp. er svohljóðandi með leyfi forseta:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 8. mars 1983 um gæða- og öryggisreglur varðandi notkun og innflutning hjólbarða, svo og verulega lækkun innflutningsgjalda af hjólbörðum?“

Þál. sú sem hér um ræðir er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta setja gæða- og öryggisreglur um innflutning og notkun hjólbarða með hliðsjón af því sem tíðkast í grannlöndum okkar og kanna jafnframt hvort unnt sé að lækka verulega innflutningsgjöld af hjólbörðum.“

Ég sé ekki ástæðu til að fylgja þessu úr hlaði með fleiri orðum, herra forseti.