16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2911 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og eðlilegt má telja er umr. um þetta mál komin nokkuð út um víðan völl enda er hér verið að vekja máls á meiru en kennslu í Íslandssögu. Þessi till. gefur að sjálfsögðu tilefni til þess að rætt verði um skólamál almennt og stefnu í mennta- og skólamálum. Samt vil ég vekja athygli þm. á því að tillgr. fjallar ekki um stefnu í skólamálum almennt, hún fjallar aðeins um tvö atriði: Í fyrsta lagi að Alþingi æski þess að aukin verði kennsla í sögu íslensku þjóðarinnar á grunnskólastigi og í öðru lagi að þar komi fram ekki aðeins aukin þekking og skilningur fólks á sögu þjóðarinnar heldur einnig aukin trú á landið og vilji til þess að varðveita það.

Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt, herra forseti, að þessi tillgr. fái að ganga til atkv. því að ég sé satt að segja ekki þann þm. á þjóðþingi Íslendinga sem gæti greitt svona till. mótatkvæði. Menn geta varla verið andvígir því að aukin sé kennsla í sögu íslensku þjóðarinnar þegar menn hafa fengið upplýsingar um hvers eðlis sú kennsla er, m.ö.o. hvað stórt tímabil í þjóðarsögunni ekki vinnst tími til að kenna í íslenskum grunnskólum. Ekki geta alþm. á þjóðþingi Íslendinga verið andvígir þessu. Ekki geta heldur alþm. á þjóðþingi Íslendinga verið andvígir því að í kennslu í Íslandssögu og í íslenskri þjóðtungu sé reynt að auka fólki trú á landið og vilja til að varðveita það menningarsamfélag sem hér hefur þróast. Þess vegna held ég, herra forseti, að bráðnauðsynlegt sé að þessi tillgr. fái að ganga til atkv. til að menn fái að sannreyna hvort hér sé fólk sem sé andvígt því að Alþingi geri slíka ályktun.

Ekki fer á milli mála að mikil breyting hefur orðið á námsefni og kennsluháttum íslenskra skóla sem m.a. er reist á grunnskólalögum sem Alþingi hefur sett. Mikið tilraunastarf hefur átt sér stað í þessum skólum og miklar breytingar hafa verið gerðar, ekki bara á námsefni heldur á námsháttum. Ég átti að vísu ekki sæti á Alþingi þegar grunnskólalögin voru lögfest en öðlaðist sæti á Alþingi nokkru síðar og ég held að ég sé ekki einn þm. um að vita næsta lítið um þessar breytingar sem þó hafa verið reistar á lögum sem Alþingi hefur sett. Sú þekking og reynsla sem ég hef af þessum málum er í miklu meira mæli þekking sem ég hef öðlast sem foreldri barna á grunnskólaaldri heldur en fræðsla sem ég hef fengið sem alþm. Ég held að ég hafi ekkert minni áhuga á skólamálum almennt en flestir þm. M.ö.o., það er ákaflega lítið sem þm. vita um þær breytingar sem reistar hafa verið á lögum sem Alþingi hefur samþykkt.

Ég held að þetta hljóti að styðja mjög það álit margra manna, þ. á m. þm., að Alþingi eigi að gera sér meira far um en það hefur gert að fylgjast með framkvæmd laga svo að menn standi ekki hér uppi og þurfi meira og minna að byggja á umsögn annarra um hluti sem væri nær að þm. vissu sjálfir. Um framkvæmd jafnmikils lagabálks og grunnskólalögin eru væri mjög eðlilegt og ákjósanlegt að t.d. menntamálanefndir Alþingis, sem eiga að fjalla um grunnskólalögin, fengju að fylgjast með öllum þeim breytingum á ríkjandi kennsluháttum sem á þessum grunnskólalögum eru reistar og öllu því reglugerðaflóði sem út hefur verið gefið með tilvísan til grunnskólalaganna. Mér skilst m.a. að þessar reglugerðir — þó að ég geti ekki staðreynt það sjálfur — breyti í mjög verulegum atriðum þeim anda sem hefði verið í grunnskólalögunum að mati ýmissa þeirra sem áttu hlut í að samþykkja þau. Með þessu taka auðvitað ráðuneytin, handhafar framkvæmdavaldsins — og þetta er ekkert einsdæmi um grunnskólalögin, þetta á við um fjölda annarra laga — sér fyrir hendur að túlka lóg sem Alþingi setur og gera jafnvel mjög veigamiklar breytingar á framkvæmdum með vísun í lagagreinar sem ég held að óhætt sé að fullyrða að alþm., þeir sem lögin settu, höfðu ekki hugmynd um og aldrei vakti fyrir þeim. Það er alveg fráleitt frá sjónarmiði Alþingis sem löggjafarstofnunar að setja lög og fylgjast síðan ekki með framkvæmd þessara sömu laga þegar þau eru komin til framkvæmdavaldsins.

Menn hljóta að viðurkenna að í þeim breytingum sem gerðar hafa verið í skólakerfinu, m.a. með framkvæmd grunnskólalaganna, hefur fjölmargt gott verið gert. En það er alveg fráleitt að halda því fram að þar hafi ekki líka verið gerð talsverð stór og mikil mistök. Ég vil aðeins minna menn á það að þau mistök eiga ekki öll upptök sín í menntmrn. eða hjá starfsmönnum þess.

Ég minni t.d. á þegar hrint var af stað að lítt athuguðu máli breytingum á námsefni grunnskólastigsins í stærðfræði og mengjakennslan var upp tekin. Það var ekki að tilhlutan menntmrn., skólarannsókna eða starfsmanna þess rn. Sú ákvörðun var tekin af fræðsluyfirvöldum í Reykjavík. Það voru þau sem hrintu að lítt athuguðu máli af stað nýju námsefni á grunnskólastigi í stærðfræði sem aðrir skólar eltu síðan uppi. Þetta var gert á svipuðum tíma og sams konar námstilhögun var verið að leggja niður í nágrannalöndunum eins og Danmörku vegna þess að hún var talin hafa gefið svo slæma raun. Ég get skýrt frá því sem foreldri á þessum tíma að mér hreint ofbauð hvernig þau trippi voru rekin. Börnin komu varla svo í skóla að hausti til að ekki væri búið að gerbreyta því námsefni í stærðfræði sem þau höfðu verið að nema veturinn áður. Ég var eitt þeirra foreldra sem lenti í því að fá barn eitt haust sem hafði tekið þátt í eða átt hlutdeild í allri þessari sögu mengjakennslunnar frá fyrstu bókum í gegnum aðrar bækur, í gegnum lausblaðaverkefni, í gegnum verkefni samin af viðkomandi kennurum. Svo gerðist það eitt haustið að barnið kom heim og sagði þau tíðindi sem ekki voru óvanaleg á þessum árstíma að nú væri komin ný bók í stærðfræði. Að vísu gætu börnin ekki fengið hana strax vegna þess að hún væri ekki til enn þá hjá Námsgagnastofnun, það ætti eftir að ljúka við prentun en hún mundi koma síðar og þetta væri bók sem að áliti kennarans væri ákaflega góð. Þegar dóttir mín kom með bókina heim til sín í nóvembermánuði kom í ljós að þetta var reikningsbók Elíasar H. Bjarnasonar sem ég hafði lært sem drengur. Þá varð það niðurstaðan eftir allt saman.

Ég vil líka vekja athygli á því að að mínu áliti voru líka gerð mistök þegar tekin var sú ákvörðun af hálfu fræðsluyfirvalda að fara með dönskunám niður í 10 ára bekk. Sú ákvörðun var tekin af hálfu fræðsluyfirvalda með skírskotun til laga um grunnskólanám. Það kunna að vera einhverjir hér inni sem áttu hlut að samningu þeirra laga og ég leyfi mér að spyrja þá: Þegar þeir greiddu lögunum atkvæði voru þeir þá að greiða því atkv. að farið yrði með dönskunám niður í 10 ára bekk? Hver var reynslan af því? Reynslan af þessu varð sú að skólarnir sjálfir settu sig öndverða upp á móti þessum fyrirætlunum. Nú er víðast hvar þar sem ég þekki búið að hörfa til baka með þessa ákvörðun þannig að í flestum skólum landsins er danska ekki lengur kennd í 10 ára bekk. Og ef menn eru að tala um vísindalegar aðferðir og vísindaleg vinnubrögð við nýjungar á borð við þetta þarf auðvitað saman að fara að fyrir liggi vísindalegar og kennslufræðilegar niðurstöður á því hvernig svona tilraunir hafa gefist. En mér vitanlega hafa slíkar skýrslur aldrei verið samdar. Ef hæstv. menntmrh. væri viðstaddur þennan fund, sem hann ekki er, mundi ég biðja hæstv. ráðh. að beita sér fyrir því að úttekt yrði gerð t.d. á reynslunni sem af því hlaust að færa dönskunám niður í 10 ára bekk.

En ég vil taka mjög skýrt fram að þó ég nefni þarna tvö dæmi er ég engu að síður sannfærður um að stór hluti, jafnvel meginhlutinn, af þeim nýjungum sem hefur verið brotið upp á hafi verið þarfur, eðlilegur og réttur. En það þýðir ekki að allar tilraunir sem gerðar hafa verið séu af hinu góða. Ekki er æskilegt í skólamálum einnar þjóðar að það geti gerst að skólarnir séu svo gjörsamlega undirlagðir tilraunastarfsemi að það sem kennt er í einum skólanum sé ekki kennt í þeim næsta og menn upplifi það jafnvel að námsefnið breytist eftir kennurum. Ég kem t.d. úr hverfi þar sem eru mjög tíð skipti á kennurum. Getur verið að eitt og sama barnið njóti kennslu tveggja eða þriggja kennara yfir veturinn.

Fyrir nokkrum árum fékk ég sem foreldri bréf frá kennara í einum þessara skóla. Bréfið kvað á um að álit viðkomandi kennara væri að þær námsbækur í ensku sem gefnar eru út af Námsgagnastofnun væru ekki nothæfar. Mér skilst að þetta hafi verið tveir bókaflokkar sem gefnir voru út af Námsgagnastofnun og samdir af þeim aðilum sem sömdu námsskrá í ensku. Þess var óskað við mig sem foreldri að ég samþykkti að kaupa erlenda bókaröð, kennslubókaröð í ensku þar sem báðar þær bókaraðir sem Námsgagnastofnun gæfi út væru ónothæfar.

Eins og menn vita eru fjölmörg útgáfufyrirtæki, t.d. í Bretlandi, sem gefa út til sölu námsbækur í ensku og reyna síðan með auglýsingum og öðru sambandi við fólk að koma þessum námsbókum sínum á framfæri og setja þær. Ég reikna með því að þarna hafi verið um slíkt frumkvæði að ræða.

Ég hafði samband við skólastjórann í þessum skóla og spurði hann hvort þetta bréf væri sent með hans vitund, hvort niðurstaða skólans væri að þær námsbækur sem Námsgagnastofnun gæfi út væru ekki nothæfar. Skólastjórinn kom af fjötlum. Hann vissi ekkert um þetta. Ég hafði samband við fræðslustjórann í Reykjavík og spurði hann. Hann vissi ekki neitt, hafði ekki hugmynd um þetta. Og það þarf ekki að orðlengja það að þessi bók var keypt og kennd þennan vetur. Síðan kom nýr kennari næsta vetur og þá var hætt að kenna þennan bókaflokk.

Þetta kalla ég ekki vera æskilegt. Ég tel æskilegt að vera opinn fyrir nýjungum og opinn fyrir tilraunum í skólastarfi en ég tel nauðsynlegt að þær tilraunir séu undir einhverri ábyrgri stjórn þannig að einn sé ekki að reyna þetta á meðan annar sé að reyna hitt.

Auðvitað getur svona lagað gengið út í hreinar öfgar eins og gerðist hér um árið þegar börn við barnaskóla í Reykjavík voru mestallan veturinn að búa til pappírsmódel af hluta Rínardalsins og það var öll sú fræðsla sem menn fengu í þeim bekk í landafræði þann vetur. Ég reikna með því að fólk hafi verið talsvert vel að sér í þessum hluta Rínardalsins eftir þann vetur. En ég á ekki von á því að nemendur hafi vitað mikið annað a.m.k. eftir veturinn þann.

Og það er annað sem við þurfum að gera okkur grein fyrir. Þegar tekið er upp nýtt námsefni miðað við þær kennslustundir sem til ráðstöfunar eru í hverjum skóla er hætt við því að annað efni þurfi að víkja. Það nýja námsefni sem tekið hefur verið upp er allt saman þarft og gott og blessað. En menn gleyma alltaf að spyrja sig að því: Ef þetta efni er tekið upp er þá eitthvað sem þarf að víkja í staðinn úr námsskránni og hvaða námsefni er það? Því verður t.d. ekki á móti mælt að ýmislegt af því nýja námsefni sem tekið hefur verið inn í grunnskólakennsluna hlýtur að hafa rutt öðru námsefni út. Menn hljóta að verða að meta það og vega hvort er þarfara, þó að hvort tveggja sé gott og þarft út af fyrir sig, nýja námsefnið sem kom eða það námsefni sem látið var víkja.

Auðvitað verður alltaf tíska í öllu skólastarfi. Það er með skólastarf eins og flest annað í sambandi við mannlegt líf að þar verður fátt sannað svo óyggjandi sé, menn þurfa að byggja viðhorfin á sinni afstöðu, m.a. pólitískri afstöðu, og menn gera það óhikað. Fátt af þessu verður sannað með sömu aðferðum og menn beita í raunvísindum.

Þegar við flest sem hér sitjum inni vorum á grunnskólaaldri var sú tíska í grunnskólakennslunni að nota vinnubækur meira en í hófi. Þá átti að leysa öll vandamál í skólanámi með vinnubókargerð. Þá var kennurum uppálagt að framleiða vinnubækur ofan á vinnubækur sem áttu að vera það sem öllu bjargaði í sambandi við nám. Nú er þessi vinnubókatíska ekki lengur í skólakerfinu. Auðvitað kemur þá önnur tíska í staðinn. Og hver er hún? Hún er m.a. sú að menn segja: Ekki á lengur að fjalla um staðreyndanám heldur um þekkingarleit. Þetta er bara skoðun sem er alveg fullgild, alveg jafngild eins og hver önnur skoðun, en þetta er ekki eitthvað sem er vísindalega sannað. Því að svona hlutir verða aldrei vísindalega sannaðir. Aldrei verður vísindalega sannað að betra sé og líklegra til árangurs að kenna t.d. mannkynssögu án þess að nefna nöfn frekar en vísindalega er sannað að best sé til árangurs að kenna mannkynssögu með því að nefna nöfn. Þetta verður bara að byggjast á viðhorfi manna, á afstöðu, á tísku. Tískan er sú í dag og hefur verið að réttara sé að kenna slík fög án þess að nefna nöfn.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ræddi um þetta i sinni ræðu. Út af fyrir sig getur sú afstaða hans verið góð og gild að hann vilji láta skrifa Íslandssögu án þess að Hjörleifur Guttormsson sé nefndur þar á nafn. Sjálfsagt að verða við því. Án efa mundi það stytta Íslandssöguna allverulega ef Hjörleifs Guttormssonar væri þar hvergi getið. En það er hans afstaða sem ekki er hægt að byggja á neinum sérstökum vísindalegum rökum frekar en ég get byggt þá skoðun mína á vísindalegum rökum að það væri mjög æskilegt, þegar menn horfðu til baka t.d. til síðustu 5–6 ára og færu að skrásetja það sem þá hefði gerst, að þá væri Hjörleifs Guttormssonar að einhverju getið. Ég held að auðveldara verði fyrir menn að læra sögu s.l. 5–6 ára með því að Hjörleifs Guttormssonar yrði þar getið en með því að hans yrði þar ekki getið jafnvel þó, herra forseti, að það mundi lengja söguna eitthvað, einkum og sér í lagi ef oft þyrfti að vitna í hv. þm.

Síðan vil ég aðeins benda mönnum á annað. Mikið er talað um að námið eigi að byggjast á því að kenna börnum að vinna vísindalega, kenna börnum að leita sér heimilda. Heimildirnar eigi ekki að vera í kennslubókunum, heldur eigi börnin, 7, 8 og 9 ára gömul börn, að beita sér þannig í námi að leggja á sig vísindaleg vinnubrögð til að leita uppi heimildirnar í skólabókasöfnum og annars staðar. Ekki er ætlast til þess að kennararnir vinni þannig við kennsluna vegna þess að þess er krafist að í öllum slíkum fögum séu gefnar út sérstakar vinnubækur fyrir kennarana sem segi þeim nákvæmlega fyrir um frá A til Z hvernig þeir eigi að kenna námsefnið. Í þessum vinnubókum stendur m.a.s. hvað kennararnir eigi að segja varðandi hverja námseiningu, næstum því varðandi hvern einasta kennslutíma. En börnin fá engar slíkar leiðbeiningar. Þeirra nám á.að felast í því að fara í skólabókasöfnin og leita sér heimilda til að öðlast vísindaleg vinnubrögð.

Kennslubækur sem þannig eru skrifaðar eru að sjálfsögðu ekki fullkomin kennslugögn. Í þessu tilviki er það bara kennarinn sjálfur sem fær fullkomið kennslugagn í hendurnar. Ég man ekki betur en að á flestum samkomum kennara sé ályktað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar um nauðsyn þess að gefa út meiri og fyllri kennsluleiðbeiningar fyrir kennarana með námsefninu sem börnunum er ætlað að nema. En börnin fá þessi kennslugögn ekki fullkomin í hendurnar, þau verða að láta sér nægja nokkrar síður, tiltölulega fáar efnissíður sem i mörgum tilvikum eru mikið lagðar undir fallegar myndir. Þeim er síðan ætlað að leita það uppi í gögnum sem kennurunum er sagt frá í handbókum. Ég skora á alþm. að kynna sér þetta.

Þegar ég var í skóla fyrir að vísu nokkuð mörgum árum var tískan þveröfug. Þá voru bestu bækurnar taldar þær þar sem allt stóð sem nemandinn þurfti á að halda. Jafnvel orðasafnið fylgdi með þannig að nemandinn þyrfti ekki svo mikið sem að taka orðabók ofan úr hillu, t.d. í erlendu máli og fletta þar upp. Jafnvel orðasafnið var með í kennslubókinni. Kennslubókin þótti þeim mun betri þeim mun meiri upplýsingar sem hún gat gefið nemandanum um námsefnið.

Nú er talið æskilegt að hafa þetta þveröfugt, m.ö.o. að hafa sem fæstar staðreyndir í námsbókinni fyrir nemandann en sem flestar fyrir kennarann og ætlast síðan til þess að nemandinn leiti þetta uppi á skólabókasöfnum og annars staðar.

Hvort tveggja er þetta tíska, það er ekkert vísindalegt við þessar niðurstöður. Þetta eru bara ákvarðanir sem teknar eru vegna viðhorfs þeirra sem bækurnar semja. Mitt viðhorf er það að ég tel að auðveldara sé og einfaldara fyrir nemendur á grunnskólastigi á meðan námið er ekki orðið þeim mun flóknara að geta haft allar upplýsingar við hendina. Þeir sem bækur þessar semja eru hins vegar á þveröfugri skoðun. Þeir hafa fullt leyfi til þess. Þeirra skoðun er alveg jafngild eins og mín skoðun en þeir geta ekki sannað að hún sé rétt fremur en ég get sannað að mín sé rétt. Allt tal um vísindalega niðurstöðu í þessu sambandi er hreint rugl út í loftið. Því miður bera menn oft fyrir sig í slíkum umræðum alls konar kynngiyrðasmíð sem er verið að búa til til þess að gefa gömlum hugtökum einhvers konar mystískt yfirbragð þannig að venjulegt alþýðufólk skilji ekki hvað átt er við, þannig að fólk haldi að þetta séu einhver ógurleg vísindi sem þarna séu á ferðinni.

Því miður held ég að það sé reynsla allt of margra unglinga að þegar þeir koma á framhaldsskólastig þar sem gerðar eru miklar kröfur í námi vanti þá ekki bara undirstöðuþekkinguna í ýmsum námsgreinum heldur bresti því miður oft líka á að fólkið kunni að læra, að það kunni að leggja á sig þá vinnu og leggja fram þá vinnu sem raunverulegt nám á framhaldsskólastigi krefst. Ég þekki marga unglinga á aldrinum 15–19 ára og því miður er það þetta sem margir þeirra upplifa sem koma í framhaldsskóla þar sem farið er að gera kröfur til þess að fólk kunni að læra.

Herra forseti. Í lokin aðeins örfá orð. Auðvitað hlýtur Íslandssaga sem skrifuð er af Íslendingi að vera hlutdræg. Hún hlýtur að vera hlutdræg fyrir Íslendinga sjálfa. Hún hlýtur að vera allt öðruvísi en t.d., svo eitt dæmi sé nefnt, ef Tansaníubúi væri að skrifa Íslandssögu. Þetta er ekki óæskilegt. Ég þekki ekkert þjóðríki þar sem kennsla fer þannig fram að það sé eins og útlendingar séu að kenna þjóðfélagsþegnunum um sitt eigið land. Jafnvel í stærstu löndum heims eins og Bandaríkjunum er sú skólastefna meðvituð rekin að fólki er þar innrætt virðing og ást á þjóð sinni og landi með meðvitaðri hlutdrægri kennslu Bandaríkjunum í vil. Bandarísk skólabörn byrja t.d. sinn dag með því að syngja hyllingarsöng til bandaríska fánans. Okkur finnst þetta ákaflega ómerkilegt. Við mundum aldrei byrja okkar skóladag á því að syngja hyllingarsöng til bandaríska fánans. Það mundi enginn Íslendingur gera, hvað svo sem Alþb. kann að segja um það. En Bandaríkjamönnum finnst þetta eðlilegt. Þeim finnst það eðlilegt, þegnum þessa stóra og volduga ríkis, að ala sín börn upp í ást á landi sínu og þjóð, stolti á menningu sinni, og það gera menn vísvitandi með því að halda hlut sinnar þjóðar fram í skólum. Hvað halda menn að verði um 240 þúsund manna þjóð ef hún í hópi allra þjóða heims telur sig hafa efni á því að láta einhverja náttúrulausa óhlutdrægni ríkja í uppeldi barna og unglinga og kennslu barna og unglinga í þjóðtungu og þjóðarsögu?

Herra forseti. Ef íslensku þjóðinni, þ. á m. okkur sem hér sitjum, hefði ekki verið kennd saga íslensku þjóðarinnar með þeim hætti sem þessi till. til þál. gerir ráð fyrir væri hér ekkert Alþingi.