14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2833 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég er ekki búinn að kveðja mér hljóðs, en það er allt í lagi, ég skal taka til máls.

Ég vil fyrst, virðulegi forseti, taka það fram að í auglýsingu um sölu ríkiseigna er sérstaklega getið um að þau hlutabréf sem fjmrn. auglýsti yrðu seld hæstbjóðanda, fáist viðunandi boð. Einnig var það mikið rætt að gefa sem flestum kost á að eignast hluti í þeim fyrirtækjum, sem fjmrn. átti hlutabréf í, með því að taka fram í auglýsingunni að kaupendum verði gefinn kostur á að greiða allt að 80% kaupverðsins á tíu árum á verðtryggðum kjörum. Þetta var gert til þess að það yrðu ekki eingöngu þeir sem ættu kannske hvað mest af lausafé sem gætu ráðið því hvert bréfin færu, heldur þeir sem hefðu áhuga á miðað við að geta greitt þau upp á þessum langa tíma. Ég held að það sé óvanalegt í viðskiptum með hlutabréf að slíkur greiðslufrestur sé gefinn og er það einmitt vegna þess að ríkið á hér í hlut og ég vildi að sem flestir gætu átt tækifæri til þess að gerast þátttakendur í þeim fyrirtækjum sem eru til sölu.

Með leyfi fyrirspyrjanda fer ég eftir þeim spurningum sem ég fékk skriflegar í dag frá honum—ef ég má svara þeim í þeirri röð: Hve mörg tilboð bárust fyrir 1. febr. — tvö, þrjú eða fjögur?

Þau hafa líklega verið þrjú, en þriðja tilboðið var ekki opnað fyrr en eftir 1. febr., það fjórða þó nokkru eftir 1. febr.

Önnur spurningin var: „Bréfin verða ekki seld nafnlausum kaupanda“, er haft eftir mér. Má ekki einn kaupa í umboði annars?

Að sjálfsögðu má hver kaupa. Ég veit ekki hver er bak við kaupanda eins og t.d. í tilboðum Eimskipafélags Íslands sjálfs. Eimskipafélagið hafði hug á að kaupa þessi bréf til að selja svo aftur öðrum. Eimskipafélagið á þegar óseld bréf. Hlutabréf eru til sölu — að vísu ekki ótakmarkað — fyrir þann sem vill kaupa, heldur lítið í einu, en þau eru til sölu. Eimskipafélagið hafði hugsað sér að kaupa þessi bréf sjálft til að dreifa þeim meðal landsmanna. Ekki hafði ég hugmynd um hvar þau bréf mundu endanlega lenda frekar en hjá öðrum tilbjóðendum. Þetta er því svolítið slitið úr samhengi.

3. Er rétt að tilboð hafi verið opnuð jafnóðum og þau bárust?

Það er alveg rétt. Tilboð voru opnuð jafnóðum og þau bárust. Ég minnist þess ekki að eitt einasta af þessum tilboðum hafi verið sérmerkt tilboð í þetta eða tilboð í hitt, ég minnist þess ekki. Og ég opna bréf eins fljótt og ég hef tíma til. Það kemur þó fyrir að bréf liggi nokkra daga óopnuð vegna anna í rn. eða anna í kringum mig.

Ég verð nú að segja alveg eins og er að ég hef ekki hingað til verið talinn afglapi í viðskiptum, nema síður sé. Ég er búinn að reka viðskipti og fyrirtæki bæði hérlendis og erlendis jafnframt því að vera atvinnumaður í íþróttum og það hefur yfirleitt gengið nokkuð vel. Þau fyrirtæki sem ég hef rekið hér, bæði í eigin nafni og í hlutafélagaformi, hafa líka gengið nokkuð vel og sum þeirra náð sér eftir kannske margra ára sjúkleika. Ég vísa því nú frá að mig skorti viðskiptavit. Ég held að fyrirspyrjandi hafi minni reynslu en ég í fyrirtækjarekstri — a.m.k. þekki ég ekki til þeirra fyrirtækja sem hann hefur spreytt sig á.

En hvernig er þá með hæstbjóðendur? Ég fer eftir auglýsingunni og segi: Ekkert tilboð í bréf Eimskipafélagsins hefur verið viðunandi. Og ekkert tilboðanna sem koma í Flugleiðir er heldur viðunandi í mínum huga. Er það virkilega vilji Alþingis að ég selji hæstbjóðanda af þeim bréfum sem liggja fyrir Eimskipafélagið með sínar milljarðaeignir hefur 60 millj. kr. í hlutafé. Við erum hér að tala um milli 5 og 6% hlutabréfa í Eimskipafélaginu á 5 millj. eða svo. Ég trúi því ekki að nokkur alþm. vilji greiða því atkv. að ég taki hæsta boði sem nú liggur fyrir — fyrir utan að þetta stór hlutur, þó lítill sé kannske, getur verið ráðandi hlutur á aðalfundum Eimskipafélagsins vegna þess að hlutabréf Eimskipafélagsins eru dreifð vítt og breitt, ég mundi segja jafnvel um heiminn, og það er tiltölulega lítill hluti af hlutafjáreigninni sem er hverju sinni viðstaddur á aðalfundum.

Þar fyrir utan er Eimskipafélagið með interessu, ef ég má nota það orð, að 20% í öðru fyrirtæki, sem er líklega stærsti vinnuveitandi á landinu, þ.e. Flugleiðir. Þetta fylgir Eimskipafélagsbréfunum. Ég hefði líklega verið bæði „fool“ og „crook“, ég man nú ekki hvernig það var, hefði ég selt bréfin. Hefði ég selt bréfin hefði verið hægt að segja: maðurinn er kjáni og eitthvað hlýtur að vera gruggugt þarna á bak við — en ég gerði hvorugt. En það getur verið að í hugum einhverra sé ég hvort tveggja.

Ég held að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín bárust. Ég reikna með að fátítt sé að kaupendur geti fengið svo rúman greiðslutíma þannig að sem flestum verði gefinn kostur á að eignast bréfin. Og ég held að það hafi ekki verið staðið einkennilega að óskum um tilboð í þessi bréf og síst af öllu held ég að hafi verið brotið siðgæði í fjmrn. eins og að var staðið.

Það er rétt að ég hef greint fjölmiðlum frá tilboðunum, en ég hef ekki greint frá þeim eftir því sem þau bárust. Það hefur mikið verið spurt um þetta á löngum tíma, allt frá því að auglýst var. En ég vil gera greinarmun á því þegar boðið er út eitthvert verk og kallað er eftir samkeppni um að fá verk unnið til að fá það eins ódýrt og hægt er og því, sem er allt annars eðlis, þegar boðin er út eign þar sem reynt er að fá sem mest út úr boðunum. Það gengur nú þannig jafnvel hjá fasteignasölum að þeir segja hvaða boð eru komin — ef einhver aðili kemur og hefur áhuga fyrir kaupum segja þeir oft hvað boðið hefur verið mikið í viðkomandi eign til að fá meira út úr eigninni og sölunni. Það er ekki sama hvort verið er að kaupa vinnu, láta gera eitthvað fyrir sig í útboði, eða hvort verið er að óska eftir tilboðum þegar leitað er eftir hæsta verði í eitthvað sem þarf að selja. Það er oft þannig að menn þurfa kannske að selja hlutabréf og selja sínar eignir ódýrt vegna þess að þeir eru í peningavandræðum, þurfa að fá peninga sem fyrst. Þá eru það oftast nær peningamenn sem geta ráðið því hvað þeir fá viðkomandi eign á. Ég held því að ég hafi gætt hagsmuna ríkisins þarna eins og ég best kann. Ég seldi engum og kemur ekki til að ég samþykki neitt af þeim tilboðum sem fram eru komin í Eimskipafélag Ístands né heldur í Flugleiðir.

Ég held að það sé ljósara en nokkru sinni áður að hér vantar markað fyrir einmitt þær eignir fólksins sem eru í hlutabréfum. Það er margur fátækur maðurinn sem á bréf í Eimskipafélagi Íslands, sem ekki er há upphæð vegna þess að bréfin eru ekki rétt metin, og fólkið heldur að það sé ekki með nein verðmæti, en ef sömu bréf væru rétt metin væri fólkið með mörgum sinnum meira á milli handanna en það hefur í dag. Því þarf að koma hér markaður fyrir bréfin, þar sem hlutabréf og verðbréf yfirleitt eru skráð frá degi til dags. Það er í seðlabankalögunum að Seðlabankinn skuli annast þessa þjónustu og ég vona að þess verði ekki langt að bíða að Seðlabankinn láti verða af því.

Nú man ég ekki hvernig hlutafélagalögin eru, en ég held að nú sé búið að taka út úr lögunum að bjóða verði stjórn.og stjórn verði að bjóða hluthöfum sem hafa forgang o.s.frv. Ég held að þegar fyrirtæki er komið yfir ákveðna stærð, ákveðna upphæð í hlutafé og ákveðinn fjölda hluthafa, sé tilkynningarskylda nóg. Við verðum að átta okkur á hvernig bréf í fyrirtækjum, sem við erum með, eru yfirleitt til komin og verðum líka að gæta þess að einhver braskkaupmennska eigi sér ekki stað þar sem yfirráð einstaklinga geta raskað þeim hlutföllum og þeirri ró sem er yfir annars góðum fyrirtækjum. Við verðum að gæta þess að þessari sameign þjóðarinnar verði dreift jafnt, en ekki þannig að hún raski eignarhlutföllum eða jafnvel valdahlutföllum.

Það er spurt í hvaða umboði ég hafi leyfi til að banna einhverjum að kaupa. Ég vil þá spyrja á móti: Hvar get ég annars staðar fengið valdboð en frá Alþingi að selja? Ég get ekki hlýtt neinu öðru en Alþingi. Ef samviska mín er ekki nóg í þessu eða einhverju öðru verð ég að taka afleiðingum af því að Alþingi setji ofan í við mig og breyti mínum ákvörðunum. Ég er reiðubúinn að leggja afgreiðslu mína á hlutabréfameðferð Eimskipafélags Íslands og væntanlega í Flugleiðum fyrir Alþingi. Hvaða vit er í því þegar mat á bréfum Flugleiða er eingöngu bundið við það sem við sjáum hér fyrir framan okkur, bílaleigu, hótel og þjónustu félagsins hér, en allt hið gríðarlega mikla net, sem fjárfest hefur verið í um víða veröld með eignum og „goodwill“ sem kallað er, er ekkert metið? Hver ætlar að segja mér að Eimskipafélagið sé ekki meira virði en kannske hluti af því húsi sem þeir hafa skrifstofurnar í, um 60 millj.? Ég efast um að með lóð og öllu í hjarta miðborgarinnar fengist skrifstofubygging fyrir 60 millj. Það er verið að kaupa einn uppskipunarkrana. Hann á að kosta 45–50 millj. miðað við verðgildi í dag. Ég er reiðubúinn að taka dómi Alþingis og dómi þjóðarinnar á meðhöndlun minni á þessum bréfum.

Það er rétt að þegar boðið er í verk eru tilboðin opnuð öll saman, en þegar eignir eru seldar er reynt að leita að hæstbjóðanda. Það er eðlismunur á því. Ég hef því ekki heldur að mínu mati staðið þar rangt að, er reiðubúinn enn þá að hlíta dómi Alþingis. Höfuðatriðið er að rétt sé að staðið. Það er orðið höfuðatriði fyrir mig þar sem níðgrein sem um mig var skrifuð vegna þess að ég tók ekki boði þeirra sem ætluðu sér að ná þessum bréfum á 5 millj. með greiðslufresti er undirstrikuð með því að taka málið á dagskrá hv. Alþingis. Það hefur ekki fallið dómur Alþingis í þessu máli vegna mín sem ráðh. og vegna þess áburðar, sem kemur fram í þeirri grein sem hér er undirstrikuð með þessum hætti, að ég sé bæði „foot“ og „crooked“.

Það er nýtt fyrir mig hvort tveggja. Ég hef komist á sjötugsaldur án þess að gera flugu mein. Ég hef reynt að haga mér allt öðruvísi en að gera fólki einhvern grikk. Kannske að ég sé að gera það hér, gera þjóðinni illt. Almenningur verður að geta treyst því að rétt sé að staðið. Að sjálfsögðu verður Alþingi að dæma hvort hér hefur verið rétt að staðið.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að þetta mál verði lagt fyrir Alþingi og verði borið undir Alþingi. Og ég vil fá að vita hvort ég hafi staðið hér rangt að málum, hvort ég hafi ekki gætt hagsmuna þjóðarinnar, hagsmuna ríkissjóðs í þessu tilfelli. Sem ráðh. hlýt ég að eiga kröfu til þess að vera þá dæmdur á Alþingi og mín störf úr því að málið er hér á dagskrá.