15.02.1984
Efri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2862 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir hefur leitt af sér umr. um stjórnarstefnu almennt og fyrirætlanir ríkisstj. í efnahagsmálum. Kjarni þessa frv. er eins og oft hefur hér verið tíundað sá að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Ég held að það sé ekki vafi. Er óskiljanlegt að stuðningsmenn þessa frv. skuli ekki viðurkenna blátt áfram að það er tilgangurinn með þessu frv. Það liggur alveg fyrir að í því ástandi sem er á alþýðuheimilunum í dag nýtur ekki fátæka fólkið góðs af þessu heldur þeir sem eiga eitthvað afgangs. Þeir sem fátækir eru setja sitt fé í að kaupa mat og klæði og hafa ekkert afgangs í dag. Ég held að menn þurfi ekki að rífast um það. Ég tel að ef menn vilja breyta til í þessum efnum, að gera atvinnulífinu auðveldara að blómgast, hefði verið ástæða til að leita annarra leiða en þessarar. Ég sé ekki annað en atvinnufyrirtæki gangi mjög vel í dag, miklu betur en nokkru sinni áður þannig að ónauðsynlegt er að ríkið fari að gefa þeim sem fé hafa skattívilnanir til að leggja til fyrirtækjareksturs.

Komið var inn á það áðan að þetta frv. væri liður í því að hverfa frá því velferðarkerfi sem við höfum búið við í þjóðfélaginu. Ég er fullviss um að svo er. Það tók langa og harða baráttu að koma þessu kerfi á. Velferðarþjóðfélagið hefur verið á margan hátt stolt okkar Íslendinga þrátt fyrir útúrboruhátt einstaklinga sem hafa leitað sér festu eða stuðnings í úreltum hagfræðikenningum erlendis frá sem duga þar sem ófrelsi og ánauð ríkir og þar sem þrælahald ríkir beinlínis, en slíkt á ekki við í okkar íslenska þjóðfélagi.

Við gerum okkur vissulega ljóst að velferðarkerfi sem mótast af öflugum tryggingum, heilbrigðisþjónustu og menntunarkerfi kostar mikla fjármuni. Nú þegar það hefur verið um nokkra stund hafa komið upp raddir um að of langt væri gengið. Þessar raddir hafa mátt sín of mikils núna, ekki vegna þess að kjósendur hafi kosið slíka stefnu yfir sig, það er rangt. Þegar kosningabaráttan fór fram vissu menn ekki t.d. annað en Framsfl. væri félagshyggjuflokkur, flokkur sem hefði trú á því að byggja upp þjóðfélag sem væri nær fólkinu en sú íhaldsstefna sem hér er verið að marka. En nú þegar búið er að mynda ríkisstj. umhverfast þessir piltar, selja sína sannfæringu þessum útúrborumönnum sem ekkert sjá annað en að gera þá ríku ríkari og fátæku fátækari. Það er mjög alvarlegt sem hér er að gerast.

Þegar sá þvættingur kemur hér fram að almenningur í landinu hafi kosið þessa ríkisstj. er langt gengið. Svo er ekki. (TÁ: Hvað sagði Haraldur?) Haraldur Guðmundsson ræddi ekki um þessa ríkisstj. sem betur fer. Ég vona að hann geri það ekki, ég hef ekki heyrt um það. En þegar kosningabaráttan átti sér stað var fólkið að kjósa allt annað en hér birtist.

Ég get verið sammála mönnum um að allur almenningur í landinu vildi komast frá þeirri verðbólgu sem fyrrv. ríkisstj. og fyrrv. ríkisstjórnir höfðu skapað. Það er alveg ljóst. Menn vildu færa fórn fyrir betri framtíð. Í því var t.d. fólgið að ráða niðurlögum verðbólgu. En að beita þeim aðferðum sem beitt hefur verið, að koma fólki niður á sultarstig, það var ekki hugmynd kjósenda að gera slíkt.

Gaman væri að vita hvort þetta frv. hafi verið sent til umsagnar Sambands ísl. samvinnufélaga og hvort það er í takt við hugsjónir samvinnustefnunnar að fara svona að. Ég hélt að það væri nú eitthvað annað. En kannske framsóknarmenn séu svo heillum horfnir að þeim komi það ekkert við lengur.

Aðalatriðið í þessu máli er að þeir sem grimmast vilja ganga gegn lífskjörum fólksins í landinu hafa hér haft yfirtökin og eru nú að ná fram sínu ætlunarverki. Auðvitað verður framkvæmdin þannig að allur almenningur er skattlagður fyrir þá auðugu einstaklinga sem hafa tækifæri til að leggja fé í þessi fyrirtæki og njóta skattívilnunar af. Eins og fram kemur er þetta þáttur í að breyta þjóðfélaginu á þann veg að koma því afturábak um nokkra áratugi. Það getur verið skoðun þessara manna að gera svo en ég er mjög andvígur þeim leiðum.

Fjmrh. tíundaði áðan að hann hefði þurft að þola fátækt í æsku. Margur hefur þurft þess. Hitt er annað mál að svo virðist sem þessi reynsla hafi framkallað þá biturð gagnvart þeim fátæku sem birtist í því að vilja gera enn fleiri fátækari en þeir væru annars. Kannske hefur það átt sér stað.

Ég minnist þess að einhvern tíma las ég það að maður bað mönnum fyrirgefningar vegna þess að þeir vissu ekki hvað þeir væru að gjöra. (Gripið fram í.) Ég er sannfærður um að fjmrh. veit ekki hvað hann er að gjöra en ég bið honum ekki fyrirgefningar því að mennirnir sem með honum sitja í ríkisstj. ættu þá að segja honum til.