16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að halda langa ræðu um þetta mál þó að vel mætti gera það um svo mikilvægt efni. Það getur þó verið að ég geri það ef þessar umr. dragast á langinn enn um stund. En mér finnst rétt að láta nokkur orð falla.

Ég fagna því að þessi till. er fram komin og styð hana af heilum hug. Ég fagna því einnig að hún hefur vakið svo mikinn áhuga hjá mörgum hv. alþm. En ég er þó nokkuð undrandi á því að hv. alþm. skuli ekki geta verið nokkuð sammála um að styðja þessa till. og fylgja henni fram. Ég held að menn geti ekki haft á móti því að Íslandssögukennslu sé þannig hagað og hún sé við það miðuð að nemendur öðlist ekki aðeins þekkingu og skilning á sögu þjóðarinnar, heldur og trú á landið. Hins vegar geta menn haft ýmislegt að athuga við það menningarsamfélag sem við búum hér við og hefur þróast hér í ellefu aldir. Sumir okkar eru óánægðir með þetta menningarsamfélag, vilja breyta því eða jafnvel umbylta því. Þar verður hver að fylgja sinni trú og er frjáls að því að stunda sína iðju eins og verið hefur og verða mun.

Mér finnst einnig full ástæða til þess að svona till. sé borin fram. Ýmis tíðindi, sem manni hafa borist til eyrna á undanförnum mánuðum og vikum, benda nefnilega eindregið í þá átt að söguþekkingu okkar Íslendinga og þá einkum hinna yngri sé áfátt í ýmsum efnum. Ég held að sérhver þjóð sem vill treysta sjálfstæði sitt og efla hljóti að leggja áherslu á sögukennslu, að menn viti einhver deili á forfeðrum sínum í landinu og sögu þeirra frá því að landnám hófst til vorra daga.

Fallið hafa hér ýmis orð, sem þekkt eru frá gamalli tíð, um tilgangsleysi og fánýti þess að kunna mikið af ártölum og annað slíkt. Nú síðast lét hv. 5. þm. Austurl. orð falla í þá átt. Hann ræddi um staðreyndatuggu, ítroðsluaðferð o.s.frv. Þeir sem fengist hafa við kennslu í Íslandssögu munu þó nokkuð sammála um að það sé að öðru jöfnu ekki verra að kenna ártöl en hvað annað. Að vísu eru menn misjafnlega lagnir á að muna slíka hluti, en ég sé ekki að það sé nokkur leið að kenna sögu svo að vel fari nema leggja áherslu á nokkrar staðreyndir og nokkur ártöl. Ég ætla fáa Íslendinga svo illa búna að heiman að þeir geti t.d. ekki munað árið 1000, jafnvel þó að það væri árið 999, og þá tengt m.a. því að þá var kristni lögtekin hér á landi.

En svo er alltaf spurning: Eiga alþm. að eyða tíma sínum í að ræða um svona mál? Eiga þeir að láta sig svona málefni nokkru skipta? Ég tel alveg tvímælalaust að við eigum að taka okkur smástund öðru hverju til að fjalla um þessi mál og láta þar skoðanir okkar í ljós. Ég kæri mig ekki um að fá yfir mig að óathuguðu máli nýjar reglur í stafsetningu eða einhverja nýskipan í þeim málum án þess að geta borið hönd fyrir höfuð mér. Við skulum segja ef mönnum dytti nú í hug að skipa svo fyrir að hætt skuli að rita y í íslensku. Það mundu vafalaust ýmsir fagna því, en varla mundu allir hv. alþm. verða sammála um að svo ætti að fara. (Gripið fram í.) Já, það er eilífðarviðfangsefni að skrifa íslensku rétt og það líður varla sá dagur að hinir færustu menn í þeim efnum slái ekki upp í orðabók. Það vitum við báðir, ég og hv. 5. þm. Austurl. En hitt er svo annað mál, hvernig á að haga Íslandssögukennslunni. Ég álít að það þurfi að haga henni á þann veg að nemendur öðlist sem fyrst nokkurt yfirlit yfir söguna frá fyrstu tíð til vorra daga. Þar erum við Íslendingar svo heppnir að við eigum mjög ljósa og greinilega sögu um hvernig land okkar byggðist.

Jóhannes skáld úr Kötlum orðaði það í einu kvæða sinna á þann veg: „Fundu ey og urðu þjóð úti í gullnum sænum.“ Við höfum stært okkur af því að við höfum komið að landi okkar hér, það hafi beðið nánast eftir okkur og við höfum ekki þurft við neinn að deila um það. Við áttum rétt á að nema það og við eigum rétt á því enn í dag.

Íslandssögukennslu tel ég að þurfi að haga þannig að hún hvetji til sjálfsnáms og áhuga. Það er yfirleitt svo í skólum, bæði hér á landi og annars staðar, að menn gleyma mörgu af því sem þeir læra eða þykjast læra. En þá er það mest um vert að eftir sé einhver neisti sem hvetur menn til sjálfsnáms. Það mun drýgst. Menn gleyma því sem þeir hafa lært ef þeir hafa alls engan áhuga á að nema meira. Sjálfsnám er drýgst þegar til lengdar lætur. Og hvað sem um Íslandssögu Jónasar Jónssonar má segja og þó að hún hafi verið gagnrýnd allharkalega, sérstaklega nú á tímum, varð hún þó til þess að vekja áhuga margra manna á sjálfsnámi í Íslandssögu. Heill og heiður sé henni fyrir það. Hún hvatti margan ungan nemandann fyrr á árum til að afla sér frekari þekkingar á sögu lands og þjóðar. Það tel ég nokkurs virði.

Ég hef lagt hér áherslu á að nemendum þyrfti sem fyrst að gefa nokkurt yfirlit yfir söguna. Það er ekki hægt að ætlast til þess að troða skuli mjög mörgum staðreyndum eða ártölum í venjulegan nemanda allt frá landnámstíð til vorra daga, en það er þó skylt að benda á hæstu tindana og helstu kennileitin.

Vafalaust kannast allir hv. alþm. við hina frægu ritgerð Sigurðar Nordals um samhengið í íslenskum bókmenntum, þar sem hann vakti athygli fyrir mörgum áratugum á því samhengi sem býr í bókmenntum okkar allt frá því að þær hófust og fram á þennan dag. Ég veit ekki annað en sú ritsmíð sé í fullu gildi og mikils metin enn í dag. Á sama hátt þurfum við að átta okkur á samhengi sögunnar til að gera okkur að betri mönnum til að fást við vanda nútíðar og horfa til framtíðar. Við eigum að nota söguþekkinguna til að gera okkur sterkari í því starfi. Ef menn hafa áhuga á sjálfsnámi geta þeir auðvitað flett upp í bók sem ég held að hafi ekki verið nefnd í þessum umr. Það er Íslandssaga Jóns Jóhannessonar prófessors. Menn geta kannske litið í árbækur Espólíns, sem hafa æðimikinn fróðleik að geyma, ef þeir vilja heyja sér fróðleik frá fyrri tíð. Og menn geta lesið annála og öðlast af þeim ýmsan fróðleik og skilning á lífi og starfi þjóðarinnar frá alda öðli.

En fyrst og fremst álít ég alveg skilyrðislaust að við eigum að leggja ríka áherslu á að kenna ungu fólki Íslandssögu til þess að það öðlist skilning á vanda þess og vegsemd að vera Íslendingur, eins og Nordal orðaði það svo snilldarlega á einum stað, og verði hæfara til þess að takast á við vandamál þau sem við er að glíma bæði í nútíð og framtíð.