16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2932 í B-deild Alþingistíðinda. (2542)

105. mál, viðhald á skipastólnum

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um viðhald og endurbætur á skipastólnum. Þessi till. er á þskj. 127 og hv. flm. auk mín eru eftirtaldir: Stefán Guðmundsson hv. þm., Þórarinn Sigurjónsson, Ólafur Jóhannesson og Stefán Valgeirsson. Tillögugreinin er orðuð þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því að viðhald og endurbætur á íslenska skipastólnum fari í ríkari mæli fram innanlands.“

Eins og fram kemur er í till. aðeins vikið að viðhaldi og endurbótum á skipastólnum. Enda þótt svo sé má ekki líta svo á að ekki ríki áhugi meðal okkar flm. fyrir nýsmíði skipa hér innanlands. Hana þarf að sjálfsögðu að efla þótt ekki verði um það fjallað hér enda liggja í mörgu tilliti sömu forsendur að baki því að innlendur skipasmíðaiðnaður sé samkeppnishæfur við erlendan hvort heldur um er að ræða nýsmíði eða endurbætur. Hin ytri almennu skilyrði hafa áhrif á hvort tveggja.

Í mörgum tilvikum má halda því fram að mjótt sé á munum í þeirri skilgreiningu. Svo gagngerar geta endurbætur verið eins og dæmin sanna. Með tilliti til stærðar skipaflota okkar, þeirra gífurlegu verðmæta sem í honum eru fólgin og þess umfangs og undirstöðu sem leiðir af rekstri hans í okkar þjóðarbúskap er ekki sama hvernig til tekst um viðhald og endurnýjun skipastólsins. Um þetta hljóta flestir að vera sammála. Hitt kann að vera að menn greini á um það hvaða leiðir eru heppilegastar að settu marki, m.a. að hve miklu leyti stjórnvöld eigi að koma þar nærri og/eða með hvaða hætti þegar að flestra dómi augljósu hlutverki stjórnvalda sleppir stuðla eigi að sem eðlilegustum almennum ytri skilyrðum sem nýtast allri atvinnustarfsemi.

Sem betur fer er okkar skipasmíðaiðnaður allmikill að vöxtum nú þegar og hefur þrátt fyrir að mörgu leyti erfiðar aðstæður á undanförnum árum, m.a. þráláta öfugþróun á sumum sviðum efnahagsmála, spjarað sig furðu vel. Á þeim vettvangi vinnur töluvert á annað þúsund manns þannig að hér er um mikilvægan málaflokk að ræða í atvinnulegu tilliti. Ef rétt er að staðið má ætla að hér leynist töluverðir vaxtarmöguleikar.

Ef við lítum aðeins til fiskiskipaflotans er augljóst að um gífurleg viðhaldsverkefni verður að ræða á næstu árum. Miðað við ástand fiskstofna virðist ljóst að stærð flotans er í hámarki þótt ekki verði fastar að orði kveðið. Má því ætla að viðhaldsverkefni og endurbætur aukist að tiltölu samanborið við fyrri ár. Hér er síður en svo verið að ýja að því að nýsmíði verði stöðvuð með öllu heldur hitt að endurnýjunin verður að vera jafnari til lengri tíma litið en verið hefur til þessa.

Með tilliti til fjárhagslegrar stöðu útgerðar er viss hætta á því að bolmagn sé ekki fyrir hendi til eðlilegrar og nauðsynlegrar endurnýjunar um sinn. En hitt er þó sýnu verra ef ekki eru einu sinni fjárhagslegar aðstæður til að halda flotanum við og hann grotnar niður sem gæti leitt af sér nýja og e.t.v. óhjákvæmilega kollsteypu í innflutningi skipa.

Við þessar aðstæður getur innlendur skipasmíðaiðnaður átt í vændum enn harðari samkeppni við erlendan, að útgerðin freistist enn frekar til viðskipta erlendis þar sem fyrir hendi er bolmagn til þess að bjóða betur. E.t.v. er hér um óþarfa svartsýni að ræða en ég tel óhjákvæmilegt að menn geri sér grein fyrir þeim hættum sem þarna kunna að leynast.

Auk þess hlýtur þegar allt kemur til alls að vera auðveldara að stuðla að jafnara viðhaldi þegar við höfum þau verk í eigin hendi hér innanlands. En til þess að innlendar skipasmíðastöðvar, viðgerðarstöðvar anni þeim verkefnum þarf til að koma skipulag í ríkari mæli en verið hefur. Hér þarf til að koma nánara samstarf og fyrirhyggja útgerða, smiðja og skipasmíðastöðva, lánastofnana, tryggingafélaga og opinberra aðila. Það liggur í augum uppi að á miklu veltur að gott samstarf sé á milli þessara aðila og að þeir leggi sig fram um að vanda svo til verka að þessi mikilvægi þáttur, mér liggur við að segja útgerðar, sé ávallt rekinn sem hagkvæmast og ekki síst eins og ég gat um fyrr með tilliti til þeirrar stöðu sem er í sjávarútvegi um þessar mundir.

Ég mun ekki í minni framsögu leitast við að færa fram töluleg rök fyrir því hagræði að viðhald og endurbætur á sem stærstum hluta okkar skipastóls fari fram innanlands og á ég þá ekki eingöngu við fiskiskip. Ég hef fremur kosið að fara almennum orðum um efnið.

Svo sem fram kemur með flutningi þessarar till. blundar enginn efi í hugskoti okkar flm. um jákvæð áhrif þess sem till. felur í sér á þjóðarhag enda verði sú þjónusta sem hér er verið að fjalla um að mestu leyti samkeppnisfær við erlenda aðila, bæði hvað varðar verð og gæði. Í mörgum tilvikum hefur því verið haldið fram að hagkvæmara sé að kaupa þessa þjónustu erlendis eins og ég hef vikið að áður. M.a. hefur verið bent á að viðgerðarstöðvar séu þar mun betur í stakk búnar. Ennfremur hafa menn staðið frammi fyrir því að ýmiss konar fyrirgreiðsla hefur verið meiri, m.a. fjármögnun, og til muna auðveldari. Opinberir aðilar og bankar í viðkomandi löndum hafa svo ekki verður um villst séð sér hag í því að greiða fyrir í þessum efnum. Oft hafa heyrst háværar raddir sem bent hafa á að okkar aðstæður þoli atts ekki samanburð í því tilliti.

Með markvissum aðgerðum og samstilltu átaki þeirra sem málið varðar er ég sannfærður um að hægt er að ná betri árangri hér innanlands. Útgerðir og skipafélög verða að undirbúa betur áætlanir um viðhald og stefna í auknum mæli að fyrirbyggjandi viðhaldi, smiðjur og skipasmíðastöðvar að efla verk- og rekstrartækni og auka þar með framleiðni og veita betri þjónustu. Að undanförnu hefur sem betur fer komið fram viðleitni af hálfu samtaka skipasmíðastöðva, smiðja og útgerða til aukins samstarfs þessara aðila um betra og jafnara viðhald íslenska skipastólsins. Þar er vonandi verið að stíga heilladrjúg skref.

Svo sem þessi till. til þál. felur í sér er nauðsynlegt að opinberir aðilar leggi sitt af mörkum á grundvelli samstarfs, ekki síst yfirvöld iðnaðar og sjávarútvegs en einnig bankar og opinberir sjóðir, m.a. með því móti að auðvelda og auka fjármögnun. Með betra skipulagi á útvegur og iðnaður að geta eflst af gagnkvæmum, eðlilegum viðskiptum.

Herra forseti. Með samþykkt þessarar till. sem vonandi verður kæmi fram að mínum dómi mjög mikilvæg viljayfirlýsing Alþingis í þessum efnum. Ég ætta ekki að hafa þessi orð fleiri en legg til að að loknum þessum hluta umr. verði till. vísað til atvmn.