15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2879 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

61. mál, land í þjóðareign

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég get alls ekki verið sammála þeim málflutningi sem kom hér fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Stefáni Valgeirssyni, 3. þm. Norðurl. e. Hann talaði um það í þeim tón að hér væri fyrst og fremst verið að búa til vertíð fyrir lögfræðinga og nú mundu hefjast upp mikil málaferli ef þessi lög yrðu samþykkt. Ég veit ekki betur en að það hafi verið margvísleg málaferli í gangi og einmitt það tómarúm sem er í löggjöfinni hefur gefið tilefni til málaferla og mun gefa tilefni til sífellt vaxandi málaferla, einmitt það að það skuli skorta ákvæði um það sem gerð er tillaga um skv. því lagafrv. sem hér er flutt.

Ég tel líka að rangt sé hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, 3. þm. Norðurl. e., að halda því fram að Hæstiréttur hafi alls ekki í raun lýst eftir því að löggjöf af þessu tagi skorti. Ljóst er af þeim hæstaréttardómi og forsendum þess hæstaréttardóms sem ég las upp áðan að Hæstiréttur gat ekki úrskurðað eignarhald á landi vegna þess að lagaákvæði skorti. Hann hafnaði eignarhaldi heimamanna sem svo eru nefndir og hann hafnaði eignarhaldi ríkisins vegna þess að lagaheimildir væru ekki fyrir hendi og hann benti beinlínis á að Alþingi væri í lófa lagið að setja þessa löggjöf, það væri hlutverk Alþingis að setja þessa löggjöf. Nær getur Hæstiréttur ekki komist án íblöndunar í löggjafarvaldið að koma þeim skilaboðum til Alþingis og löggjafarvaldsins að þessa löggjöf sé eðlilegt að setja.

Þó að ég hafi þannig við kynningu þessa máls vitnað í grein eftir Gunnlaug Claessen hæstaréttarlögmann — sem ég vona að ég hafi ekki mismælt mig um að væri hæstaréttardómari áðan, en látum það liggja á milli hluta — tel ég að það sem hann hefur um þetta að segja byggist beinlínis á þessum úrskurði Hæstaréttar og að boðin séu bein frá Hæstarétti, eins bein og þau geta verið um að löggjöf af þessu tagi skorti. Það mun vitanlega gera enn þá erfiðara fyrir að úrskurða í málum þegar engin löggjöf er fyrir hendi. Þannig að vertíðin verði áreiðanlega ekki síðri hjá lögfræðingunum ef lagaákvæðin eru ekki fyrir hendi.

Hitt þótti mér harla einkennilegt hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssyni, að ráðast eiginlega á dómstólana í landinu. Hann sagði héðan úr ræðustól að dómstólarnir hefðu úrskurðað ríkinu í vil í svona málum. Þetta er auðvitað árás á dómstólana í landinu. Ég veit ekki hvað hv. þm. hefur fyrir sér í þeim efnum en ég ætla ekki að gerast dómari yfir dómstólunum hér á þessum stað.

Þriðja ræðan sem hér var flutt var nú eiginlega gamall draugur og full af útúrsnúningum og skætingi, svo ekki sé nú sterkar tekið til orða, bón til alþm. um að fara að lesa boðorðin, umfjöllun um það að það frv. sem væri flutt fæli í sér rán og að hér væri verið að ganga á bændur og ráðast að þeim og rífa þá niður ef nokkur vegur var að skilja eitthvert samhengi í málflutningi hv. þm. Páls Péturssonar. Hann gekk m.a.s. svo langt að segja að í þessu frv. væri fólgin stefna Alþfl. gagnvart bændum og eiginlega fjandskapur við bændur. Ég mótmæli þessum málflutningi og mér finnst hann alls ekki viðeigandi á þessum stað og þegar verið er að fjalla um mál eins og þetta.

Hitt var annað mál að þessi hv. þm., Páll Pétursson, lýsti þeirri skoðun sinni að landinu væri best borgið í eign og umsjón bænda. Það getur vitaskuld átt við í ýmsum tilvikum en reynslan er nú ekki allt of góð um það hvernig menn hafa leikið landið á ýmsum stöðum, þeir sem hafa haft umsjón með ofbeit og því um líku. Það hefur þó orðið hlutverk þessarar samkomu hér að gefa sérstaka þjóðargjöf til að reyna að halda í við eyðingaröflin sem m.a. hafa verið ofbeit á landinu. Þannig að ég held að ekki sé hægt að kveða upp þann dóm kinnroðalaust að þessi umsjón landsins hafi tekist með svo miklum ágætum að allir geti þar verið stoltir af og ekkert megi um bæta.

Um þær ræður sem hér hafa verið fluttar vil ég að öðru leyti segja að mér fannst þó koma fram ríkari skilningur en mér hefur virst áður, t.d. í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssonar, á því að eðlilegt væri að það sem ekki væru eignarheimildir fyrir teldist þjóðareign. Hins vegar velti hann vöngum yfir því hvernig ætti að úrskurða það og óskaði eftir því að það yrði sett inn í löggjöfina. Ég verð að segja að mér finnst eðlilegast að þegar slíkt mál er til úrskurðar sé það dómstótanna en ekki löggjafarvaldsins að úrskurða um það hver staða málsins sé. Við höfum yfirleitt haft þann hátt á að skipta þannig verkum í þjóðfélaginu og ekki eðlilegt að löggjafinn gangi þannig inn á verksvið dómstólanna eins og það hefur verið með eðlilegum hætti. En þó að okkur greini á um þetta atriði gat ég ekki annað fundið en að hv. þm. Pálmi Jónsson teldi að þetta frv. væri að ýmsu leyti eðlilegt.

Ég vil þakka þann stuðning sem kom fram í ræðum þm. Kristínar Halldórsdóttur og Hjörleifs Guttormssonar um leið og ég mótmæli þeim útúrsnúningum sem maður varð að hlusta á einkum og sér í lagi af hálfu hv. þm. Páls Péturssonar.