26.10.1983
Neðri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

11. mál, launamál

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Það er frv. sem flutt er til staðfestingar brbl. um launamál, sem verið er að fjalla um hér nú. Neyðarúrræði, segir hæstv. utanrrh., en engu að síður afnám samningsréttarins. Það er ljóst að það að svipta launþega samningsrétti sínum er alls ekki réttlætanleg aðgerð. Að fulltrúar ríkisvaldsins skuli geta komið eins og fellibylur fram á sjónarsviðið, rifið í tætlur gerða samninga og þjösnast um eins og naut í flagi, syngjandi með, sér til afsökunar, verðbólgusönginn góðkunna. Þetta er vægast sagt ill aðgerð og andstæð ríkjandi lögmálum í lýðræðislandi.

Einn þáttur þeirrar valddreifingar sem við í Bandalagi jafnaðarmanna berjumst fyrir eru frjálsir samningar. Þá er átt við samninga um grundvallaratriði efnahagslífsins og samninga um kaup og kjör. Einstaklingar og samtök þeirra eiga auðvitað að bera fulla og algera ábyrgð á ákvörðunum sínum og þar með athöfnum sínum og á þeim samningum sem þeir kunna að gera. Það er nauðsynlegt að öllum afskiptum ríkisvaldsins af þessum samningum einstaklinga og samtaka þeirra ljúki. Samtök launafólks sem og samtök fyrirtækja eiga að vera frjáls og óháð öllu valdi, ríkisvaldi og flokksvaldi. Samtök launafólks eru einhver mikilvægustu félagasamtök samtímans, þó ekki væri nema vegna þess hversu fjölmenn þau eru. Það er þess vegna áríðandi að lýðræði innan þeirra sé virkt og að ákvarðanavaldið sé í höndum þeirra sem eru félagar í þessum samtökum, en það hefur oft á tíðum orðið alvarlegur misbrestur á því.

Vinnulöggjöfin þyrfti að vera þannig úr garði gerð að launafólki væri frjálst að taka samningsréttinn í sínar hendur t.d. í einstökum fyrirtækjum, ef það svo kýs, enda sé fyrirkomulagi samninga þá þannig háttað, sem og félagsuppbyggingu samtaka launamanna og samtaka fyrirtækjaeigenda, að hún sé alfarið frjáls og án nokkurrar utanaðkomandi þvingunar. Það þarf að heimila að stofnuð séu slík félög á vinnustöðum og ef launafólk kýs að notfæra sér slík réttindi, getur það þá vitaskuld í auknum mæli samið um félagsleg verðmæti sem og aðild að stjórnun og/eða eignaraðild fyrirtækjanna.

Fyrir kosningarnar í apríl lét ég gjarnan þau orð falla að það kerfi sem við byggjum við hér á landi væri þrátt fyrir allt ómetanlegt í samanburði við það einræðis- og alræðiskerfi sem víða er að finna í heiminum í dag. En ég bætti því þó við að oft á tíðum gætti allt of mikillar forsjárhyggju, forsjánni væri í stórauknum mæli beitt af ríkisvaldi, embættismönnum og hagsmunaöflum og alltaf — eða oftast án samráðs við almenning.

Nú er orðið ljóst að mér hefði verið óhætt að kveða mun sterkara að orði. Tökin hafa enn verið hert af ríkisvaldsins hálfu og samningar afnumdir, eins og kunnugt er, hvorki meira né minna. Það er með miklum semingi gert eins og til þess að sýna dyggðinni svip sinn að ríkisvaldið talar nú hástemmt um frjálsa samninga. Þetta verður til þess að þetta hugtak verður við þessar kringumstæður skrumskæld og afkáraleg stæling á hugmyndum, sem gripnar hafa verið á lofti, til þess eins notaðar að viðra sig upp við launamanninn, en ganga um leið fram hjá því sem raunverulegu máli skiptir.

Frelsi það sem BJ vill og við töluðum um í stjórnarmyndunarviðræðunum inniheldur raunverulegt frelsi allra, þar sem grundvallarlífskjör launamanna og þá sérstaklega þjóðfétagshópa, sem hafa sérþarfir og standa höllum fæti t.d. vegna heilsufars og örorku, eru tryggð. Vegna þess að frelsi án öruggrar afkomu og mannlegrar reisnar er ekki til.

Eins og nú er komið er hætt við því að ugg setji að brjósti launamannsins og hann óttist það að afnám samningsréttarins hafi fengið stimpil sem einhver óhjákvæmilegur dómur, hagstjórnartæki, sem beitt verði óspart á komandi árum sem skammtímaúrlausn efnahagsvandans.

Fjórflokkarnir eru allir undir sömu sökina seldir. Hv þm. Karvel Pálmason komst svo ágætlega að orði í máli sínu s.l. mánudag þegar hann sagði eitthvað á þessa leið: Allir hafa þeir á einhvern hátt átt eitthvað við að skerða launin. Og hver er líka munurinn á að fresta hækkun launa, eins og Alþb. talaði um að vilja framkvæma, og því að afnema launahækkanir? Þetta leiðir allt til sömu áttar og hefur sömu áhrif. Ríkisvaldið ætti í rauninni að hyggja mun betur að þessum atriðum og sjá sóma sinn í því að leggja áherslu á þau fagurlegu ummæli, sem viðhöfð voru af ríkisstj. hálfu í stefnuræðu og umr. um hana 18. okt. s.l., þegar verið var að tala um að styrkja eina meginstoðina í þjóðlífinu, og fjölskyldan og samband hennar við börnin þá gjarnan nefnd sem dæmi.

Nú er aftur á móti svo komið að þessar meginstoðir eru illa staddar, það vantar mikið upp á það að endarnir nái saman, og það fer versnandi, að því er t.d. upplýsingar frá Félagsmálastofnun benda sterklega til, vegna þess að í ágústlok höfðu 20% fleiri einstaklingar fengið fjárhagsaðstoð en á sama tíma í fyrra. Hvaða aðgerðir ríkisvaldið hefur á prjónunum til að greiða úr kreppu þessara meginstoða þjóðlífsins, eins og það var orðað, væri fróðlegt að heyra, a.m.k. ef þessi heimili eiga að standa undir því að börnin þeirra, sú kynslóð sem er að vaxa úr grasi, eigi að verða eitthvað raunhæft til að byggja framtíðina á. Fögur orð um gildi fjölskyldunnar duga ekki, það þarf raunhæfar aðgerðir til. Þá á ég einfaldlega við það að fólk getur ekki fallist á það að sýna hófsemi í hvívetna ef spegill ríkisvaldsins segir fólkinu hvernig það sjálft bruðlar og ekkert er raunhæft gert til að stöðva fjárausturinn sem ekkert lát virðist vera á og engum arði skilar í þjóðarbúið. Og það sem verra er, þetta eykur enn meira á óyfirstíganlega skuldabyrði þjóðarinnar.

Afnám samningsréttarins er auðvitað hin mesta hneisa. Það er ótrúlegt og óhugnanlegt að fulltrúar ríkisvaldsins skuli ekki hafa dómgreind til þess að sjá að þegar þeir hafa tekið það til bragðs að svipta þegnana grundvallarmannréttindum, þ.e. verði brbl. samþykkt á Alþingi, þá jafngildir það því að Ísland er ekki lengur í hópi lýðræðisríkja. Þess vegna vona ég að hv. alþm. beri gæfu til að afneita þessu pólska ástandi, afneita þessum brbl. um launamál, sem fela í sér afnám samningsréttarins til 31. jan. 1984, og það sem verra er, að eftir það er búið að troða ákveðinni prósentuhækkun upp á samningsaðila, og því segir raunveruleikinn okkur að það er ekki um neitt verulegt svigrúm að ræða til samninga um launahækkanir í lok þessa tímabils og a.m.k. alls ekki til frjálsra kjarasamninga. Hugtakið „frjálsir kjarasamningar í janúarlok“ varð því eins og útskrúfuð setning í lélegum sjónleik í munni hæstv. forsrh. og nú síðast hér áðan einnig hv. þm. Þorsteins Pálssonar, þegar jafnframt stendur í fjárlagafrv. að svigrúm til launahækkana verði ekki meira en 4–6% að meðaltali á árinu 1984.

Í máli hæstv. utanrrh. hér áðan var einnig minnst á þetta litla svigrúm, sem vonandi er, þannig að ekki eru nú líkurnar á miklu svigrúmi fyrir hendi.

Enn fremur segir í fjárlagafrv.: „Með slíkri stefnumörkun er brotið blað í efnahagsstjórn hér á landi.“ Þetta er rétt og þetta er okkur ekki sæmandi, okkur sem litið höfum svo á að við séum þjóð sem búi í lýðræðislandi, því með þessu móti gerum við það ekki. Og mér er spurn: Hver var að tala um frjálsa kjarasamninga?