16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2945 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

105. mál, viðhald á skipastólnum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð til að lýsa stuðningi við efni þessarar till. Ég hygg að öllum sé ljóst að sá iðnaður sem hér hefur vaxið á þessu sviði, skipasmíðaiðnaður, er í nokkurri hættu staddur. Það væri mikið tjón ef sú mikla þekking og verkkunnátta sem er samsöfnuð í skipasmíðastöðvunum ryki út í veður og vind þannig að starfsfólkið dreifðist, missti vinnuna og hyrfi til annarra starfa. Ekki er auðvelt að safna slíkri þekkingu saman aftur. Það er satt best að segja ekki hægt, held ég, ef hún dreifist og fer út um hvippinn og hvappinn. Þess vegna er afar mikilvægt að hægt sé að tryggja íslenskum skipasmíðastöðvum verkefni þannig að þær geti haldið þeim starfsmannafjölda sem þar er núna.

En aðeins örfá orð varðandi það sem hv. 2. þm. Reykv. Friðrik Sophusson sagði áðan og þá nefnd sem starfað hefur hér að undanförnu. Það mun rétt vera að þessi nefnd hefur lagt til að 150 millj. fari til þessa verkefnis. Það fé mun hún væntanlega taka að láni með einhverjum hætti. Þess sér hins vegar engin merki í lánsfjáráætlun hæstv. ríkisstj. svo að kannske er tæpt að frúa því að þetta eigi að koma til framkvæmda.

Ég vona að þessi nefnd hafi ekki lokið störfum því að hún hefur ekki gefið sér tíma til að heimsækja allar stærstu skipasmíðastöðvar á landinu og kanna þar aðstæður. sumar hverjar hefur hún heimsótt en ég veit t.d. að hún hefur ekki látið svo lítið að heimsækja skipasmíðastöðina Skipavík í Stykkishólmi sem er ein af þeim stærri. Þar er mjög alvarlegt ástand fram undan einmitt vegna verkefnaskorts. Ég lýsi þeirri von minni að hv. þm. Friðrik Sophusson, varaformaður sjálfstfl., komi því til skila til sinna flokksbræðra í þeirri nefnd að æskilegt er að nefndin kanni og heimsæki öll meginfyrirtæki á þessu sviði og geri tillögur um hvernig þessum iðnaði verði best við haldið. Þessi orð ætla ég ekki að hafa fleiri að sinni, herra forseti.