15.02.1984
Efri deild: 52. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2868 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

181. mál, sala jarðarinnar Bæjarstæðis í Seyðisfjarðarhreppi

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Sem meginreglu vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég er yfirleitt andvígur því að verið sé að selja ríkisjarðir, almennt sagt og almennt séð. Ég held að ríkið eigi að eiga sínar jarðir áfram. Raunar væri þessu best fyrir komið ef þjóðin ætti allt land, eins og við Alþfl.-menn höfum raunar flutt um frv. Þess vegna er ég heldur andvígur því að verið sé að selja einstakar jarðir úr eigu ríkisins til einstaklinga, þó að slíkt geti átt rétt á sér í vissum tilvikum.

En meginástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli var, virðulegi forseti, að benda á það misræmi sem er varðandi ráðstöfun eigna ríkisins. Hér er verið að tala um eyðijörð, einhvern jarðnæðisskika sem hefur verið í eyði í áratugi, og um það þarf sérstaka löggjöf frá Alþingi, en svo þegar kemur til þess að selja hlutabréf ríkisins í stærstu fyrirtækjum landsins, sem eru milljóna og aftur milljóna virði og milljónatuga virði, virðist svo sem hæstv. fjmrh. geti tekið um það einfalda ákvörðun og atbeini löggjafans þurfi hvergi að koma þar að. Þetta er, held ég, misræmi sem okkur, sem sitjum hér á Alþingi, ber í rauninni skylda til að leiðrétta.