14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2850 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja um þetta mál, að það var eins og mig grunaði að hæstv. ráðh. hafði aukafjárveitingar í huga þegar hann mælti þau orð... (Fjmrh.: Ekki aukafjárveitingar.) Jú, það kallar maður aukafjárveitingar þegar fjmrh. tekur ákvarðanir um fjárveitingar sem ekki er gert ráð fyrir í fjárl. eða fjárlfrv. Það heita aukafjárveitingar og hafa alltaf heitið og þessar ákvarðanir fjmrh. hafa bæði í minni tíð og tíð fyrri fjmrh. byggst á lögum um skiptingu rn. þar sem skýrt er tekið fram að fjárlaga- og hagsýslustofnun taki ákvarðanir m.a. um aukafjárveitingar sem seinna eru staðfestar af Alþingi með fjáraukalögum. Er enginn munur þarna á. Það er ekki hægt að flokka aukafjárveitingar í tvo flokka, eins og hann virtist vera að gefa í skyn áðan. Það eru ósköp einfaldlega bara til fjárveitingar sem gefnar eru út eftir að fjárl. hafa verið afgreidd. Þær heita aukafjárveitingar. Ég hygg að þær hafi alls ekkert verið fleiri í minni tíð en í tíð margra annarra fjmrh. Þær gefa greinilega ekki tilefni til þeirra orða sem hæstv. fjmrh. mælti áðan.