20.02.1984
Neðri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2975 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

196. mál, lausaskuldir bænda

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að frv. þetta er fram komið á hv. Alþingi og taka undir með hæstv. landbrh. um nauðsyn þess að hraða afgreiðslu þess. En um leið vil ég gjarnan beina því til hæstv. ráðh. að jafnframt því sem ég vænti þess að Alþingi greiði fyrir framgangi málsins í gegnum þingið verði unnið að undirbúningi á framkvæmd laganna eftir að þau hafa verið afgreidd þannig að þau framkvæmdaatriði sem við er að fást — og þau eru margvísleg — leiði ekki til þess að mjög mikill dráttur verði á því að unnt verði að hrinda málinu í framkvæmd.

Ég skal ekki fara út í þetta frv. efnislega í mörgum atriðum. Hæstv. landbrh. hefur skýrt tildrög þess og frv. efnislega. Fram hefur komið að frv. þetta er flutt í framhaldi af skipun nefndar sem skipuð var 10. des. 1982 til að kanna fjárhagslega afkomu bænda. Þessi nefnd starfaði undir formennsku Bjarna Braga Jónssonar hagfræðings, þáv. forstöðumanns hagdeildar Seðlabanka Íslands og nú aðstoðarbankastjóra þar. Nefndin skilaði bráðabirgðaáliti 11. maí s.l. og síðar tillögum sínum þann 9. sept. 1983. síðan hefur mál þetta verið til meðferðar hjá landbrn. og ríkisstj.

Ég vil leggja á það ríka áherslu að tildrög þess að nefndin var skipuð og að frv. er nú flutt er mjög alvarlegur fjárhagslegur vandi bændastéttarinnar. Þessi vandi á sér rætur í nokkrum meginatriðum sem hér var lauslega drepið á. Ástæðulaust er að draga fjöður yfir það að árferði síðustu fjögurra ára af fimm hefur verið með þeim hætti að kalla má harðæri og hefði kostað felli á bústofni landsmanna ef slíkt árferði hefði dunið yfir fyrir einni öld eða tveimur. Fjögur af fimm síðustu árum hafa verið mjög köld og erfið, þrjú af þeim eru talin hin köldustu á þessari öld. Þeir sem verma sig í húsum inni við störf sín alla daga mættu gjarnan taka eftir þessu og leiða að því hugann að þær stéttir landsins sem eiga mikinn hluta af afkomu sinni undir veðri og vindum, sól og regni, árferði í landinu, hafa á þessum árum átt við harða kosti að búa.

Samtímis þessu hefur það gerst að vegna markaðsaðstæðna og fyrir stjórnunaraðgerðir hefur þurft að draga saman framleiðslu bændastéttarinnar sem jafnframt hefur komið harkalega við afkomu þeirra. Á sama tímabili, í þeirri verðbólgu sem hv. Alþingi er kunnugt um, hefur einnig verið tekin upp verðtrygging á lánum og hávaxtastefna. Slíkar fjármagnsbyrðar og verðtrygging á lánum koma harðar við landbúnaðinn og bændastéttina en, að ég hygg, við nokkra aðra atvinnustétt í þessu landi. Það stafar einfaldlega af því að fjármagn sem lagt er í hina hefðbundnu búvöruframleiðslu skilar seinna arði en það fé sem lagt er í flestar aðrar atvinnugreinar. Þess vegna hefur þetta ástand einnig átt mjög verulegan þátt í því að auka á erfiðleika bændastéttarinnar á þessu tímabili.

Ég skal ekki gera lítið úr því að einnig hafi verið um að ræða ófullnægjandi frumfjármögnun fjárfestingar, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, en ég hygg að þau þrjú atriði sem ég nefndi fyrr séu meginorsakir þess að við alvarlegan fjárhagslegan vanda er að eiga hjá bændastéttinni.

Í frv. því sem hér liggur fyrir og ekki er á nokkurn hátt óvenjulegt að gerð er greint frá því að ákvörðun um lánakjör skuli tekin af stjórn veðdeildar Búnaðarbanka Íslands ásamt fulltrúum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins og að fengnu samþykki landbrh.

Ég vil fyrst segja um þetta atriði að það er út af fyrir sig ekkert sérkennilegt enda þótt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni virtist svo vera áðan. Stjórn veðdeildar Búnaðarbanka Íslands er bankaráð Búnaðarbankans og þeir tveir fulltrúar sem nefndir eru til viðbótar eru stjórnarmenn í Stofnlánadeild landbúnaðarins. Og það er nú svo að Búnaðarbanka Íslands er ætlað að ábyrgjast þessi lán. Þannig að hér er ekki á nokkurn hátt óvanalega eða óeðlilega að farið.

Hitt vil ég segja um þetta atriði að hér skiptir auðvitað máli hvernig að er staðið. Það skiptir máli hvernig þau lánskjör verða sem ákveðin verða á þessum lánum, verði frv. þetta að lögum. Einnig skiptir það mjög miklu máli hvort tekst að framfylgja því, sem gert er ráð fyrir í till. nefndarinnar sem undirbjó málið, að 40% af þessari fyrirgreiðslu verði í reiðufé, verði í beinu lánsfé, vegna þess að ef það gerist ekki og fyrirgreiðslan verður nálega einvörðungu í skuldabréfaformi má búast við því að þau skuldabréf verði lítt seljanleg nema með stórum afföllum og fyrirgreiðslan þess vegna harla lítils virði. Þess vegna er þetta atriði ákaflega þýðingarmikið í framkvæmd þessa máls og ég treysti hæstv. landbrh. og ríkisstj. til að vinna að því að þetta geti tekist.

Ég held að ekki sé ástæða fyrir mig að fara út í önnur efnisatriði þessa máls nema að ítreka að ég legg nokkuð ríka áherslu á að leitað verði leiða til að framfylgja till. nefndarinnar sem málið hefur undirbúið um hluta af þessari fyrirgreiðslu í lánsfé, í reiðufé, og enn fremur að lánskjörum á þessum bréfum verði haldið eins hagstæðum og mögulegt er.

Ég fullyrði að bændastéttin hefur þörf fyrir að svo verði á málum haldið.

Ég hef tilhneigingu til að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh. hvort önnur atriði sem að er vikið í skipunarbréfi nefndarinnar frá 10. des. 1982 hafi leitt í ljós það sem nefndinni er þar ætlað að kanna, þ.e. hvort greina megi misjafna afkomu hjá bændum milli landsvæða, og í öðru lagi hvort munur sé á afkomu bænda eftir því hvaða búgrein þeir stunda. Þessi atriði voru sett í skipunarbréf nefndarinnar með tilliti til þess að það harðindaskeið sem yfir okkur hefur gengið hefur án efa komið mismunandi við einstaka landshluta. A.m.k. sum árin hefur hvarflað að okkur sem erum bændur og hugsum um landbúnaðarmál hvort ekki sé atvarleg hætta á því að það fari að verða mjög mikill og áberandi mismunur á afkomu bænda eftir landshlutum. Þess vegna þætti mér fróðlegt að heyra hvort einhverjar upplýsingar hafa komið fram af hálfu nefndarinnar um þetta atriði eða hvort henni verði falið að vinna sitt verk eitthvað ífarlegar til að leiða slíkt í ljós.

Í öðru lagi var henni einnig falið að athuga hvort greina megi mismun eftir einstökum búgreinum. Því er ekki að neita að grunur leikur á að það ástand sem ríkt hefur í efnahagsmálum vegna verðbólgu, verðtryggingar lána og hárra vaxta kæmi mun harðar við sauðfjárbændur en mjólkurframleiðendur og framleiðendur ýmissa annarra tegunda búvöru vegna þess að sauðfjárbændur leggja inn sínar afurðir að meginhluta aðeins einu sinni á ári og verða að bera mjög mikla vaxtabyrði vegna rekstrar sinna búa annan tíma ársins. Enn fremur væri mér þægð í því ef hæstv. ráðh. vildi upplýsa hvort eitthvað hefur komið fram um þetta atriði af hálfu nefndarinnar.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þá ræðu sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti áðan. Þeim spurningum sem þar komu fram var að sjálfsögðu beint fyrst og fremst til hæstv. landbrh. og hann mun auðvitað svara þeim og þarf ekki neina aðstoð til. Ég vil aðeins segja að ég lít svo til að hér sé ekki um óvanalegt mál að ræða. Þetta frv. er flutt með svipuðum hætti og gert hefur verið áður varðandi landbúnaðinn og hv. þm. vék raunar sjálfur að í sínu máli. Hv. þm. gerði mikið úr því að gert væri upp á milti þjóðfélagshópa, á milli stétta í þjóðfélaginu. Þetta frv. varðar einn aðalatvinnuveg þjóðarinnar og ekki mun hafa farið fram hjá neinum að aðgerðir varðandi lengingu lána og skuldbreytingar hafa hvað eftir annað verið gerðar í þágu annarra atvinnuvega í þjóðfélaginu.

Hv. þm. talaði um að hér væri verið að breyta öllum lausaskuldum bænda í föst lán og það á fjórtán ára tímaskeiði. E.t.v. hefur hv. þm. lesið 1. gr. frv. fljótfærnislega, sem væri þó mjög ólíkt þessum hv. þm. sem við þekkjum hér í þingsölum til nokkurra ára, en þar segir, með leyfi forseta:

„... að breyta í föst lán lausaskuldum bænda vegna fjárfestinga á jörðum þeirra árin 1979–1983, að báðum árum meðtöldum, svo og lausaskuldum vegna jarðakaupa, véla-, bústofns- og fóðurkaupa á sama tíma.“

Hér er sem sagt um fjárfestingarskuldir að ræða og skuldir vegna rekstrarvara í þessum atvinnuvegi. Hér er hvergi vikið að því að stefnt skuli að því að breyta í föst lán skuldum sem til er stofnað vegna persónulegra þarfa eða íbúðabygginga eða annars þess sem kemur ekki beint við atvinnurekstri.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hlýtur að átta sig á þessu ef hann hugsar sitt ráð, og þá betur en hann hefur gert að þessu leyti. Stundum væri honum þörf á að gera það betur en raun er á, sérstaklega og ekki síst þegar hann ræðir um landbúnaðarmál. Þrátt fyrir að verulegir erfiðleikar séu og hafi raunar oft verið í fjárhagsstöðu og efnahagsmálum bændastéttarinnar veit ég þess ekki dæmi að lánastofnun hafi tapað á lánum til bænda. E.t.v. vita aðrir slík dæmi en ég hygg að þau séu fá. Þess vegna er ástæðulaust að tala með þjósti og litlum velvilja og litlum skilningi í garð þessarar stéttar þegar um fjárhagsmálefni hennar er rætt á hv. Alþingi.

Ég vil ítreka það að ég mun fyrir mitt leyti leitast við að greiða fyrir því að frv. þetta fái liðlega meðferð í hv. Alþingi og greiða meðferð gegnum þingið og beina því enn til hæstv. ráðh. að leitast við að framkvæmd málsins taki ekki of langan tíma vegna þess að sannarlega eru margir sem bíða eftir því að unnt verði að koma þessu máli í framkvæmd. Þeir hafa raunar beðið eftir því nokkuð lengi og það hefur í för með sér að slíkir aðilar gera ekki aðrar ráðstafanir á meðan þeir bíða eftir þessari úrlausn. Sú úrlausn má þess vegna ekki dragast mjög lengi.