16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2904 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa ánægju minni með að hér skuli fará fram svo mikil umr. um menntamál og vona að það boði aðeins gott. Í þessari umr. hefur ýmislegt viturlegt verið sagt og. raunar margt ógreindarlegt einnig og meti nú hver eftir sínum smekk.

Það er eitt atriði sem ég vildi víkja fáeinum orðum að með tilvitnun til orða 1. flm. — orða sem hann lét falla í fyrri hluta umr. fyrir viku. Hann tók svo til orða að hann teldi till. þessa mjög jákvæða og miða til umbóta. Þótt ég efist ekki um góðan tilgang flm. finnst mér till. ekki jákvæð, mér finnst hún neikvæð. Mér finnst hún neikvæð í garð kennara, nánast vantraust á kennara, og mér finnst þeir alls ekki eiga það skilið. Mér finnst þessi till. röng og rangt fram sett og ég kann ekki við umvöndunartóninn í henni. Hún er kannske dæmigerð fyrir viðhorf allt of margra, bæði stjórnvalda og foreldra, til kennarastéttarinnar. Þetta minnir mig svolítið á viðhorf strangs föður til uppeldis barna sinna. Hann gerir miklar kröfur til móðurinnar sem uppalanda, en er sjálfur of upptekinn við veraldlegt vafstur til að leggja þar hönd að verki.

Við ætlumst til ákaflega mikils af kennurum þessa lands, en sjáum ekki sóma okkar í því að búa almennilega að skólastarfi í landinu. Börnin sendum við fram og aftur milli heimilis- og skóla, stundum oft á dag í misjöfnu veðri, og hrúgum þeim saman í allt of stórar bekkjardeildir án tillits til þess að þau eru á ákaflega misjöfnu þroskastigi svo að kennarinn hefur enga möguleika á einstaklingskennslu. Þannig er ástandið víðast hvar í þéttbýlinu og víða í dreifbýlinu skortir kennara með tilskilda menntun og börnin fá ekki þá kennstu sem þeim ber skv. námsskrá.

Aðbúnaður kennara er fyrir neðan allar hellur. Þetta er láglaunastétt. Við virðum störf þeirra ekki meira en svo að þetta er láglaunastétt. Og við búum ekki sem skyldi að skólastarfi á annan hátt, t.d. varðandi námsgögn. Allt er þetta á sömu bókina lært. Þrátt fyrir þetta er ég af hjarta og af nokkurri reynslu sannfærð um að kennarar gegna störfum sínum yfirleitt af alúð og jafnvel í samræmi við þann vilja sem kemur fram í þeirri þáltill. sem hér er til umr. En það væri þeim mun auðveldara fyrir þá ef við byggjum betur að þeim og börnum okkar og öllu skólastarfi og sýndum í verki að við metum það þýðingarmilta hlutverk sem við höfum fatið þeim. Ég get ekki fatlist á að tilefni hafi gefist til þeirrar vantraustsyfirlýsingar sem mér finnst felast í till. og get því ekki stutt hana.

Víst eru niðurstöður könnunarinnar, sem vísað er til í grg. með till., nokkurt íhugunarefni, en ég er ekki þeirrar skoðunar að þær séu neitt afskaplega uggvænlegar eða að þær gefi tilefni til ályktana af hálfu Alþingis um íhlutun í Íslandssögukennslu í grunnskólum. Það hefði verið fróðlegt að hafa til samanburðar svipaða skoðanakönnun svo sem eins og 20 ára gamla. Ég efast raunar ekki um að Sveinn Björnsson hefði farið betur út úr þeirri könnun, einfaldlega vegna þess að hann var nær í tíma og á þeim árum var aðeins forseti númer tvö á Bessastöðum. Ef til vill hefðu líka fleiri vitað fyrir 20 árum hvenær kristni var lögtekin og mjög líklega hefðu þá fleiri getað svarað rétt til um ýmis minnisatriði önnur af þessu tagi. En það er langt frá því að mér finnist skoðanakönnunin neitt stórkostlegt áhyggjuefni. Aðstæður nú eru aðrar en þá.

Hvorki get ég talist sérlega aldurhnigin né úr hófi lífsreynd manneskja, en afskaplega er sá veruleiki sem ég ólst upp við ólíkur þeim veruleika sem börnin mín hafa búið við. Á það við um flesta þætti mannlegs lífs, skólahald, heimilislíf og tækifæri til frístundaiðkana. Þetta er alls ekki sambærilegt.

Að mínu viti hefur kennslutilhögun breyst talsvert frá mínum skólaárum. Nú er lögð meiri áhersla á þekkingarleit og skilning á námsefninu en þann utanbókarlærdóm sem einkenndi nám áður fyrr.

Hvað tómstundir varðar er svo ótrúlega margt, sem keppir um athygli og tíma fólks núna, sem ekki var til staðar fyrir 20 árum. Ég nefni bara tvennt sem mér finnst áhrifamest, sjónvarpið og tölvutæknina. Sjónvarpið er mikill tímaþjófur, ekki síst eftir að myndböndin komu til sögunnar, og því miður er það ekki nýtt sem skyldi til góðra hluta. Og nú er það tölvutæknin sem hvolfist yfir okkur með öllum sínum göllum og kostum.

Mér finnst einhvern veginn, þegar á allt er litið, að viðhorf fólks, hvort sem það er ungt eða miðaldra, eins og við erum flest hérna á Alþingi, en þó sérstaklega ungs fólks, hafi breyst á þessum 20 árum á þann veg að það horfir meira til framtíðarinnar en áður. Það er ákaflega upptekið af þeirri framtíðarsýn sem við því blasir: ómanneskjulegum tækniheimi í skugga vígbúnaðarkapphlaups, heimi þar sem mengun, gróðureyðing og auðlindaþurrð ógnar mannlífinu, heimi þar sem vélmenni hafa yfirtekið störf hins almenna verkafólks. Það er ekki að undra þótt ýmsir séu áhugalitlir um tölur og nöfn úr fortíðinni við þær aðstæður sem nútíminn hefur fært okkur.

Vonandi skiljast orð mín ekki svo að ég sé að gera lítið úr gildi þekkingar á sögu okkar og þá sérstaklega baráttu þjóðarinnar fyrir sjálfstæði og frelsi. Um það er ég sammála ýmsum sem talað hafa hér á undan mér. En ég tel enga ástæðu til að ætla að þessum þætti sé illa sinnt í grunnskólanámi miðað við þær aðstæður sem við höfum búið skólastarfi okkar.

En hver sem afdrif þessarar þáltill. verða hefur sú umr. sem hér hefur farið fram svo og sú umr. sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum og manna á meðal verið athyglisverð og vonandi bæði til gagns og góðs.

Það er væntanlega orðið öllum ljóst að í gangi er gagnger endurskoðun á námsefni í samfélagsfræði, sem Íslandssagan er hluti af, og ég trúi að þeir sem þar um fjalla hafi gagn af þessari umr. Og vonandi lesa þeir gaumgæfilega ræður þeirra Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur og Guðrúnar Agnarsdóttur sem þær fluttu hér s.l. þriðjudag.