20.02.1984
Efri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2969 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég skal einnig reyna að stuðla að því að umr. um þetta mál geti lokið á þessum fundi. Þó þarf ég að nefna hér örfá atriði. Hæstv. ráðh. var að gera því skóna áðan að lítið hefði samráðið verið við stjórn Siglósíldar á sínum tíma þegar fyrirtækið var leigt Þormóði ramma. Þetta er á miklum misskilningi byggt. Og þó að hæstv. ráðh. geti lesið upp úr einhverjum plöggum, þá verður lítið ráðið af því hvernig staðið var að málum. Það var staðið þannig að málum að nefnd vann að endurskipulagningu þessa fyrirtækis, og í nefndinni var stjórnarformaður Siglósíldar sem hafði því náin samráð við sína stjórn og lét hana fylgjast með því hvað væri að gerast. Það sem gert var var að sjálfsögðu í fullu samráði við stjórn Siglósíldar. Þessi málflutningur ráðh. fellur því algerlega um sig sjálfan. Vinnubrögðin hjá núv. ríkisstj. eru auðvitað í æpandi mótsögn við þessi vinnubrögð. Þarna var nefnd að störfum. Bæði voru þar aðilar frá fjmrn. og iðnrn., einnig frá stjórn Siglósíldar og raunar frá fleiri aðilum. En núverandi stjórn fer þannig að, að hún setur stjórn Siglósíldar gersamlega til hliðar. Hún kynnir henni ekki einu sinni málið, hvað þá meir, þó að sú stjórn sé enn starfandi og hennar kjörtímabili ljúki ekki fyrr en í vor nema lög um hana verði fyrr numin úr gildi. Síðan er stjórn Þormóðs ramma látin fara sömu leiðina. Stjórn Þormóðs ramma, sem var að meiri hluta til skipuð heimamönnum á Siglufirði, er sett af og í hana eru skipaðir menn í rn. hér syðra. Þar með hafa þeir í ríkisstj. fengið full tök á þessu máli. Þeir eru búnir að setja báðar stjórnirnar af og geta þar með riftað þeim samningum sem gerðir höfðu verið um þetta mál.

Hæstv. ráðh. sagði: jú, jú, málið var kynnt bæjarstjórninni, hvað eru menn nú að kvarta yfir því? Ég get upplýst að frv. var sent bæjarstjórn Siglufjarðar í janúarmánuði s.l. En hvenær ætli samningurinn um yfirtöku hinna nýju eigenda að fyrirtækinu hafi tekið gildi? Hann tekur gildi 1. jan. Hann hefur þegar tekið gildi þegar málið er sent bæjarstjórn Siglufjarðar til umsagnar. Að vísu má segja að þá hafi málið ekki verið fullfrágengið vegna þess að Alþingi átti eftir að fjalla um það og ganga endanlega frá málinu. En auðvitað kemur bæjarstjórnin að málinu nokkurn veginn fullfrágengnu þegar meira að segja hinir nýju eignaraðilar hafa tekið við fyrirtækinu, að vísu sem leigufyrirtæki til að byrja með, þegar bæjarstjórnin fær það til umræðu. Hún kemur því nokkurn veginn að gerðum hlut.

Hæstv. ráðh. orðaði það þannig, að ég væri með mínar kreddur og vildi hanga í því að þetta væri ríkisfyrirtæki og áfram rekið á vegum ríkisins. Auðvitað veit hæstv. ráðh. að þetta er ósanngjarn málflutningur miðað við það sem ég upplýsti í ræðu minni áðan og kom fram í bréfi okkar og í verkum okkar, þegar við afhentum þetta ríkisfyrirtæki í hendur Þormóði ramma með kaupleigusamningi og gerðum ráð fyrir því að ríkisfyrirtækið Siglósíld yrði þar með með tíð og tíma lagt niður. Við gerðum ráð fyrir því. Við sáum hins vegar að það var heppilegast að reka þessi tvö fyrirtæki saman og vitum að svo er enn, eins og best sést á því að hinir nýju eigendur treysta sér ekki til að reka þetta fyrirtæki nema það sé sett að skilyrði í samningi að þeir fái aðstöðu hjá Þormóði ramma og afnot af eignum Þormóðs ramma. Það sýnir best hversu gáfuleg þessi nýja ákvörðun er, að það er verið að rjúfa tengsl aðila sem unnu saman, það er verið að slíta þá í sundur, en samt sem áður er það sett að skilyrði að þeir vinni saman og að Þormóður rammi veiti þá aðstöðu sem hann hefur veitt á undanförnum mánuðum. Nei, auðvitað er það algerlega út í bláinn að halda því fram að ég haldi fast í það að hér sé um ríkisfyrirtæki áframhaldandi að ræða. Ég vil bara að þetta fyrirtæki fái að vera í friði í skjóli Þormóðs ramma eins og var búið að koma þessum málum fyrir á s.l. sumri að bestu manna yfirsýn heima fyrir. En hæstv. ráðh. staðfesti með orðum sínum hér áðan að hann ætlar að fylgja kreddukenningunum og harma ég það.