20.02.1984
Efri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2953 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Skömmu fyrir jól vorum við þm. Norðurt. v. kvaddir á fund með hæstv. iðnrh. þar sem okkur var gefinn kostur á að sjá frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði ásamt grg. og drögum að kaupsamningi milli ríkissjóðs og væntanlegs kaupanda, Sigló hf., en það mál var þá í undirbúningi. Okkur var fengið frv. til þess að við segðum álit okkar á því. Hins vegar er mér kunnugt um að aldrei var leitað til stjórnar lagmetisiðjunnar, sem þó er skipuð lögum samkvæmt til að fara með málefni verksmiðjunnar. Í þessari stjórn eiga sæti m.a. fulltrúar bæjarstjórnar í Siglufirði og fulltrúar starfsmanna fyrirtækisins. Er skemmst frá að segja að stjórn fyrirtækisins hefur algerlega verið sniðgengin við alla þessa málsmeðferð. Formaður stjórnarinnar er Hannes Baldvinsson framkvæmdastjóri í Siglufirði.

Ég gerði mér ferð til Siglufjarðar til að kynna mér þessi mál milli jóla og nýárs og ræða við menn þar um hinar ýmsu hliðar þessa máls. Niðurstaðan varð sú, að við Hannes Baldvinsson formaður stjórnar Siglósíldar sendum iðnrn. sameiginlega álitsgerð, annar sem þm. kjördæmisins en hinn sem stjórnarformaður, enda er staðreyndin sú, að einmitt við tveir höfum átt talsvert náið samstarf okkar í milli til styrktar og stuðnings þessu mikilvæga fyrirtæki eftir því sem færi hefur gefist og allt frá því að gildandi lög um verksmiðjuna voru undirbúin og sett haustið 1971. Ég vil því leyfa mér, virðulegi forseti, í upphafi míns máls að byrja á því að lesa meginefni þessa bréfs, enda kemur þar fram afstaða okkar og helstu röksemdir í þessu máli. Við segjum þar m.a.:

„Við viljum strax taka það fram að við erum alls ekki andvígir breytingum á rekstri verksmiðjunnar eða lögum þeim sem um hana fjalla. Við höfum einmitt beitt okkur fyrir stórfelldum breytingum á rekstri verksmiðjunnar á liðnu ári, þegar Þormóði ramma hf. var leigð verksmiðjan og að því var stefnt í leigusamningi að fyrirtækin yrðu sameinuð með formlegum hætti á því ári sem nú er hafið. Þessi breyting virðist ætla að skila ágætum árangri og hefðu breytingar á lögum um fyrirtækið verið eðlilegt framhald af þeim skrefum sem þegar höfðu verið stigin til að endurskipuleggja rekstur og fjármál fyrirtækisins.

Enginn vafi er á því að samvinna lagmetisiðjunnar og Þormóðs ramma reyndist mjög vel og varð ekki síst til að styrkja rekstur Þormóðs ramma. Við erum hins vegar algerlega andvígir þeim áformum sem nú eru uppi um að slíta í sundur þau tengsl sem sköpuð hafa verið milli Siglósíldar og Þormóðs ramma og eyðileggja þann árangur sem náðst hefur í samrekstri þessara fyrirtækja með því að selja Siglósíld nokkrum einkaaðilum.

Í fyrsta lagi teljum við þessa skipulagsbreytingu óþarfa þar sem ekkert knýr á um að Siglósíld verði rifin út úr samrekstri með Þormóði ramma sem um hafði verið samið og reynst hafði vel — reyndar svo vel að væntanlegir kaupendur gera það að ófrávíkjanlegu skilyrði í kaupsamningi að fá aðstöðu hjá Þormóði ramma og afnot af eignum þess fyrirtækis.

Í öðru lagi teljum við nokkra áhættu felast í því fyrir Siglufjörð, að fyrirtækið verði sett í hendur aðilum sem að hálfu leyti starfa utan bæjarins, nema ótvíræð trygging sé gefin fyrir því að rekstri fyrirtækisins verði haldið í fullum gangi á næstu árum, jafnvel þótt eitthvað fari úrskeiðis í áætlunum nýrra eigenda og hagnaðarvonir rætist ekki fyrst um sinn. Ekki er að sjá að nýir eigendur skuldbindi sig á viðhlítandi hátt til að halda uppi rekstri á komandi árum ef það hentar þeim ekki og eru ákvæði um þetta efni í kaupsamningi mjög ófullnægjandi.

Í þriðja lagi er ljóst að kaupverð fyrirtækisins er í engu samræmi við verðmæti eignanna. Menn sem fjölluðu um verðmæti eigna fyrirtækisins nú í haust töldu að lágmarksverð eigna væri a.m.k. 24 millj. kr., en umsamið verð er 18 millj. kr. Útborgun er engin þótt núv. fjmrh. hafi í haust sett skilyrði að a.m.k. fimmti hluti kaupverðs yrði almennt greiddur út við sölu ríkisfyrirtækja. Kaupendur setja aðeins 25% tryggingu fyrir greiðslu, en að öðru leyti er veð tekið í því sem þeir kaupa. Ljóst er því að kaupendur hætta litlu öðru en hlutafé. Hitt er vitað eftir reynsluna frá því í sumar, þegar rækjuvinnslan stóð sem hæst og fyrirtækið velti um 10 millj. kr. á hverjum mánuði, að Siglósíld getur skilað miklum hagnaði á skömmum tíma ef vel gengur.

Fáum er þetta betur ljóst en einmitt framkvæmdastjóra Þormóðs ramma, Sæmundi Árelíussyni, eða vélstjóra Siglósíldar, Guðmundi Skarphéðinssyni, svo og sparisjóðsstjóranum, Birni Jónassyni sem gjörþekkir fjármál Siglósíldar, en einmitt þessir sömu þrír menn hafa lagt fram 40% hlutafjár.

Okkur þykir það einkennileg meðferð á sameiginlegum fjármunum landsmanna að selja fyrirtæki sem búið er að endurskipuleggja og gengur ágætlega til manna sem ekki greiða raunvirði fyrir það sem þeir eignast og hvorki greiða hæfilega útborgun né veita venjulega tryggingu fyrir greiðslu kaupverðs.

Í fjórða lagi verður ekki hjá því komist að átelja harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við meðferð þessa máls. Þegar ákveðið er að selja fyrirtækið öðrum en þeim sem veittur hefur verið forkaupsréttur er ekki svo mikið sem leitað ráða hjá löglega skipaðri stjórn fyrirtækisins eða hjá bæjarstjórn Siglufjarðar, sem átt hefur fulltrúa í stjórn undanfarin 12 ár. Ekki er heldur gerð tilraun til að kalla þá til þátttöku sem hugsanlega hefðu viljað tryggja að heimamenn ættu meiri hluta hlutafjár í því fyrirtæki sem tekur við rekstrinum. Svo er að sjá að hinir nýju eigendur hafi fengið að ráða kaupverðinu sjálfir.

Þessar fjórar ástæður, sem við höfum hér nefnt, teljum við hverja og eina næga röksemd fyrir því að hafna beri því frv. um sölu lagmetisiðjunnar Siglósíld sem undirbúið hefur verið.“

Þetta var bréf okkar Hannesar Baldvinssonar sem svar við fsp. hæstv. iðnrh. um hvert væri álit þm. kjördæmisins á þessu máli.

Ég held að ekki verði hjá því komist að minna á að þetta afmarkaða mál má auðvitað ekki skoða eitt sér. Það er um leið hluti af stefnu. Það virðist vera stefna núv. hæstv. ríkisstj. að selja beri eignarhluti ríkisins í sem flestum fyrirtækjum sem ríkið á aðild að og jafnvel að selja ríkisfyrirtækin eftir því sem kaupendur finnast. Þetta er hluti af þeirri stefnu sem hæstv. fjmrh. nefndi hér í seinustu viku að væri sitt markmið, þ.e. að afsósíalisera þjóðfélagið, eins og hann sjálfur komst að orði, sem sagt að rífa niður þá félagslegu uppbyggingu í atvinnulífi sem unnið hefur verið að á undanförnum áratugum. Ríkið á ekki að eiga neina aðild að atvinnulífinu og hafa þar sem minnsta forustu. Auðvitað hljótum við alþm. að verða að svara þeirri spurningu, þegar fyrsta málið sem er mótað af þessari stefnu kemur til umr. hér á Alþingi, hvort við erum samþykkir þessari stefnu, hvort þetta er rétt stefna, hvort þetta er heppileg stefna fyrir íslenskt þjóðfélag.

Í atvinnumálum má svo sannarlega hugsa sér ýmsar leiðir varðandi eignarhald að fyrirtækjum. Í grófum dráttum mætti kannske hugsa sér þær þrjár leiðir:

Í fyrsta lagi ætti ríkið alls enga aðild að atvinnurekstri og kæmi þar hvergi nærri. Það virðist vera sú stefna sem núv. ríkisstj. fylgir að kröfu sjálfstfl., enda mun hugmyndin þaðan komin og það munu fyrst og fremst vera ráðamenn Sjálfstfl. sem þetta þvinga fram.

Önnur leiðin er að ríkið sé alls staðar aðili atvinnurekstrar, eigi flest fyrirtæki. Við þekkjum í sumum löndum að þannig er málum fyrir komið. Ríkið á öll atvinnufyrirtæki og stjórnar þeim. Ég segi fyrir mig og ég tala þar einnig hiklaust fyrir Alþb.: Við höfnum báðum þessum leiðum alveg hiklaust. Við teljum alveg fráleitt að ríkið megi hvergi koma nærri og það eigi að vera eitthvert bannorð að opinberir aðilar standi að atvinnurekstri og við teljum það raunar alveg jafnfáránlegt og hitt að ríkið eigi öll fyrirtæki. Það teljum við ekki heppilegt og hefur slíkt aldrei falist í stefnu okkar.

Við höfum hiklaust haldið því fram að ætti að stefna að blönduðum rekstri þar sem öll þrjú meginrekstrarformin ættu rétt á sér, bæði ríkisrekstur, félags- og samvinnurekstur og svo jafnvel einkarekstur í ýmsum tilvikum. Við höfum hins vegar talið hiklaust að ríkið hefði forustuskyldu í atvinnumálum, það hefði hlutverki að gegna í mjög mörgum tilvikum og það ætti einkum að koma til sögu þegar þess gerðist sérstök þörf, enda hætt við að í mörgum tilvikum verði atvinnufyrirtæki ekki reist nema atbeini ríkisvaldsins komi til, forusta og jafnvel veruleg þátttaka.

Ég er ansi hræddur um að ef stefnu Sjálfstfl. hefði verið fylgt, þeirri stefnu sem núverandi forustumenn Sjálfstfl. virðast aðhyllast, þegar á döfinni var bygging áburðarverksmiðju eða sementsverksmiðju, þá hefði lítið orðið úr byggingu þeirra fyrirtækja ef þessum hægri sinnuðu kreddusjónarmiðum hefði verið gefinn laus taumur á þeim tíma og þau látin ráða ferðinni. Ég er líka ansi hræddur um að lítið hefði orðið um uppbyggingu á graskögglaverksmiðjum í landinu. Þótt vissulega hafi einkaaðilar komið þar við sögu og náð að byggja upp eitt eða tvö fyrirtæki er hætt við að á þessu sviði væri ákaflega lítil og léleg framleiðsla ef ríkið hefði þar ekki hlaupið undir bagga og haft þar alla forustu.

Þegar ákveðið var af fyrrv. ríkisstj. að beita sér fyrir því að reist yrði graskögglaverksmiðja í Hólminum í Skagafirði taldi ég sjálfsagt og eðlilegt að bændur í Skagafirði ættu sem mesta aðild að því fyrirtæki, hvatti mjög til þess á heimavígstöðvum og vonaðist til að bændur gætu jafnvel átt meiri hluta í því fyrirtæki. En þeim mun betur sem það mál var skoðað, því ljósara varð að þess var ekki kostur. Hvorki bændur né búnaðarfélög höfðu sameiginlega fjármuni til að leggja í svo dýrt fyrirtæki að þeir gætu eignast þar meiri hluta. Endirinn varð að bændur og búnaðarfélög eiga 1/4 í því fyrirtæki, en ríkið 3/4 hluta. Ríkið tók að sér að standa fyrir þeim hluta sem einkaaðilar gátu ekki staðið undir.

Ég hygg að nákvæmlega eins standi á um mörg fyrirtæki sem nú er á döfinni að reisa. Það er verið að tala um saltverksmiðju á Reykjanesi. Ég er ansi hræddur um að það verði lítið úr áformum um sjóefnavinnslu þar ef kreddukenningar Sjálfstfl. eiga að ráða ferðinni.

Það er verið að tala um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Þar koma greinilega aðeins tveir kostir til athugunar: annaðhvort að ríkið sé þar algjör forustuaðili eða málið sé afhent útlendingum. Því miður virðist ekki vera þar um aðra kosti að velja. Ef fyrirtækið á að vera íslensk eign verður ríkið að koma þar inn sem sá aðill sem veitir fyrirtækinu forustu og leggur fram meiri hluta hlutafjár.

Sama gildir um steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki, sem ákvörðun hefur verið tekin um að reisa. Að vísu verður ríkið þar ekki meirihlutaaðili, heldur minnihlutaaðili og mun eiga þar um 40% hlutafjár. Heimaaðilar verða þar ráðandi ásamt Sambandi ísl. samvinnufélaga og í samvinnu við ríkið. Það er hins vegar alveg ljóst að það fyrirtæki hefði aldrei orðið að veruleika og yrði aldrei að veruleika ef þau kreddusjónarmið hefðu ráðið í fráfarandi ríkisstj., af hálfu ráðh. Sjálfstfl. í þeirri stjórn, að ríkið mætti hvergi koma nærri.

Sem betur fer er Sjálfstfl. ekki einlitur flokkur. Sem betur fer eru þar ýmsir sem hafa skilning á því að kreddukenningar af þessu tagi séu skaðlegar fyrir íslenskt þjóðfélag. En því miður eru slík sjónarmið ekki í öndvegi í Sjálfstfl. um þessar mundir og þar ráða aðrir ferðinni, eins og glöggt hefur komið fram af stefnumótun þessarar stjórnar.

Ég hygg að gæfulegast væri fyrir þjóðfélag okkar að áframhaldandi væri ákveðin samstaða um það meðal forustumanna í stjórnmálalífi Íslendinga, í hvaða flokki sem þeir eru, að praktísk uppbyggingarstefna sé það sem eigi að vera ríkjandi og öll þessi rekstrarform eigi að koma til greina og hjálpa og styðja hvert annað eftir því sem hentugt þykir og nauðsynlegt. Og ég er sannfærður um að ekki er hægt að gera íslensku efnahagslífi og íslenskum atvinnumálum verri óleik en þann að kreddukenning hægri manna í íslenskum stjórnmálum verði þar ofan á.

Í sambandi við Siglósíld er kannske eðlilegt að rifjað sé upp hvers vegna þetta fyrirtæki var byggt í siglufirði sem ríkisfyrirtæki. Þetta fyrirtæki var byggt sem ríkisfyrirtæki vegna þess að það voru Síldarverksmiðjur ríkisins sem settu það á stofn. Siglufjörður var miðstöð síldarvinnslunnar í landinu um langt skeið. Þar komst íbúatala upp í um það bil 3400 manns á sínum tíma. Gífurleg verðmæti voru sett á land í Siglufirði og þar var mikil uppbygging. En eftir að síldin hætti að vera jafnmikilvægur þáttur í íslenskum þjóðarbúskap, að ég tali nú ekki um eftir að hún hvarf með öllu, fór fólki að fækka í Siglufirði og þaðan varð einhver mesti fólksflótti úr einu byggðarlagi sem dæmi eru um hér á landi á síðari áratugum, a.m.k. ef miðað er við þéttbýliskjarnana. Á tiltölulega skömmum tíma fækkaði fólki í siglufirði úr 3400 manns og niður í 2400. Þessi mikli samdráttur hafði fjöldamargar aukaverkanir í för með sér aðrar en þær að draga saman byggðina. Fyrirtæki fóru unnvörpum á hausinn, urðu gjaldþrota, og einkaaðilar í atvinnulífinu flúðu staðinn, þannig að einkaframtak á staðnum var um langt skeið ákaflega bágborið. Eftir sat mikill fjöldi fólks án atvinnu og bær með mjög litlar tekjur. Þetta bæjarfélag hefur því með ýmsum hætti dregist aftur úr öðrum sveitarfélögum vegna lélegra tekna um langt skeið. Það var talið eðlilegt að þjóðfélagið greiddi með einhverjum hætti þá skuld sem það skuldaði Siglufirði frá fyrri tíð og reyndi að hamla gegn því að byggðarlagið héldi áfram að eyðast. Þetta framlag var uppbygging Siglósíldar á sínum tíma á vegum Síldarverksmiðja ríkisins. Þess vegna gerðist það að ríkið setti upp niðurlagningarverksmiðju á þessum stað. Þetta hafa margir ekki almennilega skilið, en þetta er forsagan.

Ég er nú ekki sammála hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfi Konráð Jónssyni, um að rekstur þessa fyrirtækis hafi verið árvisst vandamál. Ég held að þetta sé ofsagt þótt ég viðurkenni að vísu að komið hafa tímabil þar sem þetta fyrirtæki hefur átt í töluverðum erfiðleikum. Ég held að t.d. mestallan áratuginn milli 1970 og 1980 hafi þetta fyrirtæki gengið allsæmilega og ekki hafi verið nein sérstök vandræði með rekstur þess. Mörg árin skilaði það hagnaði. (Gripið fram í.) Ég held að þetta sé misminni hjá hv. þm. Ég held að þau sé nokkuð mörg þau árin þar sem ekki var um margar eða miklar reddingar að ræða, eins og hann orðar það. Það var að vísu á hverju ári það vandamál að fyrirtækið þurfti að birgja sig upp af hráefni og iðnrn. og fjmrn. þurftu í sameiningu að hafa forustu fyrir því að útvega fjármagn til þess að kaupa hráefni. Vegna þess að það var óvenjuleg þjónusta að ríkið legði fram fé í þessu skyni þurftu þm. gjarnan að tryggja að þetta væri gert árlega, en þetta hefur verið gert í ein 15 ár og fjmrn. venjulega verið mjög tregt til og æðioft sagt að nú væri þetta í síðasta sinn sem slík þjónusta yrði reidd af höndum. Þannig er út af fyrir sig rétt að við höfum oft þurft að sinna þessu fyrirtæki, en það er ekki þar með sagt að fyrirtækið hafi gengið illa. Það skilaði oft hagnaði á seinasta áratug. Ég held að vandamálið sem ég hef nú verið að nefna hafi fyrst og fremst stafað af því að fyrirtækið hafi ekki nægilegt rekstrarfé. Eigandinn hafði ekki lagt fyrirtækinu til það rekstrarfé sem gæti tryggt að fyrirtækið gæti útvegað sér nægilegt hráefni á hverju hausti — eða þá að við getum snúið því við og sagt að bankakerfið hafi ekki verið nægilega lipurt að gegna þessari skyldu eins og þurfti.

Hins vegar er það staðreynd að fyrirtækið lenti í miklum vandræðum á árinu 1979 og 1980. Fyrst varð það fyrir því áfalli að hráefni skemmdist og varð að henda því og seinna varð það fyrir því áfalli að framleiðsla ársins var ekki flutt út. Skýringarnar á því voru margþættar. Þær voru m.a. þær að farmannaverkfall skall á og lamaði allan útflutning af þessu tagi um fimm vikna skeið og þegar síðan átti að flytja vöruna út hafði annað fyrirtæki í sama iðnaði, fyrirtæki Kristjáns Jónssonar á Akureyri, sent sams konar vöru í stórum stíl til Sovétríkjanna, en hún reyndist meingölluð. Þegar ljóst var að þessi framleiðsla Siglósíldar var á seinasta snúningi, ef svo má segja, ekki mátti bíða miklu lengur með að koma henni á markað, upphófst langt og mikið þóf um hvort ætti að flytja síldina út. Voru þar margir aðilar til kvaddir og voru að ráðslaga um það efni þangað til síldin varð endanlega ónýt. Þetta voru mikil áföll fyrir verksmiðjuna og var hún lengi að ná sér eftir þessi tvö áföll.

Svo bættist það við að verðlag framleiðsluvörunnar í Sovétríkjunum var ekki nógu hagstætt á árunum 1980, 1981 og 1982 og er það kannske ekki enn þá þó að það hafi nokkuð skánað, en fyrirtækið var í nokkuð einhæfum rekstri þar sem það var fyrst og fremst bundið við niðurlagningu á gaffalbitum.

En núna á síðustu árum hefur verið unnið að því að endurskipuleggja þetta fyrirtæki. Fyrirtækið hefur fengið alveg nýju hlutverki að gegna þar sem er framleiðsla á rækju. Rækjuvinnsluvélar voru keyptar til fyrirtækisins á s.l. ári. Þá fór rækja að berast til Siglufjarðar í fyrsta sinn um langt skeið og ný atvinnugrein skaut þar rótum. Ég tel að eftir að síðan var ákveðið að afhenda Þormóði ramma fyrirtækið til rekstrar, leigja það Þormóði ramma, hafi fyrirtækið verið komið á ágætan grundvöll. Staðreyndin er sú, að fyrirtækið hefur aldrei blómstrað jafnvel og einmitt á s.l. sumri í samvinnu við Þormóð ramma, sem leggur því til ýmiss konar aðstöðu. Ég hygg að þessi samvinna hafi verið báðum aðilum mjög til góða.

Í grg. með frv. þessu eru gefnar einhverjar vonir um að með yfirtöku nýrra eigenda á fyrirtækinu muni þar hefjast starfsemi sem alls ekki var fyrir áður. Ég vil vekja athygli á því að þessar fyrirætlanir og vonir eru ákaflega óljósar. Það er sérstaklega nefnt að eigendurnir ætli að útvega sér rækju úr Barentshafi og vinna hana í Siglufirði. Ég veit ekki til að það sé nein sérstök nýlunda með Siglósíld, sem hefur einmitt unnið talsverða rækju sem veidd var af rússneskum veiðimönnum og seld nokkrum verksmiðjum hér á landi. Hefur verið allt útlit fyrir að sú samvinna gæti haldið áfram í einni eða annarri mynd. Það eina nýja við þessa margumtöluðu rækju, sem er sögð ættuð úr Barentshafi og á að vinna í Siglufirði, er að hún mun hafa verið flutt til Hollands og er í Hollandi um þessar mundir. Það vill svo óskemmtilega til að ekki er hægt að hugsa sér neinn stað á jarðarkringlunni þar sem er eins vont að eiga rækju og einmitt Holland. (EKJ: Þetta er ósmekklegt.) Er ósmekklegt að benda á þá staðreynd að rækjumarkaðurinn er í verulegri hættu um þessar mundir vegna eitrunar sem varð einmitt í Hollandi? (EKJ: Ekki rækja úr Barentshafi.) Nei, það var ekki rækja úr Barentshafi, en það er hins vegar... (Gripið fram í.) Já, en það er hins vegar vitað að rækja í Hollandi er öll undir mjög ströngu eftirliti. Ég er ekki með þessum orðum að segja að rækjan úr Barentshafi sé eitruð. Auðvitað er ég ekki að segja það með þessum orðum. (EKJ: Ertu inni á því að skelfiskur falli með þessu?) En þegar menn reyna að telja mönnum trú um að í þessu ráðslagi, að flytja rækju annars staðar frá og vinna hana í Siglufirði, sé fólgið eitthvert sérstakt nýmæli, þá bendi ég á að í því er fólgin nokkur blekking. Þetta er ekki nýtt, það hefur verið gert áður, en þá á þann hátt að rækjunni var landað hér á landi, á Akureyri, og flutt til Siglufjarðar og unnið þar úr henni. Sú viðbót að rækjan hefur viðkomu í Hollandi er áreiðanlega ekki til að gera hana neitt seljanlegri þegar þar að kemur. Þetta er staðreynd sem engin ástæða er til að draga dul á þó að þetta sé kannske atriði sem ekki skiptir öllu.

Í sambandi við verðið, sem varð nokkurt umtalsefni hæstv. fjmrh., að 18 millj. kr. væri það verð sem hæfilegt væri og hvorki meira né minna, vil ég ítreka það, sem ég nefndi hér fyrr í minni ræðu, að úttektarmenn, sem skoðuðu þetta fyrirtæki nú á haustmánuðum, voru almennt sammála um að hæfilegt verð fyrir fyrirtækið væri 24 millj., en þeir sem ætluðu að kaupa fyrirtækið sögðu: 18 millj. og ekki krónu í viðbót — og það samþykktu hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh.

Hæstv. iðnrh. nefndi það áður að Þormóður rammi hefði átt forkaupsrétt að fyrirtækinu og hann hefði átt að fá fyrirtækið fyrir upphæð sem framreiknuð næmi um 18 millj. kr. Það er enginn vafi á því að hér hefur hæstv. iðnrh. eða reiknimeisturum hans orðið eitthvað á í messunni því að ef upphæðin er framreiknuð er hún eitthvað nær því að vera í kringum 20 millj. En staðreyndin er líka sú, að eftir að ríkið er búið að endurskipuleggja fyrirtækið á s.l. vori og búið að byggja upp þá ágætu samvinnu milli Þormóðs ramma og Siglósíldar sem byggð var upp á s.l. sumri og búið er að reka fyrirtækið heilt sumar með slíkum ágætum að framkvæmdastjóri Þormóðs ramma, sem þekkir til allra manna best, telur það nú vera gæfulegast fyrir sig að setja sína fjármuni í þetta fyrirtæki og stjórna því síðan, þegar þetta hefur gerst fyrir frumkvæði ríkisins er ekki víst að sú verðlagning, sem menn gátu hugsað sér að kæmi til greina í viðskiptum Siglósíldar og Þormóðs ramma á s.l. vetri, þegar fyrirtækið var afvelta, sé sú verðlagning sem sé við hæfi einu ári síðar. Þetta veit ég að jafnglöggur maður og hæstv. iðnrh. skilur mjög vel. Verðið sem úttektarmenn á s.l. hausti töldu hæfilegt var 24.6 millj. kr. nákvæmlega tiltekið.

Virðulegi forseti. Þetta mál er stórt mál fyrir Siglufjörð. Það er nú samt ekki þess vegna sem ég orðlengi svo um það, heldur er ástæðan líka sú, að þetta er fyrsta málið af mörgum sem boðuð hafa verið og eiga að stefna í þá átt að selja fyrirtæki ríkisins til einstaklinga. Það eru ákveðnir þættir þessa máls sem eru uggvænlegir varðandi þá stefnumótun og framkvæmd hennar. Fyrst og fremst er vafasamt að verið sé að selja mikilvægar eignir og atvinnufyrirtæki ríkisins til einstaklinga án þess að þeir greiði eðlilegt kaupverð fyrir það selda, án þess að þeir staðgreiði fyrirtækið að hluta til, sem þeir eru að kaupa, og án þess að þeir leggi fram eðlilegar tryggingar og veð fyrir því sem þeir kaupa. Þetta eru þættir málsins sem vísa langt út fyrir þetta mál og boða ekkert gott. — En meginatriði þessa sérstaka máls eru þau sem ég rakti hér í upphafi, að í fyrsta lagi er þetta algerlega óþarft og þjónar engum öðrum tilgangi frá sjónarmiði Siglufjarðar og íbúanna þar en þeim að fullnægja yfirlýsingum forustumanna Sjálfstfl. um sölu ríkisfyrirtækja, þetta er óþörf breyting og óhyggileg, í henni er fólgin veruleg áhætta fyrir bæjarfélagið og þar að auki eru vinnubrögðin og málsmeðferðin fyrir neðan allar hellur.