16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2906 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér koma viðbrögð þm. gagnvart þessari till., einkanlega þó þm. SK og þm. Alþb., sem hafa haft sig töluvert í frammi í þessari umr., verulega mikið á óvart. Viðbrögð þessara hv. þm. eru mér veruleg vonbrigði vegna þess að að mörgu leyti hefur málflutningur þeirra byggst á útúrsnúningum og því að gera þeim upp skoðanir sem standa að flutningi þessarar till.

Ég skal taka sem dæmi síðasta ræðumann, hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur. Hún sagði: Það er ekkert jákvætt í þessari till. Hún er vantraust á kennara. — Það er hvergi minnst á kennara í þessari till. — Hún er í umvöndunartón, sagði hv. þm. Ég kannast ekki við að þetta sé rétt. Það verður auðvitað hver að meta það fyrir sig. Ég kannast ekki við að það sé vantraust á kennarastéttina þó talað sé um að efla kennslu í sögu þjóðarinnar. Það er ekkert vantraust á kennarastéttina og fjarri sé það mér að halda því fram að kennarastéttin upp til hópa sé ekki starfi sínu vaxin. Mér dettur það ekki í hug og það er ekkert í þessari till. um það, ekki nokkur skapaður hlutur. Ég kannast ekki heldur við að það sé einhver sérstakur umvöndunartónn í þessari till. Ég tel hins vegar að till. sé jákvæð. Þarna eru þrjú meginatriði eða svo. Hvað er neikvætt við að efla kennslu í sögu íslensku þjóðarinnar? Og hvað er neikvætt við að glæða þekkingu og skilning nemenda á sögu þjóðarinnar? Hvað er neikvætt við að halda þannig á málum að það efli trú á landið og vilja til að varðveita það menningarsamfélag sem við höfum byggt upp? Og hvar er sá umvöndunartónn sem síðasti ræðumaður gerði svo mikið úr hér?

Hv. síðasti ræðumaður talaði líka um þekkingarleit og skilning andstætt því sem hún nefndi utanbókarlærdóm. Ég held að við séum kannske í þessum efnum, Íslendingar, töluverðir öfgamenn. Þegar koma einhverjar nýjungar fram á sviði kennslumála er slíkt sett upp jafnan sem annaðhvort eða. Þegar mengjafræðin átti að leysa öll vandamál í sambandi við reikningskennslu var það annaðhvort eða og þá var kúvent og öllu hinu gamla kastað fyrir róða. Hvað hefur gerst síðan? Pendúllinn hefur sveiflast til baka. Það er aftur byrjað að kenna reikningsbækur Elíasar Bjarnasonar í grunnskólanum, sem ég hygg að margir hv. þm. hafi kynnst af eigin raun á sínum skólaárum. Pendúllinn hefur sveiflast til baka. Það er gott og blessað að auka skilning og þekkingu og auðvitað verður það að vera með, en við komumst aldrei hjá því, ef við ætlum að kenna Íslandssögu, ætlum að kenna mannkynssögu, ef við ætlum að kenna landafræði og samfélagsfræðigreinar, að menn verða líka að læra staðreyndir. Það er ekki hægt undan því að sleppa, kannske má draga úr staðreyndalærdómi og auðvitað get ég fallist á að það hafi verið of mikið af slíku hér áður fyrr, en við eigum ekki að fara alveg í hina áttina og segja: Nú sleppum við öllum staðreyndum og tölum bara um skilning og þekkingu. — Það er bara ekki hægt. Og kannske hefur þessi samþætting greinanna — sem sumir hafa nú nefnt samþvætting — gengið allt of langt. Ég er þeirrar skoðunar að þar hafi verið gengið of langt. Það er ekki svo galið allt það gamla í skólakerfinu og við eigum ekki að kasta því fyrir róða umhugsunarlaust fyrir nýja hluti sem eru óreyndir. Við eigum auðvitað að vera opin fyrir nýjungum, en við eigum líka að halda í það sem gefist hefur vel. Ég held að þarna höfum við farið í íslensku skólakerfi vill vegar og verið heldur ginnkeypt fyrir óreyndum nýjungum. Pendúllinn hefur sveiflast heldur langt og heldur mikið og kannske heldur oft.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði hér áðan: Það segir ekkert í grg. um trú á landið. Það segir ekkert í grg. um að varðveita menningarsamfélagið sem við höfum komið hér upp. Þetta eru almenn atriði sem tillögumenn leggja til að Alþingi staðfesti með þeirri einföldu viljayfirlýsingu sinni sem hér er lagt til að þingið samþykki.

Ég vísa því enn einu sinni á bug að þessi till. máli í sér einhvers konar vantraust á kennara. Það er bara skoðun flm. að kennslu í sögu þjóðarinnar skuli auka frá því sem er. Það er ekkert verið að segja að þeir sem annast hana vanræki sín störf. Það er hvergi sagt.

Þá langar mig, herra forseti, til að víkja nokkrum orðum að ræðum sem voru fluttar síðast þegar þetta mál var til umr.

Það er víst svo að þau orð sem ég mælti hér um það sem nokkrir hv. þm. kalla kvennamenningu og kvennasögu urðu hin litla þúfa sem velti þungu hlassi og komu margir hér og töluðu um það. Það kom hvergi fram í mínu máli, sem hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir gerði að umtalsefni, að karlar og konur væru eins. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram og satt að segja skil ég ekki hversu tíðrætt henni varð um þann mun sem er á körlum og konum. Það hefur engu verið haldið fram í þá veru úr þessum ræðustól, svo að ég viti, að karlar og konur væru eins. Það dettur ekki nokkrum manni í hug. Það eru engir tveir einstaklingar eins, hvort sem um er að ræða karla eða konur. En ég varaði hins vegar við því og vara við því enn að menn fari að skipta menningunni upp í skúffur, að við förum að kynskipta sögunni. Þetta er okkar sameiginlegi menningararfur. Öll erum við menn. Samkvæmt íslenskri málvenju eru konur menn. Sem betur fer hefur dottið upp fyrir það orðskrípi sem menn voru með tilburði til að koma inn í íslenska tungu á haustdögum, orðið „þingkona“. Sem betur fer hefur það ekki heyrst nefnt, enda á það ekki að vera til. Ég skal ekki draga úr því að það hafi lítið verið gert úr hlut kvenna í sögunni í gegnum aldirnar. En réttlætir það að við förum að tala um einhverja sérstaka kvennasögu? Við eigum að kappkosta að sagan sé þannig skrifuð að hver einstaklingur njóti þar sannmælis, eftir því sem við best getum skrifað og best getum dæmt.

Það hefur líka komið mér á óvart að þeir hv. þm. sem oftast koma í þennan ræðustól til að tala um frið í veröldinni, frið milli manna, frið milli þjóða, skuli beinlínis, að mér finnst oft og tíðum, gera allt hvað þeir geta til að egna til ófriðar, magna illvilja milli karla og kvenna. Mér finnst þarna skjóta skökku við, að ekki sé fastar að orði kveðið. Við erum öll menn og við erum öll jafnréttháir einstaklingar í þessu þjóðfélagi og við eigum að láta hvern einstakling njóta sannmælis alveg burtséð frá því hvers kyns hann er. Nóg um það.

Hér var vikið líka, og það gerði hv. þm. Sigríður Dúna, að stofnun Háskóla Íslands og spurði hún mig hvert væri tilefnið að stofnun Háskóla Íslands. Nú er ég ekki sérstaklega sögufróður, en svo mikið veit ég að það var ekkert eitt tilefni að stofnun Háskóla Íslands. Þau voru mörg og það var löng þróun. Það mun hafa verið 1881 sem fyrst var flutt frv. til l. um stofnun Háskóla Íslands hér á Alþingi, þó að háskólinn væri ekki stofnaður fyrr en 1911. Það var þjóðarmetnaður og þjóðarstolt að stofna hér háskóla. Menn geta auðvitað búið sér til og leitað að einhverri einni ástæðu og sagt: Þetta er ástæðan fyrir því að Háskóli Íslands var settur á stofn. Málið er bara ekki þannig. Það var þjóðfélagsþróun, aðild margra manna, sem varð til þess — (Gripíð fram í: Og kvenna.) Já, að sjálfsögðu kvenna líka — að Háskóli Íslands var stofnaður. Og ef menn ætta að búa sér til einhverja einfalda söguskýringu á því að það hafi verið einn atburður, einn einstaklingur sem réði úrslitum um að Háskóli Íslands var stofnaður, eins og mér heyrðist hv. þm. vera að halda fram hér í ræðustól þegar hún tók mig upp í sögu, er það mikill misskilningur á eðli þeirra atburða sem leiddu til stofnunar Háskóla Íslands.

Það hafa ýmis stór orð verið látin falla um þessa till. hér og satt best að segja kemur mér það gersamlega í opna skjöldu hvað till. virðist koma miklu róti á hugi ákveðinna manna hér á hinu háa Alþingi. Hræsnisfull, sagði hv. þm. Guðrún Helgadóttir úr þessum ræðustól. Ber keim af galdraofsóknum, sagði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Hann nefndi aldraofsóknir í sömu andránni og efni þessarar till. Ég skil ekki hvað mönnum gengur til með slíkum málflutningi, mér er það gersamlega óskiljanlegt. Á hv. þm. við að það séu galdraofsóknir þegar talað er um að efla kennslu í sögu íslensku þjóðarinnar? Það er ekki heldur verið að tala um neina endurskoðun sögunnar, eins og hv. þm. var að dylgja um líka, fjarri því. Það er hvergi minnst á slíkt. Hins vegar veit ég að í ýmsum þeim löndum sem hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni eru býsna hjartfólgin og þar sem hann kannske hlaut sitt pólitíska uppeldi að einhverju leyti á sér stað sífelld endurskoðun sögunnar. Menn hverfa þar út af síðum sögunnar eins og þeir hafi aldrei verið til og verða það sem Orwell kallaði í sinni ágætu skáldsögu „1984“ á ensku að menn yrðu „unperson“ þegar búið væri að fara um þá höndum endurskoðendanna. Það er líka í þessum löndum, þar sem þessi sérstaka tegund af skoðanafrelsi viðgengst, að menn þurfa jafnvel leyfi stjórnvalda til að eiga ritvél.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér ofbýður málflutningur þeirra Alþb.-manna um þetta efni. Það er engu líkara — og hlýtur raunar að vera — en að það hafi verið gerð flokkssamþykkt í þeim ágæta flokki um að vera á móti þessari till. Öðruvísi er ekki hægt að túlka málflutning þeirra um þetta mál. Það er sem sagt barist gegn því með oddi og egg að aukin verði kennsla í sögu íslensku þjóðarinnar og barist gegn því að menn öðlist trú á landið. Þessu eru þeir Alþb.-menn andvígir ef dæma má eftir þeirra málflutningi hér.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson talaði um að þessi till. væri byggð á einhverjum leiðara Morgunblaðsins. Þetta er atger misskilningur. Það greindu held ég öll blöðin frá þeirri skoðanakönnun sem vitnað er í í grg. með till. Meira að segja Þjóðviljinn greindi mjög ítarlega frá henni líka. Kannske voru það mín mistök að vitna ekki í Þjóðviljann í grg. Kannske hefði þá afstaða sumra hv. þm. orðið eitthvað önnur, hver veit.

Ég er líka ósammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni þegar hann talaði hér í þá veru að hann gæfi ekki mikið fyrir það hvort menn vissu hvenær kristni var lögtekin á Íslandi. Mér finnst að það eigi Íslendingar að vita. Og mér finnst það mjög skrýtið ef fólk kemst í gegnum skólakerfið hér án þess að þessi staðreynd sitji þar eftir þegar námi er lokið.

Ég get sagt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni það að kveikjan að þessari till. var enginn leiðari í Morgunblaðinu. Kveikjan að henni var m.a. samtöl við 14 og 15 ára gamla nemendur í grunnskóla hér. Þeir hafa farið í gegnum alla bekki grunnskólans og lært það í Ístandssögu að þeir hafa fengið nasasjón af landnáminu, nasasjón með nokkurra vikna umfjöllun, hafa lært um Jón Steingrímsson og Jón Sigurðsson og þar með var draumurinn búinn. Þess eru dæmi að unglingar hafa farið í gegnum grunnskótann og lítið lært annað en þessa sundurlausu þætti. Þetta tel ég vera rangt. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að kenna meira í grunnskótanum en það sem ég hef rakið. Það kann að vera að þetta sé undantekning. Mér er líka kunnugt um að fólki tekst að fara hér í gegnum grunnskólann og læra mjög lítið um landafræði Íslands, en kannske þeim mun meira um landafræði ýmissa landa sem liggja okkur fjær og sum býsna langt í burtu. Nú er ég ekki að segja að ekki eigi að kenna eða miðla fróðleik um þau. Vissulega á að gera það, en ég held að það eigi hver einstaklingur að kunna sæmileg skil á landafræði síns eigin lands og sögu síns eigin lands. Ætli við gætum ekki verið sammála um það, og þó efast ég um að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson geti verið mér sammála um það, að sú þjóð sem glatar eða gleymir sögu sinni týnir sjálfstæði sínu kannske fyrr en varir? Það er m.a. þess vegna sem ég held að sé mikilsvert að við leggjum meiri rækt við kennslu í sögu íslensku þjóðarinnar en við höfum gert til þessa. Og enn einu sinni vísa ég því á bug að í þessari till. felist umvöndun eða vantraust á íslenska kennarastétt. Það er alrangt.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri, en ég mælist eindregið til þess að þessi till. verði samþykkt vegna þess að ég tel það skipta miklu fyrir virðingu Alþingis að það láti eitthvað frá sér fara í þessa veru.