20.02.1984
Efri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Ólafur Jóhannesson:

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hvorki í athugasemdum við þetta frv. né í framsöguræðu hæstv. iðnrh. er vikið að tilteknum þætti þessa máls sem ég tel mjög mikilsverðan. Í 2. gr. laga nr. 46 frá 1972, um Lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lagmetisiðjan vinnur að niðurlagningu, niðursuðu og hvers kyns fullvinnslu matarrétta úr sjávarafurðum og öðrum íslenskum hráefnum. Jafnframt annast lagmetisiðjan tilraunastarfsemi á þessu framleiðslusviði undir leiðsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og miðlar reynslu og þekkingu til annarra framleiðenda.“

Ég á að sjálfsögðu við þennan síðari hluta 2. gr. laga 46/1972. Mér er það fullkunnugt að þegar starfsemi þessarar verksmiðju var skilin frá Síldarverksmiðjum ríkisins og gerð að sjálfstæðri stofnun og sett um hana sérstök lög var þetta ein af ákvörðunarástæðunum. Ég vil fullyrða að hún hafi verið mikilvæg ákvörðunarástæða þó að ég neiti því ekki að atvinnusjónarmið voru líka höfð í huga.

Mér er ljóst að margt hefur breyst á þessum árum sem liðin eru frá 1972. Lagmetisiðnaði hefur sem betur fer farið fram. Enn fremur verður því miður að játa að viss vandamál hafa orðið á vegi Lagmetisiðjunnar, sumpart vegna hráefnisskorts sem stundum var fyrir hendi og í annan stað verður maður líklega að játa með nokkrum kinnroða að aldrei hefur verið staðið nægilega vel að því að búa Lagmetisiðjuna í stakk til að gegna þessu hlutverki. En þó að margt hafi breyst álít ég að enn sé full þörf á því hlutverki og því markmiði sem sett er í 2. mgr. 2. gr. laganna. Ég veit líka að nokkuð hefur verið hugað að því af hálfu stjórnar þessa fyrirtækis þó að það verði að játa að það hefur aldrei komist á þann legg sem hugsað var og þurft hefði því að tilraunastarfsemi á þessu sviði er vissulega nauðsynleg.

Ég sé það í athugasemdum með frv. að gert er ráð fyrir því að vissar nýjungar í rekstri eigi sér stað þegar hinir nýju eignaraðilar hafa tekið við og það er góðra gjalda vert. En að sjálfsögðu er það hvort slíkar fyrirætlanir komast í framkvæmd eða ekki algerlega háð ákvörðun og getu hinna nýju eignaraðila og þar er ekkert minnst á eða vikið að tilraunastarfsemi á borð við það sem segir í 2. mgr. 2. gr. enda býst ég við að varla verði talið eðlilegt að leggja slíka kvöð á einkaaðila. En einmitt í þessu atriði er ein réttlætingarástæðan fyrir því að talið var eðlilegt að þarna væri um opinberan rekstur að ræða af því að hann átti að ganga á undan og finna leiðir og gera tilraunir varðandi þennan mikilvæga atvinnurekstur sem miklar vonir voru og eru, að ég ætla, bundnar við.

Ég er á engan hátt að lýsa yfir andstöðu við þetta frv. enda er nú salan farin fram að því er ætla má í raun og veru en ég kann því illa að hvergi í umfjöllun um málefni Lagmetisiðjunnar Siglósíldar sé vikið að þessum þætti, þessu hlutverki sem henni var ætlað og ég tel fulla þörf á að sinna enn. Ég hef ekki getað séð í gögnum málsins sem lögð hafa verið fyrir Alþingi að þessu atriði hafi verið neinn gaumur gefinn, það er ekki minnst á það. Þess vegna langar mig til að beina þeirri spurningu til hæstv. iðnrh. hvort þessu hlutverki og þessu markmiði sem þarna er rætt um í 2. mgr. 2. gr. sé kastað fyrir róða, ekki sé lengur talin þörf á að standa að lagmetisiðnaðinum með þeim hætti að styrkja hann á þann hátt að fram fari á einum stað viss tilraunastarfsemi varðandi þetta atriði.

E.t.v. má segja, virðulegi forseti, að þessi spurning sé óþörf af því að með þessu frv. er gert ráð fyrir að lög nr. 46/1972 séu felld niður og ekki er í athugasemdum að finna neitt um að samsvarandi eigi að gilda framvegis hjá hinum nýju eignaraðilum enda, eins og ég sagði áðan, sjálfsagt dálítið erfitt að leggja slíka kvöð á þá. En allt um það, mig fýsir að fá yfirlýsingu frá hæstv. iðnrh. um þetta atriði, að þessu sé hér með kastað fyrir róða.