20.02.1984
Neðri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2982 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

196. mál, lausaskuldir bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs var hv. varaþm. Sighvatur Björgvinsson að blása sig út í vonsku og allt á tómum misskilningi byggt og það var að brjótast um í honum einhver gömul vonska út í bændur. Nú hefur þessi misskilningur verið leiðréttur í flestöllum atriðum svo ég get mjög stytt mál mitt.

Ef hv. þm. hefði lesið frv. hefði hann séð það strax að þarna gat ekki verið um allar lausaskuldir bænda að ræða. Það eru 605 umsóknir sem síðan á eftir að flokka. Því miður eru miklu fleiri en 605 bændur á Íslandi með verulegar lausaskuldir, þó þeir hafi ekki sótt um skuldbreytingu og hyggist freista þess að borga þær með öðrum hætti.

Það er eðlilegt að velta fyrir sér þeirri spurningu á hverjum tíma, þegar farið er út í svona aðgerð, hvort sem það er fyrir þennan atvinnuveg eða aðra, hvort réttmætt sé að skuldbreyta. Ég er þeirrar skoðunar að það sé réttmætt og það skapi grundvöll til heilbrigðari rekstrar og skapi grundvöll til þess að í þessu tilfelli geti búskapurinn gengið og komist á réttan kjöl. Ég var þeirrar skoðunar á stéttarsambandsfundi 1976 og þá var ég tillögumaður að könnun á lausaskuldamálum sem voru svo undanfari lagasetningarinnar 1979. En í þeirri könnun sem Stéttarsambandið gerði kom mjög glögglega í ljós að þeir bændur sem fengu lausaskuldafyrirgreiðslu 1969, þ.e. næst áður, höfðu yfirleitt rétt úr kútnum. Þeir höfðu yfirleitt komið lagi á sinn búrekstur. Og þetta mun sannast, að þarna er um verulega úrbót að ræða.

Nú er þörfin alveg tvímælalaus. Það hefur verið bent á í þessum umr., sem menn að vísu áttu að vita, að það hefur verið harðæri um ýmsa hluta landsins undanfarin ár og að því leyti hafa þau verið mjög óhentug til búrekstrar. Illu heilli tókum við upp fyrir nokkrum árum vaxtaokurstefnu Alþfl. sem var nærri búin að ríða öllu atvinnulífi landsmanna að fullu og við erum svo sem ekki búnir að bíta úr nálinni með enn. Atvinnugrein eins og landbúnaður, þar sem fjármagnshreyfingar eru hægar, getur síst af öllu staðið undir vöxtum sem eru ákveðnir með þeim hætti sem við höfum mátt búa við á undanförnum árum, og dýrtíð kemur náttúrlega mjög illa við landbúnaðinn.

Það er eitt til viðbótar sem ég hef ekki tekið eftir að hafi komið fram í þessum umr., nema þá óbeint hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Guðmundi Einarssyni, að verðákvörðunin stenst ekki. Það verðlag sem ákveðið er á hverjum tíma stenst ekki. Bændur ná ekki því verði sem þeim er ætlað. Ég get vitnað til einnar sýslu í kjördæmi mínu þar sem vantar um 20 millj. upp á að bændur fái skráð verð fyrir landbúnaðarafurðir 1983. Þetta eru svona 150–200 þús. kr. á bónda og er þá sem sagt mestallt kaup bóndans. Ef afurðirnar seljast ekki fyrir það verð sem fyrir þær er ætlast til að fáist kemur þetta náttúrlega þannig niður að þegar bóndinn er búinn að borga rekstrarvörur og tilkostnað við búreksturinn stendur hann uppi slyppur eða hér um bil slyppur og sumir miklu verr en slyppir.

Ekki er hægt að búast við því að verslanir eða kaupfélögin geti endalaust lánað úttekt til rekstrarins og það er ekki hægt að búast við því heldur að bankarnir geti veitt skammtímalánafyrirgreiðslu á þessum nótum. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef ekki verður af þessari skuldbreytingu eru mjög verulegir erfiðleikar fyrir höndum hjá flestöllum þessum 605 bændum.

Það er ekkert einsdæmi að skuldbreyting sé gerð í landbúnaði. Við höfum kynnst miklu fleiri skuldbreytingum í sjávarútvegi en í landbúnaði og þær hafa komið að gagni. Sjávarútvegurinn væri löngu strandaður ef ekki hefðu komið til skuldbreytingar í sjávarútvegi. Skemmst er svo að minnast þess að skuldbreytt var fyrir nærri 200 millj. fyrir húsbyggjendur nú í sumar og haust.

Ég vil hvetja hv. landbn., sem að sjálfsögðu fær þetta mál til meðferðar, að vinna hratt að málinu og ég treysti því að hv. Alþingi beri gæfu til þess að afgreiða þetta mál sem fyrst. Það er mjög brýnt.