15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2883 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil fyrst af öllu gera athugasemd við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Auðvitað nær ekki nokkurri átt að hér sé verið sitt í hvorri deild að ræða frv. um tekjuskatt og eignarskatt og hæstv. fjmrh. hafi ekki tíma til að sitja hér í sal á meðan fram fara umr. Mér er vel ljóst að þó magnaður sé getur hann ekki skipt sér í tvennt. Þingið verður að skipuleggja vinnubrögð sín á annan hátt. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur umr.

Ég vil enn leggja á það áherslu varðandi fyrirframgreiðslu hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, eins og fram kom réttilega í ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, að átt hefur sér stað 23% skerðing. Þetta fólk hefur ekkert til að borga af. Gera menn sér grein fyrir því að ellilífeyrisþegi sem ekkert hefur nema ellilífeyri, tekjutryggingu og svokallaða heimilisuppbót rétt losar 8 þús. kr. tekjur á mánuði? Hvað ætla hv. þm. slíku fólki að greiða? Af hverju á að taka? Ég held að það verði ekki hjá því komist að koma að einhverju leyti til móts við þetta fólk. Ég vil biðja hæstv. fjmrh. að íhuga hvort ekki sé virkilega hægt að gera það. Þurfi lagabreytingu til, sem ég skal viðurkenna að ég er ekki alveg viss um, verður að gera hana. Ég býst við að hið háa Alþingi mundi gera allt sem það gæti til að greiða fyrir því að slíkt mál fengi hér hraða afgreiðslu.

Varðandi síðara atriðið af þeim tveimur spurningum sem ég lagði hér fyrir. Við stöndum auðvitað að þeirri brtt. sem liggur fyrir á þskj. 345. Það liggur nú fyrir að túlkun okkar á brtt. meiri hl. er ekki rétt, þannig að hún veitir ekki heimild til að birta endanlega álagningu eftir að skattakærur hafa farið fram. Við munum því halda til streitu brtt. sem liggur fyrir á þskj. 345.

En ég vil lengstra orða biðja menn að hugsa alvarlega um hvers konar vinnubrögð það eru af hálfu hins opinbera að vera að taka af fólki fyrirframgreiðslur sem ekkert hefur til að borga með. Það verður jafnvel að endurgreiða þær síðar á árinu. Þetta er gersamlega óviðunandi og ber að reyna að hindra af öllum mætti.