27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

1. mál, fjárlög 1984

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Það er verið að fjalla hér um fjárlagafrv. fyrir árið 1984 og fyrir liggur einnig þjóðhagsáætlun og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Þessar upplýsingar og áætlanir eru allar mjög svo ítarlega og vel unnar, svo að úr nógu ætti nú að vera að moða. Niðurskurður til félagslegrar starfsemi er mikill. Á meðan ætlar ríkisstj. með hæstv. fjmrh. í fararbroddi — ég er nú víst ekki fyrst til að segja þetta hér í dag — að strika út skuldir sjávarútvegsins. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki heldur látið hjá líða í þessu frv. að styðja við bakið á atvinnurekendunum.

Aðalslagorðið varðandi frv. er að nú eigi að meta raunhæft hver staðan sé á næsta ári eða hver hún verði. Þetta er bara ekki rétt og það er ekki um neitt raunhæft mat að ræða. Það er auðvelt að segjast vera með raunhæft mat þegar þeir loka reikningum sínum áður en þörfin er að fullu komin fram, sbr. Lánasjóð ísl. námsmanna. Þar er þörfin 650 millj. kr., brýnasta þörf, en þeir fá 400 millj. kr. Þetta er vart hægt að kalla raunhæft mat.

Auðvitað er hægt að tína upp úr frv. ótal svipuð dæmi, en ég ætla ekki að eyða tímanum í það, heldur fara á hlaupum yfir nokkur annars lags dæmi og þá t.d. hvað fáránleiki fjárfestinga undangenginna ára kemur greinilega fram í frv. Þar er t.d. heildarfjármagnskostnaður vegna Kröflu 401.5 millj. kr., að frádregnu því sem hún annars gefur sjálf af sér, en það eru um 43.3 millj. kr. Heildarkostnaðurinn af eldri lánum við Kröflu er 358 millj. kr., sem er fram undir helmingur af framlögðu fé til allra annarra opinberra framkvæmda en vegagerðar.

Margir þættir eru mjög villandi í þessu frv. og nægir þar að benda á bls. 189. Þar segir um Byggðasjóð að vísað sé til greinargerðar um sjóðinn á eftir — „hér á eftir“ stendur nú reyndar í frv. Greinargerð þessa er hins vegar hvergi að finna.

Í hvað er verið að eyða því fjármagni t.d. sem er verið að taka af laununum okkar? Fjármagnið er sogað til vafasamra framkvæmda. Það er sogað upp fjármagnið, segi ég, vegna þess að ótvírætt er til nægilegt fjármagn í landinu, en nær einungis til afmarkaðrar útdeilingar á milli hinna ýmsu stórframkvæmda, svo sem Seðlabanka, flugstöðvar, Helguvíkur og mjólkurstöðvar. Á meðan vantar milljónir í félagslegu þættina, svo að vel sé að þeim búið eða nokkurn veginn þolanlega.

Þegar einhverjir félagslegir liðir hækka í frv. er það oftast nær ekki vegna þess að það sé stefna núv. hæstv. ríkisstj. Þessir liðir voru bundnir til hækkunar frá árum áður. Einmitt er þvert á móti mjög kvartað yfir þessu, ef nánar er athugað, sbr. að það er tíundað aftur og aftur þegar um launaaukningu er að ræða vegna styttingar vinnutíma kennara og vegna fækkunar barna í bekkjardeildum. Þetta er margtekið fram og má teljast nokkuð merkilegt að þetta skuli vera tekið fram þegar um er að ræða stærri fjárhæðir og miklu meiri hækkanir á framlögum til opinberra stofnana t.d., en þá er hækkað alveg umyrðalaust og án þess að nokkur aths. sé gerð. En í þessu tilviki er það margtíundað og eins og hálfkvartað yfir hækkun. Auðvitað þarf ekki að benda á að þetta eru hvoru tveggja framkvæmdir sem verður að telja til mjög mikilla íramfara á félagslegu sviði, að það sé styttur vinnutími kennara og að fækkun verði á börnum í hverri bekkjardeild.

Athyglisvert er að greinilega er gert ráð fyrir að þjónusta ríkisstofnana eigi eftir að hækka enn meira en það sem komið er fram nú þegar. Á bls. 180, í aths. vegna gjaldahliðar rekstrarreiknings, kemur í ljós að sértekjur ríkissjóðs hækka um 53.4% milli ára á meðan almenn verðlagsforsenda fjárlaga er sögð miða við 26% hækkun, enda segir í þjóðhagsáætlun að gjaldskrá muni ekki breytast, heldur haldast óbreytt frá því sem nú er a.m.k. fram til janúarloka 1984. Eins mánaðar óbreytt verðlag er mikil verðstöðvun, ekki satt? Ef verðlagsforsendur fjárlagafrv. breytast þannig að minna komi inn í ríkissjóð en áætlað er, þá er ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh. að því: Hvar verður skorið? Munu launin þá kannske lækka enn meira en nú er orðið?

Það hefur af ríkisstj. hálfu verið gripið á lofti, því það gæti orðið líklegt til þess að afla ríkisstj. vinsælda, að tala um kerfisbreytingar. Mikið rétt. Það fer vel í fólk að heyra talað um kerfisbreytingar, að þær séu á döfinni. En hvar eru þær áætlaðar? Fjárlagafrv. festir stjórnkerfið einmitt í sessi fremur en hitt. Stjórnkerfisbreytingar munu því ábyggilega ekki sjá dagsins ljós fyrr en mun síðar, ef þá nokkurn tíma. Hækkanir sem gefnar eru milli ára eru einnig ansi brogaðar. Þær eru nefnilega allar miðaðar við einhverjar forsendur sem ríkisstj. gaf sér við útgáfu brbl.

Kjararannsóknanefnd hefur athugað meðalvinnutíma á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Meðalvinnutími dregst sífellt saman hjá verkafólki og iðnaðarmönnum að þeirra mati. Þegar ríkisstj. gerir ráð fyrir að kauptaxtarnir rýrni, en að kaupmáttur ráðstöfunartekna lækki ekki nema um sem nemur 14%, þá er ekkert sem réttlætir þann spádóm vegna þess að forsendurnar eru ekki komnar fram enn þá. Almennt virðist vera um vanmat að ræða á því hve mikill samdrátturinn í þjóðfélaginu verður, þó ekki sé nema af þeirri ástæðu hve öll ríkisumsvif dragast saman. Samdráttur í félagslegri þjónustu hlýtur því að verða mun meiri en gert er ráð fyrir. Þegar sértekjur stofnana eiga að hækka svo sem raun ber vitni er hætt við að þetta sé bara byrjunin á því að leggja niður meginhluta félagslegrar þjónustu. Við þurfum að skoða allar færar leiðir til að breyta og bæta forgangsröðun verkefna hvað þetta varðar.

Trúverðugleika þessa frv. fer stöðugt hrakandi eftir því sem lengra er lesið og oftar. Það sama gildir um fskj. Það ber allt of mikið á orðalagi og setningabyrjunum eins og „stefnt er að,“ „gert er ráð fyrir“ o.s.frv. T.d. er að finna slíka setningu í lánskjaraáætlun: „Gert er ráð fyrir að bankarnir láni til“, og með leyfi forseta: „Ríkisstj. stefnir að því að ná samningum um að bankakerfið fjármagni svonefnd framkvæmdalán húsbyggingakerfisins að fjárhæð alls 115 millj. kr. án milligöngu húsnæðislánasjóða.“ Sigtúnshópurinn fékk fram átta ára skuldbreytingu fyrir þá sem byrjuðu að byggja eða kaupa húsnæði árið 1981. Þetta er mjög gallað vegna þess að afturvirknin nær mjög stutt eða til 1. okt. 1981. Hámarksviðbótarlán slær einnig mjög lítið á þá skuldasúpu sem íbúðabyggjendur og -kaupendur sitja í. Dæmi: Þeir sem skulduðu 800 þús. í ársbyrjun skulda nú 1200–1300 þús. og þá dugar sem sagt ekki einu sinni hámarksviðbótarlánið, sem einungis nemur 190–200 þús. Eitt af því sem er einnig, eins og margt annað hér, mjög svo athyglisvert við þetta fjárlagafrv. er öflun fjár á innlendum markaði m.a. til þess að koma til móts við viðbótarlán til húsbyggjenda. Það sýnir best hve grundvöllur þessa frv. er byggður á veikum forsendum, þegar á að selja spariskírteini og happdrættisskuldabréf fyrir um það bil 558 millj. kr. Það má nú segja að hér á enn að stóla á lífeyrissjóðina. Það verður þá að segjast, að ef einhverjir geta keypt þessi bréf er fólk ríkara en manni hefur verið sagt undanfarið. En e.t.v. reiknar hæstv. fjmrh. með því að útgerðarbændurnir geti keypt þessi bréf nú, þegar strika á út allar þeirra fyrri skuldir. Þeir eru e.t.v. í startholunum til þess að fá ný lán, ef ekki til togarakaupa, þá e.t.v. til kaupa á ríkisskuldabréfum með hagstæðum kjörum, sem almenningur hefur ekki efni á því að kaupa?

Augljóst er að lántökuþörf A-hluta ríkissjóðs er vanáætluð um 500 millj. kr., þar sem á vantar upphæð vegna lánsfjáröflunar til vegagerðar. Einnig má spyrja hvert yfirdráttarlán frá Seðlabanka með vöxtum á að hverfa. Það á e.t.v. að strika það út líka?

Ef yfirdráttarskuld þessi er tekin með í lántökuþörf A-hluta ríkissjóðs hækkar sú upphæð um 1 200 millj. Þá er lántökuþörfin alls orðin 2 600 millj., en það mun gera um það bil 400% hækkun milli ára. Þetta er nú ríkisstj. sem ætlar að ná þjóðinni upp úr skuldafeninu. (Fjmrh.: Ríkisstj. sem er að taka við.)

Og svo er hér ein framhaldssaga af jeppakaupum. Í heimildakafla kemur ýmislegt í ljós sem verður til þess að menn geta gefið sínar afmælisgjafir eða hvað það nú er. Þar er t.d. heimild til að endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjald af myndsegulbandstæki og skjá sem Menntaskólinn í Reykjavík fékk að gjöf frá stúdentsárgangi Steingríms Hermannssonar á 35 ára stúdentsafmælinu. Hvað ætli mundi ske ef allir skólar fengju Kiwanis-klúbba til að gefa sér þau tæki sem þeir þyrftu á að halda eða ef þeir bentu afmælisárgöngum á að aðstoða gamla skólann sinn nú vel og dyggilega með slíkum gjöfum? Hvað ætli mundi lækka mikið í ríkissjóði þá? Ég tel ástæðu til að benda á að ný leið er fundin eins og á mörgum öðrum sviðum. Sumir nota útstrikunaraðferð, en hér er hugsanlega um alveg pottþétta nýja leið að ræða til að losna við aðflutningsgjöld af ljósritunarvélum, myndsegulbandstækjum, snjóbílum — nú eða Blazer-jeppum.

Í fjárlagafrv. hefur ríkisstj. gefið sér þær forsendur, að kaupmáttur tímakaups rýrni um 26% og að kaupmáttur ráðstöfunartekna rýrni um 14%. Það er þess vegna augljóst að þar gefa áætlanir til kynna að fólk fái meiri tekjur en sem svarar 15–16%, sem þó er sú prósentutala sem gefin er upp sem almenn launaforsenda fjárlagafrumvarpsins. Ég vil aðeins snúa þessu dæmi við til nánari útskýringar. Almennar launaforsendur fjárlaga frv. miða við 15–16% hækkun milli ára, en meðaltalshækkun framfærslu er aftur á móti 26% eða enn meir, sem er miklu líklegra. Þetta þýðir greinilega áframhaldandi minnkandi kaupmátt á næsta ári.

Í tekjuáætlun ríkissjóðs gætir ákveðins ósamræmis. Eins og áður sagði er launahækkun milli ára áættuð 15–16%. Eignarskattur hækkar aftur á móti um 25.9% og tekjuskattur um 26.5%. Tekið er fram að við innheimtu tekjuskatta sé gengið út frá svipuðu innheimtuhlutfalli á þessu fjárlagaári og áður, þannig að hér getur ekkert annað en skattahækkun verið á ferðinni. Meðalskatttekjur ríkissjóðs eiga að nema 121/2% af brúttótekjum, sé miðað við greiðsluárið, þá reiknað samtals. Þetta er talið vera og skákað í því skjólinu að um sé að ræða sömu skattaprósentu og yfirstandandi árs. En einhvers staðar verður að vera borð fyrir báru til þess að launafólk eigi afgang af tekjum eftir að hafa greitt jafnháa upphæð hlutfallslega af mun lægri tekjum, þegar kauptaxtarýrnunin verður að meðaltali um 9–10% og verðlagshækkun a.m.k. 26%.

Um æðstu stjórn ríkisins segir að fjárveiting hækki um 102% milli ára, en útgjöld eru þó einungis sögð hækka um 57% í fjárlagafrv. En ef skoðaðir eru einstakir liðir er athyglisvert að þar hækkar einn liður, sem heitir „önnur rekstrargjöld“, um sem nemur 3 millj. og 984 þús. kr. eða hækkun um 564%. Í framhaldi af því sakar ekki að geta þess að framlag til yfirstjórnar forsrn. hækkar um 107.6%, utanrrn. um 113.4% og framlag til alþjóðaráðstefna um 175%. Enn fremur að á meðan framlag til yfirstjórnar menntmrn. hækkar um 84.3% hækka framlög til allra fræðslumála um aðeins 53.4% og til safna, lista og annarrar menningarstarfsemi er aðeins reiknað með um 27.8% hækkun. Það er því greinilega ekki sama hvort um er að ræða Jón eða séra Jón í þessu frv.

Það sama á við um lífeyristryggingarnar. Þeir liðir sem mest á að spara við og skera niður á eru elli- og örorkubætur. Þær eru orðnar eins konar happdrætti fyrir forvera okkar kynslóðar. Vinningurinn felst sjálfsagt í því að ef þeir lifa til sjötugsaldurs fái þeir bætur, annars ekkert.

Barnalífeyrir á að koma sem staðgengill ef meðlagsgreiðandi fellur frá, en þessi lífeyrir hækkar aðeins um 12.5% og því er greinilega miðað að því að notfæra sér vanþekkingu almennings á því hvað til réttar hans heyrir.

Örorkustyrkur verður aðeins um 12.3% hærri, og virðast sömu markmið vera ríkjandi þar.

Útgjöld til lífeyristrygginga hafa því í raun verið lækkuð um 60 millj. kr. frá því sem felst í gildandi reglum. Einnig er tekið til að heilbr.- og trmrn. muni leita leiða til sparnaðar í rekstri sjúkrahúsanna um allt að 150 millj. kr. Enn fremur er tekið til að áætlun einstakra liða í útgjöldum sjúkratrygginga þarfnist ekki sérstakrar umfjöllunar. Hún er reist á því að gjaldskrár neytenda fyrir, lyf, læknishjálp o.fl. hækki í hátt við verðlagsbreytingar milli ára og að 90 millj. kr. sparist með einum eða öðrum hætti. — Athugið orðalagið „með einum eða öðrum hætti“ — í útgjöldum ríkissjóðs vegna sömu útgjaldaþátta.

Mér er spurn: Þegar draga á úr framlagi ríkissjóðs til lyfjagjafa, hvaða lyf eru þá svona ónauðsynleg? Eru það kannske fúkkalyf eða insúlín? Það væri fróðlegt að fá svar við því.

Þessi leitun heilbr.- og trmrn. að leiðum til sparnaðar mun því nema um 300 millj. kr. Þessar 300 millj. leiða samt ekki af sér sparnað í rekstri, heldur virðist mér helst sem láta eigi sjúklinga greiða mun hærri eigin hlutdeild en nokkru sinni fyrr, svo sem eins og þar sem sýnt er að framtag til hjálpartækja hækkar aðeins um 9.3% eða um 5 millj. kr.

Í öllu þessu samdráttar- og þrengingatali, í það minnsta er varðar allt sem snertir heilbrigðis- og félagsmálageirann, er ef til vill ekki úr vegi að athuga það og leggja rækilega á minnið, að ef við leggjum aldrei peninga inn á bankabók getum við aldrei að sama skapi vænst þess að geta með réttu tekið út einhverja peninga úr bankanum. Sama staðreynd á við um óskhyggju varðandi happdrættisvinning. Fyrsta skilyrðið til þess að svo megi verða er að fjárfesta í happdrættismiðanum. Þetta er væntanlega flestum auðskilið. En sé nú framangreindu dæmi snúið upp á nýjan veg og persónugert þannig, að ef við látum okkur ekki fljótlega skiljast að við þurfum að leggja mun meiri fjárhæðir inn á bók uppeldis, aðbúnaðar og umönnunar barna okkar og upprennandi kynslóðar getum við ekki heldur að sama skapi ætlast til þess að fá arð frá þeim síðar meir í formi vinnuframlags til tekna fyrir þjóðarbúið. Ég er því miður hrædd um að þetta sé ekki jafnauðskilið hv. þingheimi og hin tvö fyrrtöldu dæmin, um bankabókina og happdrættismiðann, sem ég nefndi. En einhvern tíma þarf að byrja á því að ræða um þessi mál hér og það er ágætt að gera það nú í tengslum við fjárlagafrv.

Við þurfum aðeins að staldra við og átta okkur á því, að við höfum lifað óvenju ört breytingaskeið á þeirri þjóðfétagsgerð sem við búum við. Við verðum ekki síður að gera okkur grein fyrir því, að þó einhver vildi ef til vill gjarnan snúa þessari þróun við er það ekki mögulegt. Þessi öra breyting hefur haft í för með sér hvað mestar og afdrifaríkastar afleiðingar fyrir þau börn og unglinga sem eru að vaxa úr grasi.

Ör þróun samfélagsins og þær breytingar á fjölskylduháttum sem fylgdu í kjölfar iðn- og vélvæðingar hafa einnig á margan hátt rýri uppvaxtarskilyrði komandi kynslóða. Það er sannleikur sem við þurfum að horfast í augu við óhikað og takast á við — takast á við þau nær óyfirstíganlegu vandamál sem hafa hrannast upp. Nú duga ekki lengur þau hátíðis- og tyllidagaslagorð um gildi fjölskyldunnar og þau verðmæti sem fólgin eru í börnum okkar sem framtíð Íslands. Nú er kominn tími til að afleggja slagorðin, sem notuð hafa verið fram að þessu, og fara að takast á við að það þarf raunhæfar aðgerðir í stað fagurgala.

Samfélagið hefur hingað til gert sáralitlar markvissar fyrirbyggjandi ráðstafanir til að gera fjölskyldunni kleift að aðlaga sig að breyttum umhverfisþáttum, sem snerta hana sem heild, og þeim mun síður til áhrifa á uppvaxtarskilyrði barna og unglinga í breyttri þjóðfélagsgerð.

Ríkisvaldið hefur ekki staðið sig á þessu sviði sem skyldi. Sé miðað við þær tötur sem fjárlagafrv. gefur upp um heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálaþáttinn, þá virðist ekki eiga að verða um neina bragarbót að ræða, nema síður sé, hjá þessari ríkisstj., því miður.

Máli mínu til stuðnings um hvað þörfin er brýn og á því að við áttum okkur á að við þurfum að breyta verðmæta- og gildismati hvað varðar fjárfestingu og arðsemissjónarmið er könnun sem lauk í vor og var framkvæmd að tilhlutan Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur af Guðfinnu Eydal á um það bil 200 fjögurra ára börnum. Þessa könnun hefur því miður ekki enn verið hægt að fjölfalda vegna fjárskorts Heilsuverndarstöðvarinnar. Þar er manngildið enn einu sinni vegið á peningavoginni. Tíunda hvert barn reyndist þar eiga við minni eða meiri háttar sálrænar truflanir að etja og um helmingur þeirra barna var álitinn vera við slæma geðheilsu. Málþroska þessara barna var einnig mjög svo ábótavant og stóð í beinu sambandi við að þá var meiri tilhneiging til þess að um alvarlegri geðræna flokkun vandamála var að ræða. Fimmta hvert þessara barna hafði að auki við að stríða ýmiss konar talörðugleika.

Mér er spurn: Hvað er það sem við ætlum að byggja afkomu þjóðarbúsins á á næstu áratugum, ef við stöldrum ekki eilítið við og athugum stöðuna?

Niðurskurðurinn, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir hvað varðar beint framtíð þessara barna, er alvarlegur, og það má einnig benda á í þessu sambandi, að á barnadeild geðdeildarinnar, sem er svo að segja húsnæðislaus, ófullkomin og allt of lítil, koma 150–200 ný tilfelli á ári, en til samanburðar má geta þess að það fæðast um 1 500–1 600 börn á landinu á ári. Það er ekki arðsemissjónarmið sem ræður því að bregða hnífnum á loft og skera á tafarlausar aðgerðir til úrbóta, til fyrirbyggjandi starfs, á þessu sviði. Að öðrum kosti verður í mun ríkari mæli um félagslegan arf að ræða, sem mun ganga frá kynslóð til kynslóðar verði vítahringurinn ekki stöðvaður. Þetta á við um nær alla þætti frv. sem snúa að menningar-, mennta-, heilbrigðis- og félagslegum þáttum. Því er gegnumsneitt gleymt að arður verður af þessum þáttum, þó síðar verði, og hann ekki lítill ef vel er á haldið.

Virðulegi forseti. Ég bið háttsettan þingheim að vera minnugan málsháttarins, sem vel á við í þessu sambandi: Lengi býr að fyrstu gerð.