20.02.1984
Efri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Nokkuð hefur verið deilt um hvort selja ætti þessa verksmiðju eða ekki eða gefa hana eins og margur hefur orðað það. Ástæðurnar fyrir því að til þessarar ákvörðunar hefur verið gripið eru sjálfsagt margar en mér er tjáð að fyrir allnokkru síðan hafi farið fram athugun á þessum rekstri og menn hafi staðið frammi fyrir nokkrum kostum. I fyrsta lagi að ríkið legði fé í að byggja upp verksmiðjuna og það myndarlega. Í öðru lagi að hætta rekstri. Í þriðja lagi að halda áfram á sömu braut og verksmiðjan var rekin á.

Þriðji kosturinn var valinn og var hann sennilega verstur. Það segja mér Siglfirðingar að ríkisvaldið eða iðnrn. hafi dregið lappirnar hvað varðar þetta fyrirtæki, ekki viljað veita því aðstöðu til að starfa á eðlilegan hátt. Því hafi fyrirtækið verið rekið á þann hátt sem margur hefur oft kallað „sósíalisma andskotans“ sem aftur hefur þýtt það að fyrirtækið hefur verið á brauðfótum og enginn sómi að rekstri þess. Ég hygg þó að upp á síðkastið hafi rekstur fyrirtækisins gengið betur en áður.

Stjórnarmenn Siglósíldar segja mér að þeir hafi ekki fengið að sjá reikninga fyrirtækisins fyrir 1982, hvað þá fyrir 1983. Væri fróðlegt að vita hvort þeir liggja fyrir, hvort rétt sé, sem margur hyggur á Siglufirði, að fyrirtækið hafi verið rekið með hagnaði á síðasta ári, hvort hægt væri að fá það upplýst, a.m.k. í nefnd þeirri sem með þetta fer. Ég á reyndar sæti í þeirri nefnd og mun inna eftir því þar ef ráðh. hefur ekki upplýsingar um það nú.

Að mörgu þarf að huga við afhendingu þessarar verksmiðju, t.d. því hvernig farið verður með réttindi starfsfólks sem þarna hefur unnið. Margt af þessu fólki hefur skapað sér réttindi með sinni vinnu, svo sem veikindadaga og tryggingar. Er þessu fólki beinlínis hent út eða er fyrirtækinu sem nú tekur við þessum rekstri gert skylt að standa við þær skuldbindingar sem voru á fyrri rekstri?

Átalið hefur verið hvernig staðið hefur verið að þessari breytingu og ég tek undir þau ámæli. Ég tel að ríkt hafi fullmikið offors við þessa breytingu og gjarnan hefði mátt leita álits stjórnar og/eða bæjarstjórnar. Einnig hefði verið eðlilegt að gefa fleirum kost á að taka þátt í þessum rekstri. Það er ekki ljóst hvers vegna þessir menn voru sérstaklega valdir. Voru þeir einu mennirnir sem sýndu áhuga eða voru þeir valdir eftir einhverjum sérstökum nótum? Fróðlegt væri að fá það upplýst.

Ég læt þá staðar numið við þessar spurningar og vænti þess að ráðh. svari þeim hér á eftir.