20.02.1984
Efri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2970 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason þarf varla að spyrja að því að það verði þá af öðrum aðilum séð um að verkafólk haldi réttindum sínum, ef þeir sem að sölu og kaupum standa ætta að bregðast skyldum sínum. Trúlega verður um það séð.

Lokauppgjör hafði ekki farið fram, en það verður séð um að sú nefnd sem fær þetta væntanlega til meðferðar fái allar lokaniðurstöður. Nokkurn veginn höfðu menn til hliðsjónar rekstursuppgjör, Þormóður rammi átti að sjálfsögðu að standa skil á því, en útkoman varð nú ekki eins og menn gerðu sér vonir um.

Hv. 6. landsk. þm. Karl Steinar Guðnason sagði í fyrri ræðu sinni að iðnrn. hefði ekki viljað veita fyrirtækinu aðstöðu til eðlilegs reksturs. (Gripið fram í.) Jæja, ekki var það tekið fram í fyrri ræðunni. Um fjölda ára hefur maður gengið undir manns hönd til að hjálpa þessu fyrirtæki í rekstri og langt umfram það sem velflest ef ekki öll fyrirtæki hafa orðið aðnjótandi. Ég hef áður vikið að hvers vegna.

Hv. stjórnarandstöðuþingmenn úr Alþfl. töluðu í fyrri ræðum sínum um hagnað af þessu fyrirtæki. Hvað á ég nú að halda þegar menn hafa slíkt orð uppi um fyrirtæki eins og Siglósíld? Er að furða þótt kannske hrökkvi af vörum mér að ég hirði um það að hv. þm. hafi kynnt sé þetta mál? (KSG: Það eru ekki breytingar af sjálfu sér.) Hafi kynnt sér þetta mál allt saman eins og það er í pottinn búið á liðnum árum og áratug.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds sagði að hann hefði viljað að fyrirtækið fengi að vera í friði í umsýslu Þormóðs ramma. Það er hægt að færa járnkaldar sannanir á að Þormóður rammi gat ekki byggt þetta fyrirtæki nauðsynlega upp. Það rak það í örfáa mánuði með gamla laginu, með gamla dótinu sem allt var að niðurfalli komið, húsið sem annað. Niðurlagningarlínan var ónýt. Þetta veit hv. þm. þó að hann láti í annað skína núna. Til þess að rétta fyrirtækið við þurfti stórkostlegt fjármagn. Og nú, þegar virðist vera búið að leysa þá mikilvægu gátu, þá hafa menn allt á hornum sér bara til þess að leika einhverja stjórnarandstöðutilburði. Ég get ekki séð að annað og meira geti í þessu falist. Og þm. kjördæmisins, sem ætti að fagna slíku framtaki eins og það blasir við hverjum manni, þarf af einhverjum misskildum kredduástæðum að hafa allt á hornum sér.