16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2940 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

105. mál, viðhald á skipastólnum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ekki er að sjá að mjög margir alþm. hafi áhuga á dagskrármálum dagsins í hv. Sþ. Þegar svo fáir hlusta má maður segja að þetta er líkast þokkalegum kunningjaklúbbi þar sem menn ræða í bróðerni um hlutina en verst er þó ef menn stinga af áður en þeir hafa heyrt mismunandi röksemdir í málunum.

Herra forseti. Ég hef hvorki hugsað mér að eyða í þetta löngum tíma né heldur að fjalla um þetta lið fyrir lið ítarlega. Till. felur í sér í raun og veru að óskað er eftir því að menn láti frekar gera við skipin sín innanlands en erlendis og ef það kostar eitthvað meira hér heima en í útlöndum eigi ríkið að borga mismuninn. Þetta er út af fyrir sig göfug hugsun, ekki síst þegar maður hefur það í huga að nú um allmargra ára skeið hefur útgerðin verið pínd til þess að kaupa miklu dýrari vöru hér innanlands en erlendis. Þessi vandi skipasmíðaiðnaðarins og skipasmíðastöðva í landinu hefur bara fengið að leggjast ofan á annan vanda í útgerðinni og var hann þó ærinn fyrir. Satt best að segja hefur verið haldið þannig á hagsmunamálum útgerðarinnar nú til langs tíma að ég teldi rétt að þegja sem lengst yfir því hefði ég verið ráðamaður í síðustu ríkisstj. Og ekki virðist það ætla að verða betra, ekki a.m.k. eru fyrstu skrefin á þá leið.

En sem betur fer á þessi till. ekki eins mikið erindi nú eins og oft áður vegna þess að menn hafa valið þann kostinn miklu fleiri að láta gera við skip sín, breyta þeim og lagfæra þau á ýmsan hátt hér innanlands en áður var. Ég held að ekki sé nema ein ástæða til þess og hún er sú að orðin er talsverð samkeppni milli þessara skipasmíðastöðva nú. Þær eru að bítast um verkefnin, bjóða í þetta, bjóða miklu betri kjör en áður var. Ég á von á því að það batni enn meira en áður af ýmsum ástæðum, t.d. varðandi fjármagnskostnað og annað, vexti, að menn beini viðskiptum sínum yfir til innlendra stöðva jafnvel án hvatningar.

Hitt er svo annað mál að þetta er eitt af þessum atvinnuspursmálum í landinu, að reyna að halda sem mestum verkefnum af þessu tagi innanlands til þess að íslenskar hendur fái vinnu við það. Þessi till. er sjálfsagt flutt aðallega með þær staðreyndir bak við eyrað að nú smíða menn ekki ný skip hér innan lands, við höfum alveg nóg af skipum, og þá eru mörg hundruð manna sem þurfa að fá önnur verkefni í staðinn. Ég held að þetta sé í raun og veru kjarni þessa máls og aðalástæðan til þess að þessir ágætu fimm framsóknarmenn flytja þessa till., bæði menn af Norðurl. e. og austan úr Flóa og ofan úr Borgarfirði. Víðtækur áhugi til sjós og lands í raun og veru.

Það gleður eiginlega mitt hjarta að framsóknarmenn skuli nú fara að leiða hugann að hlutum sem snerta sjávarsíðuna. Í allmörg ár hef ég verið formaður í sjútvn. og það voru ágætir menn í þeirri nefnd og ekki voru framsóknarmennirnir lakastir, það er nú eitthvað annað. Hitt er annað mál að þeir máttu ekki alltaf missa tíma til að koma á fund. En þeir hafa sjálfsagt hugsað þeim mun meira um það heima.

Þrátt fyrir þetta atmenna áhugaleysi framsóknarmanna á sjávarútvegi og skipasmíði og öllu því sem því tengdist hafa þeir jafnan haft ráðherra í þessum málum að undanförnu með misjöfnum árangri. Satt að segja rennur manni það svolítið til rifja að hugsa til þessara tíma á undanförnum árum hvernig farið var með þessa hluti, ekki síst öll þessi skipakaup og skipasmíðar sem hv. 5. þm. Austurl. var svo hrifinn af. sannleikurinn er sá að þó að menn hafi þá hugað að viðgerðarþættinum ekki síður en nýsmíðinni, eins og hv. þm. orðaði það, áttu sér þar stað skelfileg mistök eins og sorglegt væri að rifja upp og ég hefði nú þagað yfir ef ekki hefði gefist tilefni. Ég er að sjálfsögðu ekki að saka þann hv. þm. um það allt saman. Hitt er annað mál að menn gerðu hér eitt asnastrik undir lokin sem átti að bjarga þessu öllu saman og það var að fara í þessa svokölluðu raðsmíði, ef menn hafa heyrt það. Þau eru einkennileg orðin mörg og þýða kannske oft allt annað en í þeim sjálfum felst. En raðsmíði þýðir að mörg skip eru smíðuð í röð á sama stað og alveg nákvæmlega eins, þ.e. fjöldaframleiðsla á skipum.

Í hverju var þessi raðsmíði fólgin? Tvö á Akranesi og tvö á Akureyri og eitt fyrir vestan o.s.frv. Auðvitað engin raðsmíði, allt annað en raðsmíði. Þau skip voru náttúrlega óskaplega dýr. Þau eru smíðuð án þess að nokkur kaupandi sé til, kannske í þeirri von að einhverjir vilji fórna sér og kaupa allt of dýrt skip sem getur alls ekki unnið fyrir sér, báta sem kosta talsvert á annað hundrað milljónir og enginn vill kaupa vegna þess að þeir vita að tekjur þeirra verða aldrei nægilegar til að greiða þessa raðsmíðabáta.

Auðvitað geta menn keypt skipin með því hugarfari bara að þeim komi peningamálin ekkert við. Menn hafa allt of mikið gert að því að undanförnu að ráðast í slíkt vitandi það að þeir geta ekki borgað og ákveðnir í því að borga ekki. Þetta er ákaflega slæmt og slíkt hugarfar er í raun og veru alveg óleyfilegt. Ég tel að útgerð eigi að bera ábyrgð á sínum rekstri, og þeir sem vilja bera ábyrgð á sínum rekstri kaupa ekki slíka báta, enda er ekki nema einn þeirra kominn á sjó og er enn á réttum kili eftir því sem ég frétti síðan. En til þess að hann sneri nú efri endanum upp þurfti að steypa í hann a.m.k. 70–80 tonn í kjölinn, býsna þungur.

Þetta var um raðsmíðina. Ef rétt er að verri greiðslukjör séu á pólsku skipunum sem eiga nú að fara til Vestmannaeyja og eru rétt ókomin en eru á þessum raðsmíðaskipum hlýtur það að þýða að ríkið hefur ættað sér að borga eitthvað af fjármagnskostnaði fyrir hin skipin jafnvel þó að þau séu þannig að enginn geti keypt þau né vilji þau. Þau standa bara og bíða þar sem verið er að smíða þau og þau verða auðvitað sett á flot. En þau fara ekki til veiða ef enginn kaupandi fæst.

Ég held að það sé ekki rétt leið, sem var drepið á í síðustu ræðu, að „hvetja“ menn til að kaupa fremur íslenskt af þessu tagi en erlent og nota til þess alls kyns leyfi, bönn og fyrirskipanir, að menn skuli kaupa sér íslenskt skip en alls kyns takmarkanir settar á útgerðina um að kaupa ódýrara og erlent. Þetta þýðir að verið er að neyða menn með slíkum aðferðum til að kaupa dýrt, m.a. með því að fyrir skuli liggja umsögn Sambands málm- og skipasmiðja. Allir vita fyrir fram hvernig hún hlýtur að vera. (Gripið fram í: Þetta var í næstsíðustu ræðunni.) Já, næstsíðustu ræðunni, ég biðst innilega afsökunar. Ég er nú ekki að tala um persónur í þessum efnum. Það er bara þetta sem í slíkum vinnubrögðum felst. Að leita umsagna þessara manna er hálfgerður skrípaleikur því að allir vita nákvæmlega hvað þeir vilja sem eðlilegt er. Þeir vilja auðvitað fá þessi verkefni. Það myndum við vilja líka ef þetta væri okkar lifibrauð. En það er nú svona með nýsmíðina innanlands á síðustu árum að þau skip sem hafa verið smíðuð 1981 og 1982, akkúrat á þessum dýrðartímum sem var verið að lýsa hér fyrr, skulda langmest. Enginn hefur ráðið við að borga af skipunum sem eðlilegt er. Milli ára hafa vextirnir kannske verið 80–90%. Fyrir utan það að tekjum útgerðar hefur verið haldið niðri og þær hafa vaxið miklu hægar eins og menn þekkja undanfarin ár en tilkostnaðurinn. Það er enginn vandi að drepa hvern einasta atvinnuveg sem er stýrt með slíkum aðferðum og slíku hugarfari. En þetta hefur verið gert nú til margra ára. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því.

Ég tel að sem betur fer sé ekki eins mikil þörf fyrir þessa till. og áður. En ég tel út af fyrir sig ekkert athugavert við það að hún fái jákvæða afgreiðslu. Í þessu felst í raun og veru það að við ætlum að taka upp niðurgreiðsluaðferðina eins og útlendingarnir. Við bara viðurkennum það eins og það er ef þarna er mismunur á. Kannske er það rétt en þetta þýðir það. Þá fara menn síður að leita til útlanda með þessi verkefni og raunar hefur það dregist mjög mikið saman. Þá þurfa menn ekki að sækja um leyfi, eins og var sagt í ræðu áðan, tveim mánuðum áður en verkframkvæmd á að hefjast, hvað sem það þýðir.

Herra forseti. Þetta er eitt dæmi um það að duglegir og áhugasamir þm. leggja á sig að setja saman svona till. með óvenjulegri og skemmtilegri grg. til að sýna þjóðinni að þeir séu enn vakandi í málunum og beita sér fyrir því að vekja athygli annarra þm. og sinna kjósenda á þeim áhuga.