14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

419. mál, gæða- og öryggisreglur varðandi hjólbarða

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. hefur gert grein fyrir fsp. sem hann ber fram til mín um gæða- og öryggisreglur varðandi hjólbarða og byggðar eru á ályktun sem Alþingi samþykkti á s.l. ári. Eftir að þál. þessi barst dómsmrn. var hún send Bifreiðaeftirliti ríkisins og óskað eftir umsögn þess og tillögum um ráðstafanir í því sambandi. Í svari Bifreiðaeftirlitsins kemur fram að það telur að eftirfarandi ráðstafanir geti stuðlað að umferðaröryggi:

1. Felld verði niður eða lækkuð verulega innflutningsgjöld af hjólbörðum.

2. Settar verði reglur um að ekki megi flytja til landsins hjólbarða nema þeir séu af viðurkenndri gerð og á þeim séu öll merki framleiðenda.

3. Hjólbarðaverkstæði verði gerð ábyrg fyrir því, að ekki sé afhentur hjólbarði undir bifreið nema hann standist kröfur sem gerðar eru til hjólbarða undir bifreiðir.

4. Komið verði á eftirliti með innflutningi á hjólbörðum og vinnu hjólbarðaverkstæða.

Er Bifreiðaeftirlitið reiðubúið til samstarfs um að vinna nánari reglur er þetta varðar.

Í framhaldi af þessu skal tekið fram að til athugunar er í dómsmrn. með hverjum hætti setja megi þær reglur er feli í sér ákveðnari kröfur en nú eru í gildi um hjólbarða, þannig að áskilnaður verði um að á hjólbarða komi fram auðkenni og tilteknar upplýsingar um gerð hjólbarðans og eiginleika og að hjólbarðinn svari til þess ökutækis sem hann er ættaður fyrir. Einnig er til athugunar hvernig koma megi fyrir eftirliti með innflutningi hjólbarða og eftirliti með starfsemi hjólbarðaverkstæða. Fellur þetta undir endurskoðun á reglugerð um búnað og gerð ökutækja, en sú endurskoðun er mjög brýn og er nú í undirbúningi.

Að því er varðar lækkun opinberra gjalda af hjólbörðum er þess að geta að þau mál heyra undir fjmrn. Þó má geta þess að ætlunin mun að fella niður gúmmígjald, en að öðru leyti munu tollalögin vera í endurskoðun og þar með þá reglur um innflutningsgjöld.