14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf úr þessum ræðustóli áðan við þeim spurningum sem ég bar hér fram. En ég verð nú að segja eins og er að svör hæstv. ráðh. ollu mér nokkrum vonbrigðum. Ég spurði hversu mörg tilboðin hefðu verið. Hann sagði þau hafa líklega verið þrjú. Töluna fjóra nefndi hann raunar líka, hafa líklega verið þrjú. Þetta mál hefur í rauninni gengið svo furðulega fyrir sig að með ólíkindum er. Og ég verð að segja það hæstv. fjmrh., að mér þykir ráðh. hafa verið nokkuð yfirlýsingaglaður í þessu máli.

Hinn 1. febrúar sagði hæstv. fjmrh. eftirfarandi í viðtali við dagblaðið Tímann og ég hef ekki séð það borið til baka eða leiðrétt. Þar segir með leyfi forseta:

„Ég ætla næstu daga að ganga frá sölu á hlutabréfum í Eimskipafélagi Íslands“, sagði Albert Guðmundsson, „en það hefur komið fram velvilji í ríkisstj. um að þessi bréf verði seld. Ég tel tilboð það sem gert hefur verið í bréfin vera aðgengilegt, og það kemur frá Eimskipafélaginu sjálfu, sem síðan hyggst selja bréfin til félagsmanna sinna og starfsmanna.“ Síðan er hér vitnað í hæstv. forsrh. sem segist ekki sjá nokkra ástæðu til að ríkið eigi hlut í Eimskipafélagi Íslands.

Hér segir hæstv. fjmrh. alveg skýrt og skilmerkilega að hann ætli að selja þessi bréf. Ég fagna þeirri yfirlýsingu, sem hann gaf hér áðan, að hann skuli nú hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekkert af þessum tveimur, þremur eða fjórum tilboðum, jafnvel ekki það sem kallað var eftir, sé þess eðlis að ástæða sé að taka því. Ég held að þetta sé alveg rétt ákvörðun. En hins vegar er svo það, sem hæstv. fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ragnar Arnalds, ræddi hér áðan, að sjálfsagt hefur hæstv. fjmrh. enga heimild til að gera þetta. Til þess þarf að koma samþykki Alþingis. Og mér sýnist ekkert benda til þess að meiri hluti sé fyrir því hér á Alþingi að selja þessi hlutabréf. Ég held líka að það sé rangt. Ég held að það sé ekkert á móti því, eins og hér hefur raunar komið fram hjá fleiri hv. þm., að ríkið eigi nokkra aðild að þessum stóru flutningafyrirtækjum eins og Flugleiðum og Eimskipafélagi Íslands. Ég held að það sé hreint ekkert óeðlilegt.

Önnur spurning mín fjallaði um þau ummæti hæstv. fjmrh. að þessi bréf yrðu ekki seld nafnlausum kaupanda. g hef enn ekki fengið skýringu á því hvernig hæstv. fjmrh. ætlar að velja kaupendur með þessum hætti þar sem hann segir annars vegar að hér eigi að vera markaður með slík hlutabréf. Það er alveg rétt, það væri ekkert á móti því, það væri sjálfsagt æskilegt að hér væri markaður með slík hlutabréf þar sem menn gætu keypt og selt eftir vild, og þá væntanlega líka í umboði, eins og reglan er nú t.d. á bandaríska verðbréfamarkaðinum, þar sem sérstakir verðbréfasalar, kaupendur, versla í umboði annarra og fyrir almenning, eru fulltrúar þeirra sem fjárfesta í fyrirtækjunum. En hins vegar segir svo hæstv. ráðh. að það verði að hafa hér hönd í bagga og það megi ekki raska þeirri ró og þeim friði sem verið hafi um þetta. Ég skil það svo að eignarhlutföll í Eimskipafélaginu megi samkvæmt því ekki breytast mjög mikið. Það gæti raskað rónni ef þannig færi. Þetta tvennt rekur sig nú raunar hvort á annars horn að mér finnst.

Herra forseti. Það mætti rekja ýmislegt fleira úr þessum blaðayfirlýsingum hæstv. fjmrh. ef ástæða þætti til. Mörg ummælin eru vissulega þess eðlis að ástæða væri til að huga frekar að þeim, m.a. hve ráðh. hefur gengið illa að vera sjálfum sér samkvæmur um það hversu mörg þessi tilboð eru. En ég held að það gefi auga leið að það eru ekki heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir, þegar slík verslun á sér stað, að tilboðin séu opnuð jafnóðum og þau berast.

Ég endurtek það hér að ég er ekki að væna hæstv. ráðh. um neinn óheiðarleika í þessu máli, fjarri sé það mér. Ég veit að hann hefur mikla reynslu í rekstri fyrirtækja. En ég held samt að hann geti spurst nokkuð víða fyrir bæði í embættismannakerfi ríkisins og hjá kaupsýslumönnum sem stunda viðskipti og ég hugsa að hann þyrfti að leita lengi til að finna mann sem teldi þetta vera eðlilega viðskiptahætti. Ég held að fyrst og fremst hafi verið staðið afskaplega óheppilega og klaufalega að öllu þessu máli alveg frá upphafi. Það er það sem ég vil átelja og ég held að menn ættu að hafa það að leiðarljósi í framtíðinni, þegar slíkir hlutir koma til umræðu, að þannig eigi ekki að standa að sölu eigna ríkisins. Og ég sagði það hér áðan og segi aftur að það skiptir meginmáli að almenningur geti treyst því að hér sé rétt og heiðarlega að staðið.

Hæstv. fjmrh. vill að Alþingi taki afstöðu til þess hvort hann hafi farið hér rétt að eða hvort hér hafi verið farið klaufalega að eða jafnvel rangt. Hann getur auðvitað ekki fengið skorið úr því með öðrum hætti en að flytja sjálfur málið inn í þingsali með einhverjum hætti. Ég hef vakið máls á þessu hér utan dagskrár. En eins og hæstv. ráðh. veit þá leiða umr. utan dagskrár ekki til ályktana af sjálfu sér. Hæstv. ráðh. er svo þingvanur maður að hann veit það. Til þess að um mál verði ályktað verður að flytja það með þinglegum hætti, á þingskjali. Auðvitað mætti hugsa sé að flytja vantraust á hæstv. fjmrh. Ég tel engin efni til þess og mun ekki beita mér fyrir því. Ég átel að hér hafi ekki verið staðið rétt að verki, og það er allt annað hvað átalið er og gagnrýnt en að flytja vantraust á ráðh. Ég tel þetta mál ekki þannig vaxið að til þess séu efni, það tek ég skýrt fram, ekki á þessu stigi. Vilji hæstv. ráðh. fá fram vilja þingsins og skoðun verður hann auðvitað sjálfur að flytja málið inn í þingsali með þingformlegum hætti.