15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2879 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

61. mál, land í þjóðareign

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru bara örfá orð. Búið er að ræða þetta frv. í líkum búningi og sama á undanförnum 14 árum þannig að óþarfi er að eyða miklum tíma í að ræða þetta mál. Ég tel að þetta frv. sé í sjálfu sér alveg óþarft að öðru leyti en því að það yrði kærkomið fyrir lögfræðinga vegna þess að líklegt er að af stað færu ýmis málaferli út af hálendinu. Ég held að þetta geti ekki orðið til annars eins og þetta er samið.

Það sem er í grg. á 5. síðu er bara draumur Alþfl.forustunnar að þannig verði þetta í framtíðinni. En hér stendur í 1. gr.:

„Þau landsvæði skulu teljast þjóðareign sem eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast ekki fyrir.“

Hver myndi eiga þetta annar en þjóðin ef enginn á það? Ég held að þetta sé algjör óþarfi. Ekki er verið að taka neitt land sem aðrir geta sannað að þeir eigi. Enginn þarf að halda að þó að þetta frv. verði að lögum leysi það nokkurt mál sem deilt verður um eða mál sem eru deildar meiningar um hver eigi. Þetta færi fyrir dómstólana í hverju einasta tilviki. Sem sagt, þetta væri vertíð fyrir lögfræðingastéttina í landinu. Annað sé ég ekki að þetta frv. geri. Vel getur verið að aðaláhugamál hv. þm. sé að koma af stað góðri vertíð fyrir þá. En svona frv. leysir ekki nein mál. Það skulu menn athuga.

Það hefur sjálfsagt verið mismæli hjá 1. flm. þegar hann flutti sína framsöguræðu að hann kallaði Gunnlaug Claessen hæstaréttardómara. Hann er ekki hæstaréttardómari, hann er hæstaréttarlögmaður. Það er ekki Hæstiréttur sem er að fara fram á þetta, það er starfsmaður fjmrn. og eftirmaður Sigurðar Ólasonar. Hann skrifar þessa grein í tilefni af því að Sigurður var málflutningsmaður fjmrn. eða ríkisins í máli sem er hér fjallað um. Svo menn verða að athuga hvernig þetta er komið til. Hann er að gera þetta sem lögmaður fjmrn. en ekki sem hæstaréttardómari.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um þetta frekar því í sjálfu sér er 1. gr. aðalatriðið í þessu frv., þetta er eitt mál. En að mínu mati er þetta atveg óþarft.