16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2944 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

105. mál, viðhald á skipastólnum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um till. þá sem hér liggur fyrir, en þegar ég les hana og heyri þær umr. sem hér fara fram rifjast upp fyrir mér gamansaga sem sögð var um Ólaf heitinn Thors eitt skipti þegar hann var á fundaferðalagi og var á fundi á Álftanesi. Þá mun hann hafa gefið, eins og þá var tíðkað og reyndar síðar einnig, kosningaloforð. Eitt af loforðunum, sem hann gaf á fundinum, var að rafmagn skyldi koma í sveitina hið allra fyrsta. Þá mun Stefán á Eyvindarstöðum, bóndi þar, hafa kveikt ljós í salnum og nokkur hlátur orðið meðal fundarmanna, en Ólafur lét ekki slá sig út af laginu og sagði: „Þarna sjáið þið. Ég efni loforð mín strax.“

Þórarinn Þórarinsson fyrrv. þm., sem þá var í framboði fyrir Framsfl., hefur nú reyndar sagt mér að þetta sé þjóðsaga, þetta hafi ekki gerst nákvæmlega með þessum hætti, en sagan lifir og sagan er góð.

Ég rifja þetta hér upp, herra forseti, vegna þess að mér er kunnugt um að nú þegar hefur hæstv. viðskrh. haft samband við bankana og gert ráðstafanir til þess að viðskiptabankarnir láti ekki erlenda aðila fá betri fyrirgreiðslu en innlenda þegar um er að ræða skipaviðgerðir. Það er alkunna að skuldir, sem hafa orðið til erlendis hjá fyrirtækjum sem gera við skip þar, hafa verið greiddar nánast umyrðalaust úr íslenska bankakerfinu, en hins vegar hafa erfiðleikar verið talsverðir þegar um hefur verið að ræða lánafyrirgreiðslu í innlenda skipasmíðaiðnaðinum, nema í gegnum Fiskveiðasjóð eins og það kerfi var þegar skipasmíðaiðnaðurinn var upp á sitt besta og það þótti framfaramál að byggja sem flest fiskiskip fyrir Íslendinga.

Að auki er mér kunnugt um að hæstv. iðnrh. skipaði nefnd, sem ég held að hafi lokið störfum, og hún fjallaði nákvæmlega um sama verkefnið sem hér er verið að leggja til að unnið verði af hálfu hæstv. ríkisstj. Formaður nefndarinnar er hv. þm. Ólafur G. Einarsson. Þessi nefnd hefur, að ég best veit, skilað einni áfangaskýrslu. Það sem liggur fyrir er að ákveða með hvaða hætti hægt sé að afla þess fjármagns sem þarf, en það sem vantar er fyrst og fremst fjármagn sem innlendu skipasmíðastöðvarnar og þeir aðilar sem framkvæma skipaviðgerðir geti haft til afnota til að veita sams konar lánafyrirgreiðslu og erlendir aðilar geta veitt.

Ég lít þess vegna svo á að allar þær yfirlýsingar sem hér hafa komið um stuðning við þessa þáltill. séu fyrst og fremst stuðningsyfirlýsingar við þær aðgerðir sem nú þegar hafa farið fram af hálfu hæstv. viðskrh. og hæstv. iðnrh. og vænti þess að fyllsti stuðningur verði sýndur í verki þegar afla þarf fjármagns til að gera þá draumsýn að veruleika sem kemur fram í efnisatriðum þessarar þáltill., sem auðvitað er góðra gjalda verð.