16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2942 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

105. mál, viðhald á skipastólnum

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð, enda ekki margir hér í salnum. Ég vildi aðeins lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. Þó að hún sé flutt af eintómum framsóknarmönnum, eins og síðasti ræðumaður sagði, þá getur hún verið góð fyrir það. Auðvitað reynum við eftir mætti að stuðla að því að íslensk skipasmíði fái sem flest verkefni í þeirri grein. Þar eigum við sérstaklega hæfa starfsmenn sem vinna verk sín vel. Það sem stendur þeirri starfsemi fyrir þrifum er ekki mannskapurinn heldur hvernig hefur verið farið með þessar stofnanir í sambandi við fjármögnun. Það hefur ekki verið hægt að kaupa af þeim þjónustu í flestum tilvikum vegna þess hvað þær hafa orðið að selja hana dýrt miðað við erlenda aðila. Það er vandinn sem við er að glíma.

Því miður er hæstv. fyrrv. iðnrh. ekki hér í salnum, en það hefði verið fróðlegt að ræða við hann um það sem hv. síðasti ræðumaður gat um í sambandi við nýjustu innlendu smíðarnar síðustu árin. Þar má finna hrikaleg dæmi sem allir forðast enn þá að ræða um, hvað skuli taka til bragðs þegar kostnaður við smíði skipanna er kominn langt fram yfir það matsverð sem á þeim er. Samt er haldið áfram. Hver á að borga mismuninn? Það kemur hvergi fram. Það er þetta sem er vandamálið. Og þetta er iðnaðarvandamál sem veltur beint yfir í sjávarútveginn en menn hafa aldrei viljað viðurkenna. Forráðamenn iðnaðarins geta ekki haldið áfram að velta því beint á útgerðina. Hins vegar hefur hún tekið við þessu undanfarin ár. Sem betur fer getum við ætlað að þetta sé að lagast núna vegna minnkandi verðbólgu, en hamingjan hjálpi þessum skipum sem hafa verið í smíðum innanlands síðustu árin. Hver skal borga? Á kannske að setja fleiri manns ómaklega á hausinn í útgerðarrekstri fyrir starfsemi eins og þar hefur verið framkvæmd? Og fyrrv. ráðh. sagði hér áðan að það hefði ekki verið gert nóg að slíkri smíði. Ég skildi hann a.m.k. þannig.

Og ég skil ekki þann reikning að þessi pólsku skip, þó að þau hafi dottið hér óvart inn í kerfið, séu orðin eins dýr og íslensk skip sem hafa verið smíðuð hér undanfarið. Það stenst ekki. Ætli þá hafi ekki gleymst verðbólgustigið sem komið var á annað hundrað prósent í millitíðinni? Það kæmi mér ekki á óvart. Svona má ekki fara að. Auðvitað þarf að vinna að því að íslenskar skipasmíðastöðvar fái sem mest verkefni. Það er ekki enn þá tímabært að stunda nýsmíði þó að það sé stutt í það. Við skulum ekki gleyma því að bátaflotinn er orðinn 20 ára gamall að meðaltali. Hann þarf á verulegri endurnýjun að halda og það hlýtur að vera spurning hvað á að liggja lengi yfir því að klastra í hann, endurnýja svo og svo mikið af honum fremur en hreinlega að úrelda hann og smíða nýtt í staðinn. Þetta hlýtur að verða það sem takast verður á við núna á næstunni.

Því miður er hæstv. iðnrh. ekki hér staddur. Ég hef grun um að á borðum hans séu tillögur í þá átt að innlendar skipasmíðastöðvar fái möguleika til að taka að sér viðhaldsverkefni núna á næstunni, fyrst og fremst til þess að geta haldið sínum starfsmönnum í þjálfun, haldið sínu góða starfsliði og haldið því í þjálfun. Þetta verður að ske. Annars vöknum við upp við vondan draum þegar við þurfum að fara að endurnýja og enginn maður er til í landinu sem kann til verka.

En ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég er samþykkur þessari till., að þessum verkefnum sé beint hingað heim eins og mögulegt er til þess að halda uppi skipasmíðastöðvunum og iðnaðarmönnum sem þar eru, svo að þeir hafi verkefni og séu í þjálfun í þeim verkum sem hljóta að bíða þeirra innan skamms tíma.