14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ekki skal ég áfellast hæstv. fjmrh. fyrir að leggja ekki í að selja bréfin í Flugleiðum eða í Eimskipafélaginu. Við höfum heyrt af þeim boðum sem boðin hafa verið í Eimskipafélagsbréfin og vil ég láta í ljós þá skoðun mína að þarna sé um að ræða blómlega eign sem engin ástæða sé til fyrir ríkið að losa sig við. Bæði þessi fyrirtæki eru mikil þjóðþrifafyrirtæki ef rétt er á haldið og það er ekkert óeðlilegt þó að ríkið eigi hluta í þeim og geti líka haft nokkra hönd í bagga með rekstri þeirra. Tökum sem dæmi Flugleiðir sem gegna mjög veigamiklu hlutverki í að halda uppi samgöngum við landið og eru þar alveg í sérflokki af flugfélögum að vera. Það er mjög óskynsamlegt af þeim sem eiga að vera gæslumenn hagsmuna ríkisins ef þeir færu að sleppa hendinni af því fyrirtæki, ef svo mætti segja.

Ég er hjartanlega sammála þeirri niðurstöðu fjmrh., að ekki komi til greina að selja þetta. Hins vegar hef ég ekki verið algjörlega dús við sum ummæli sem fjmrh. hefur látið í hita leiksins falla við blaðamenn, bæði út af sölu hlutabréfa — nú síðast — í sérstöku fyriræki, Eimskipafélagi Íslands, og almennt áður um söluhorfur eða sölumöguleika á ýmsum öðrum fyrirtækjum. Það birtist auglýsing, dags. 7. des. 1983, þar sem fjmrn. auglýsir eftir tilboðum í hlutabréf ríkissjóðs í 15 fyrirtækjum sem þar eru upp talin og jafnframt er getið nafnverðs hlutabréfanna og að endingu um að hlutabréfin verði seld hæstbjóðanda fáist viðunandi tilboð. Síðan er nánar kveðið á um greiðslukjör.

Auðvitað hefur fjmrh. alltaf vitað það, og annað þarf fyrrv. fjmrh. ekki að ætta honum, að hann þarf að bera þetta undir Alþingi. Hann er ekki einráður á þessu sviði. Það stendur ekki í hans valdi að selja eignir ríkisins öðruvísi en fá til þess heimild Alþingis og þá þarf hann að hafa þingmeirihluta á bak við sig til að geta komið fram sölu, hvað svo sem hann kann að langa til að selja. Ég hef aldrei ímyndað mér að hæstv. fjmrh. hygðist reyna að fara fram hjá þessu. Hann hefur látið okkur samstarfsmenn sína vita mjög glögglega að hann hefur alla tíð munað þetta. Mér er ánægja að bera það.

En hann hefur hins vegar verið mjög óspar á að ræða ýmsa möguleika á sölu ríkiseigna og um það hefur myndast mikil og gagnslítil umr. Einstakir blaðamenn í landinu hafa sýnt þessu verulegan áhuga og gert þarna að mínum dómi úlfalda úr mýflugunni. Auðvitað getur vel komið til greina að selja einstök ríkisfyrirtæki og það getur verið allt í góðu lagi með það og þó að ríkið eignist hlutabréf í einhverjum fyrirtækjum eða jafnvel hafi komið þeim á fót er það ekki endilega sjálfsagður hlutur að ríkið eigi þau um alla tíð. Á þessum lista, þar sem hæstv. fjmrh. hefur lýst eftir tilboðum, eru fyrirtæki sem að mínum dómi kemur ekki til greina að selja. En sum þeirra er e.t.v. eðlilegt að selja. Þarna eru fyrirtæki sem ríkið hefur verið að aðstoða við að koma á fót og fyrirtæki sem velferð heilla byggðarlaga hvílir e.t.v. á. Fyrirtæki á þessum lista sem ég þekki best til kem ég ekki til með að samþykkja sölu á fyrir mitt leyti. Ég vil enn fremur geta þess að mér finnst það fremur ónærgætið við starfsfólk þessara fyrirtækja ef það fengi það á tilfinninguna allt í einu að starfsvettvangur þess væri kominn á uppboð.

Ég sé hins vegar enga ástæðu til þess að Alþingi fari að úrskurða eitt eða neitt í því efni. Mér finnst það liggja alveg ljóst fyrir að meiri hl. Alþingis er sammála fjmrh. um að ástæðulaust sé að taka þeim tilboðum sem borist hafa í Eimskipafélagsbréfin og skynsamlegra sé og réttara fyrir ríkið að eiga þau áfram. Ég sé enga ástæðu til að fara að gera hér neina formlega ályktun út af því.