15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2897 í B-deild Alþingistíðinda. (2525)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það var mjög ánægjulegt að sá fjmrh. sem birtist í síðari hluta svarræðu sinnar var sá gamli góði fjmrh. sem þjóðin fékk að sjá í sjónvarpinu fyrir tveimur vikum og lýsti því yfir að færu launahækkanir fram yfir 4% væri hann farinn úr embætti. Ég vona að hæstv. ráðh. lái mér ekki þó að ég hafi hnotið um það í framsöguræðu hans að hann var skyndilega farinn að nota orðalag sem ekki var hans still, svo að ég vitni í gamalkunna lýsingu í þingsölum á fyrri árum, heldur var kominn með óljóst orðalag um kjarasamninga „í sem mestu samræmi við“. Það var ósköp eðlilegt að ég hnyti um þetta orðalag því að það var ekki orðalag hæstv. fjmrh., skapfestumannsins mikla. Nú hefur sá ánægjulegi atburður gerst að hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að þetta orðalag hafi verið alger misskilningur, kjarasamningar „í sem mestu samræmi við“, því að allar hans fyrri yfirlýsingar um brotthvarf úr embætti fari launasamningar yfir 4% standi og þær standi jafnvel af slíkri hörku og einurð að samanlögð skapfesta alls þingheims dugi ekki til jafns við þá festu sem hvíli að baki þessari yfirlýsingu. Ég verð að segja hæstv. fjmrh. til hróss að mun líkar mér betur við svona yfirlýsingar en þá moðsuðu sem hann flutti í framsöguræðunni. Hins vegar tók ég eftir því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var eitthvað efins þegar hann hlýddi á þessa yfirlýsingu og hváði. En mér finnst engin ástæða til þess hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að vera að vefengja fjmrh. í þessum efnum, heldur eigi þingheimur að taka eftir því að hæstv. fjmrh. hefur endurtekið á ný sínar fyrri yfirlýsingar og þar með dregið til baka moðsuðuorðalag framsöguræðunnar. Ég fagna því, hæstv. ráðh. Ég hef ekki oft staðið hæstv. fjmrh. að því að ganga á bak orða sinna. (Gripið fram í.) Það er smámál sem ég ætla ekki að fara að rifja upp í öðrum sveitarfélögum. (Gripið fram í: En við þurfum helst að fá það á alveg hreint.) Ja, það snertir ekki fjmrh. í þessu samhengi. (ÓÞÞ: Þá trúi ég ekki að þú segir satt.) Jú, ég segi alveg satt í þeim efnum.

En úr því að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson fór að vekja athygli á þessu máli er rétt að víkja aðeins að því að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, svo að notað sé hans óbreytta orðalag, að hann hafi komist í skjöl þegar hann tók við embætti sem hafi skyndilega opnað augu hans fyrir nýjum sannleika. Ég veit ekki betur en að allar skýrslur um ástand í ríkisfjármálum þjóðarinnar hafi legið fyrir í sumar og vor, og væri fróðlegt að vita hvaða skjöl það hafi verið sem skyndilega opinberuðu hæstv. fjmrh. nýjan sannleika í þessum efnum þegar hann settist í ráðherrastól. (Fjmrh.: Uppgjör á ríkisdæminu.) Uppgjör á ríkisdæminu, segir hæstv. fjmrh. Það var ekki miklum efa undirorpið og fyrirrennari hans gerði mjög skýra grein fyrir því, að þegar hv. þáv. þm. Albert Guðmundsson og hv. þáv. þm. og núv. einnig, Eggert Haukdal, hlupust undan merkjum í tíð fyrri ríkisstj. var alveg ljóst að vissar stoðir brustu undan því að hægt væri að reka skynsamlegan fjárhagsbúskap í landinu þar sem ríkisstj. hafði ekki lengur starfhæfan meiri hluta á Alþingi. (Fjmrh.: Hann var aldrei í þeim stuðningsmannahópi.) Hæstv. ráðh. var nú vel og sómasamlega meðhöndlaður sem eins konar heiðursmeðlimur í þeim stuðningsmannahópi og má til þess færa fjölmörg dæmi úr þingsögu síðari ára.

Hæstv. ráðh. lýsti því hér yfir að ekki yrði meiri yfirdráttur ríkissjóðs í Seðlabankanum en þegar hefði orðið, ekki krónu meiri. Þetta er mjög merk yfirlýsing. Þetta er yfirlýsing í stíl við hin skýru mörk, 60%, 4% o.s.frv. Fari yfir þau mörk er stóllinn farinn, ráðh. úr embætti og allt í voða. (Fjmrh.: Stóllinn verður kyrr.) Það er rétt og kannske núverandi formaður eða varaformaður sjálfstfl. setjist í hann í staðinn og taki við fjármálastjórninni. En ég tek jafnmikið mark á þessari yfirlýsingu hæstv. fjmrh. og hinum fyrri, sem ég var að lýsa áðan.

Vegna þess að hæstv. ráðh. hefur sýnt það ágæta fordæmi að tölusetja þessi mörk sín mjög nákvæmlega væri æskilegt að hann upplýsti hér og nú hver þessi yfirdráttur er í dag nákvæmlega. Ef hann hefur það við hendina væri mjög gott að fá það upplýst, ella að við gætum fengið það í fjh.- og viðskn. næstu daga svo að við höfum upp á hár þau mörk sem hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir að ekki verði farið yfir. Að því leyti var ræða hans hér merk að hann bætti við þriðju mörkunum sem ekki verður farið yfir: þ.e. 60% mörkin, 4% mörkin og að núverandi yfirdráttur í Seðlabankanum verður ekki krónu meiri. Þar með hefur hæstv. ráðh. sett sér þrenns konar skorður sem eru mjög skýrar og afdráttarlausar.

Ég endurtek, herra forseti, að það mun nægja mér að fá upplýsingar í nefnd um þessi mörk, en ef hæstv. fjmrh. er með þær við hendina væri mjög æskilegt að þær kæmu fram strax í umr. Hv. þingheimur hefur nú hlýtt á þá stefnuyfirlýsingu ríkisstj. að frá og með 15. febr. 1984 verði ekki farið yfir þau yfirdráttarmörk í Seðlabankanum sem eru við lok þessa dags. Ég get alveg fullvissað hæstv. fjmrh. um að það verður mjög fylgst með því hvort þetta mun standast.

Hæstv. fjmrh. þarf ekkert að óttast að ég ætli að tefja fyrir framgangi þessa máls. Það var mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh. áðan. Ég var eingöngu að vekja athygli á því, að hver sem á því ber ábyrgð var nú viðhöfð sú starfsvenja hér í þinginu, gagnstætt því sem hefur verið á öllum undanförnum árum sem ég fylgdist náið með þingstörfum og gegndi formennsku í fjh.- og viðskn. hv. Ed., að nefndirnar störfuðu ekki saman að gagnaöflun og viðræðum við ýmsa aðila úti í þjóðfélaginu. Þess vegna er óhjákvæmilegt að hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar kalli til sín ýmsa þá aðila sem óhjákvæmilegt er að hún ræði við og kynni sér ýmis gögn sem komu til hv. fjh.- og viðskn. Ed. Ég get fullvissað ráðh. um að ég óskaði sérstaklega eftir því við formann n. að fá möppu með þeim gögnum áðan. Ég byrjaði því á að kynna mér málið undir umr. og er alveg fús að halda því starfi áfram. (Gripið fram í: Vill ekki hv. þm. þá hafa fundinn á morgun?) Það gæti út af fyrir sig alveg komið til greina að halda fund á morgun. Ég sé hins vegar ekki að það þjóni miklum tilgangi til að hraða afgreiðslu málsins. En ég hef nú þegar komið því til formanns fjh.og viðskn., hv. þm. Páls Péturssonar, hvaða aðilar það eru í þjóðfélaginu sem við fulltrúar Alþb. munum sérstaklega óska eftir að fá til viðræðna. Það var a.m.k. ekki venjan á árum áður að stjórnarandstaðan sýndi slíka lipurð við ríkisstj. að tilkynna áður en mál komu til nefndar hvaða aðila þeir vildu fá til viðræðna. Þess vegna, hæstv. fjmrh., hafa vinnubrögð okkar á þessum sólarhring varðandi þetta frv. sýnt að því fer víðs fjarri að við ætlum eitthvað að tefja fyrir þessu máli. Það er hins vegar óhjákvæmilegt, fyrst ráðh. og ríkisstjórnarmeirihlutinn kaus að hafa þann hátt á að nefndirnar störfuðu ekki sameiginlega, að nefnd í Nd. gefi sér nokkra daga til að skoða gögn og fá aðila til viðræðna við sig.

Að lokum, herra forseti, kom fram í svarræðu hæstv. ráðh. staðfesting á samningsrofi hans við Kristnisjóð og íslenska kirkju. Það má vel vera rétt að hæstv. fjmrh. hafi gert herra biskupnum yfir Íslandi grein fyrir þessari afstöðu, en engu að síður sá herra biskupinn yfir Íslandi og kirkjuráðið gervallt ástæðu til að ganga sérstaklega á fund fjh.- og viðskn. þessarar deildar til að óska eftir því að Alþingi gripi fram fyrir hendur ráðh. og kæmi því í kring að staðið væri við þennan samning. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. vitnaði í áðan, að lagatexti hefur verið með ýmsum hætti hvað afgreiðslu Kristnisjóðs snertir á undanförnum árum, en aðalatriðið hefur verið að það hefur á hverju ári verið staðið við það fyrirheit að Kristnisjóður fengi ígildi þeirra launa sem samið var um í tíð Jóhanns Hafstein. Og það sem biskupinn og kirkjuráðið eru að fara fram á og það sem við ýmsir teljum sjálfsagt að staðið sé við er að þar til nýir samningar hafi verið gerðir milli kirkju og ríkis standi þessi samningur. Við höfum nákvæmlega sömu afstöðu gagnvart samningum milli ríkis og kirkju og samningaaðilar á vinnumarkaðinum, gerða samninga eigi að halda og það séu engar ástæður til að breyta þessari tölu nema að undangengnum viðræðum og nýjum samningi milli ríkis og kirkju. Einhliða rof á samningi í þessum efnum eru ekki rétt vinnubrögð.

Herra forseti. Við munum fá tækifæri við 2. umr. til að ræða málefni Kristnisjóðs og önnur atriði varðandi þetta frv., en það má hins vegar segja eins og sagt var hér fyrrum að af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá og það sem þér gerið hinum minnstu bræðrum mínum það hafið þér og mér gert. Það var eiginlega réttlæting hæstv. fjmrh. hér áðan að þar sem hann hefði skert kjörin hjá fátækasta fólkinu í landinu væri sjálfsagt að hann ryfi þennan samning við kirkjuna einnig.

Hins vegar er það mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh. að sú fátækt sem ég gerði að umræðuefni áðan hafi ríkt þegar Alþb. var í ríkisstj. eða erfitt sé að meta hvers eðlis hún er. Hér hefur í umr. í dag verið vikið að því að kaupmáttur ellilífeyris og örorkulífeyris í landinu hafi verið skertur um u.þ.b. fjórðung. Það fólk sem þarf að lifa af ellilífeyri og örorkulífeyri í þessu landi veit að sá fjórðungur gerir gæfumuninn milli þolanlegra bjargálna og fátæktar.

Hæstv. fjmrh. ætti að kynna sér að það eru um 5 þús. Íslendingar nú a.m.k. sem þurfa að lifa af 8 þús. kr. á mánuði, hafa ekki meiri tekjur en þessar 8 þús. kr. á mánuði og hafa enga möguleika til þess að fá meiri tekjur. Á sama tíma er venjuleg leiga fyrir tveggja til þriggja herbergja íbúð hér í höfuðborginni 7–8 þús. kr. Þess vegna þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að afsaka sig almennt með illri stjórn Alþb. eða flytja slagorð um það til að hylja þá staðreynd að hann, sem á árum áður og á landsfundum Sjálfstfl. hældi sér af því að vera bjargvættur litla mannsins í þessu þjóðfélagi, hefur leitt yfir litla manninn í þessu þjóðfélagi erfiðari lífskjör, meiri fátækt, meiri eymd en nokkur þessara manna hefur kynnst í áratugi og meiri en flestir þeirra hafa nokkru sinni kynnst á ævi sinni. Það er skiljanlegt að hæstv. fjmrh. sé eilítið þungt hugsi yfir þeim verkum sínum.

En það er rangt hjá honum að allir eigi að bera byrðar um þessar mundir í þessu þjóðfélagi. Hann stóð sjálfur í því í dag í Ed. þessa þings að verja að skattar á fyrirtækjum væru lækkaðir, að hlutabréfaeigendur fengju bætt sín kjör, að gróðaöflin í þjóðfélaginu hefðu betri möguleika til að koma fjármagni sínu í fjárfestingu og yrðu að gjalda minna til sameiginlegra þarfa ríkisins en áður. Hann var önnum kafinn upp fyrir haus í Ed. í dag að verja það að hann er að færa eigendum hlutabréfa og gróða í þessu landi kjarabætur á sama tíma og hann er meginhöfundurinn að þeirri fátækt sem alþýða Reykjavíkur og alþýða þessa lands býr nú við í síauknum mæli.

Það er sérkennilegur dómur um ráðherraferil mannsins sem hældi sér af því að vera bjargvættur litla fólksins í þessari borg og í þessu landi að hann skuli hafa skapað sama fólki meiri fátækt, meiri eymd og meiri örbirgð en það hefur þekkt í áratugi.