20.02.1984
Efri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2952 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Mig langar til að fagna frv. því sem hér er nú til umr. og sérstaklega að færa hæstv. iðnrh. þakkir fyrir vasklega framgöngu í þessu máli og raunar líka hæstv. fjmrh., þó ekki þeim sem talaði áðan heldur þeim sem situr í stólnum að staðaldri þó hann sé fjarverandi nú í nokkra daga, þ.e. hæstv. fjmrh. Albert Guðmundssyni, en þeir hafa sameiginlega unnið að því að endurskipuleggja þetta fyrirtæki, Siglósíld, sem hefur satt best að segja verið í mestu niðurlægingu um langa hríð. Það gefur að líta upplýsingar um allt þetta mál í fskj. með frv. sem hér er, til umr., og skal ég ekki fara út í að tíunda öll þau ósköp sem þar er að finna varðandi fjárhag þessa fyrirtækis, en hitt veit ég af langri reynslu, að það hefur verið til mikillar armæðu mörgum mönnum, sem bæði hafa fengist við bæjarstjórnarmálefni og eins þjóðmálin sjálf, og raunar fólkinu í Siglufirði líka, því að aldrei hefur verið um neitt atvinnuöryggi þar að ræða, og menn hafa raunar vitað það oft á tíðum að ódýrara hefði verið að senda launin heim til fólksins þá þau voru greidd, en oft voru menn auðvitað launalausir, heldur en að reka fyrirtækið.

Allan þann tíma sem ég hef verið þm. og varaþm. fyrir Norðurl. v. hefur þetta verið árvisst vandamál og ósköpin hafa ágerst eftir því sem á hefur liðið. Nú eru það athafnamenn í Siglufirði og raunar líka á Ísafirði, sem kunna til verka og vilja hætta miklu fé, sem hafa tekið sér fyrir hendur að endurskipuleggja og endurreisa þetta fyrirtæki og gera það að öflugu atvinnufyrirtæki gagnstætt því sem verið hefur. Það hefur verið gagnrýnt að verð það sem þeir greiddu fyrir húsnæðið væri of lágt. Ég held að svo sé ekki. Ég held að það sé fullt verð. Raunar hefur það líka komið í ljós, sem menn kannske ekki vita, nú síðustu daga og vikur, þegar farið var að rífa innan úr húsinu það sem ónýtt var og var þar flest af tækjum og innréttingum ónýtt og raunar stórskemmt á því þakið líka, en þá kom í ljós það sem menn ekki vissu, að einangrun var meira og minna ónýt í húsinu og þurfti að endurnýja hana. Þannig fer ekkert milli mála að það er fullt verð greitt fyrir þetta húsnæði.

Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum, ég hygg að það hafi verið í janúarmánuði árið 1980, var haldinn mikill fundur í Siglufirði með bæjarstjórn, alþm. og kunnáttumönnum á sviði niðursuðuiðnaðar, og þar var rætt hvað gera skyldi við þetta fyrirtæki. Það hafði þá verið stöðvað um lengri eða skemmri tíma eins og venjulega og menn hugleiddu hvað til ráða væri. Þar voru raunar líka fulltrúar verkalýðs. Þetta var sem sagt fjölmennur og út af fyrir sig ágætur fundur.

Það var eiginlega um þrjár leiðir að ræða: Sú fyrsta var að gera ekki neitt, fyrirtækið væri stöðvað og best væri að hafa það þannig. Ég segi ekki að menn hafi talið best að hafa það þannig, en kannske væri ekki annað að gera en hafa það þannig. Önnur leiðin var að láta í fyrirtækið talsvert mikla fjármuni eftir áættunum sem gerðar höfðu verið. Minnist ég þess að Guðrún Hallgrímsdóttir var þar, ég hygg á vegum iðnrn., með ítarlegar áætlanir um endurbyggingu fyrirtækisins. Þriðja leiðin var að halda áfram á sömu braut, þ.e. að úr ríkissjóði væru greiddir styrkir eða kannske hétu það nú ekki styrkir heldur væri stöðugt greitt úr ríkissjóði til að reyna að standa undir launagreiðslum og kaupa hráefni o.s.frv., en láta allt vaða á súðum áframhaldandi. — Ég lýsti því þar yfir að ég gæti fallist á aðra leiðina sérstaklega, að það yrðu gerðar ráðstafanir til að endurbyggja þetta fyrirtæki og koma því í rekstrarhæft ástand og næst mundi ég fallast á leið númer eitt, þ.e. að opna fyrirtækið alls ekki, en leið þrjú dytti mér ekki í hug að samþykkja því að hún hlyti að leiða til óskapnaðar og ófarnaðar og sú hefur líka orðið raunin. Vandræðin hafa vaxið sífellt og er nú svo komið að engin leið var að koma fyrirtækinu í gang öðruvísi en að fá í það mjög mikið nýtt fjármagn og fyrst og fremst auðvitað kunnáttumenn og athafnamenn sem vildu hætta sínu fé og taka að sér að reka þetta merkilega fyrirtæki, sem það upphaflega var og átti að vera.

Það mun hafa verið í lok viðreisnartímabilsins, ætli það hafi ekki verið þingið 1969–70, sem þáv. iðnrh. Jóhann Hafstein flutti frv. um að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag, en það tókst ekki að koma því máli fram því að það var komið að lokum viðreisnar og við tóku önnur öfl í þessu þjóðfélagi sem ekki höfðu sama áhuga á að efla einkarekstur í landinu og töldu rétt að halda fyrirtækinu í hinu gamla horfi með sem sagt þeim afleiðingum sem Siglfirðingar og landslýður allur hefur haft fyrir augum á síðustu árum.

Ég endurtek, virðulegi forseti, að ég færi ráðherrunum þakkir fyrir atorku þeirra og óska Siglfirðingum og okkur öllum til hamingju með þetta framtak.