21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3002 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

193. mál, rannsókn umferðarslysa

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar ég les fsp. kemur í ljós að henni hefur þegar verið svarað, þar sem spurt var um hvernig rannsókn á umferðarslysum sé háttað. En mér fer nú eins og hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að mér finnast svör ýmissa ráðh. vera ansi daufleg — lítt frumleg. Og það er eins og þeir láti embættismennina skammta sér hvað þeir, ráðh. sjálfir eigi að segja. Þeir eiga auðvitað að láta sjá að einstaka sinnum kvikni ljós hjá þeim sjálfum um það hvað megi gera til að bæta úr þessu hroðalega máli. Það er sama myrkrið.

Skýrslur eru til margra hluta nytsamlegar. Það þekkjum við frá gamalli tíð. En til hvers eru þær? Væri ekki upplagt að koma á nægilega góðu kerfi í skýrslugerðinni svo að úr skýrslunum megi eitthvað lesa, úr niðurstöðum skýrslnanna megi lesa hverjir eru mestu hættuvaldarnir og á hverju megi helst taka til að koma í veg fyrir slys, forða slysum, eins og íslenskufræðingarnir segja hér úr sérfræðingadeildinni.

Kjarni málsins er sá, að það sem máli skiptir er ekki að rannsaka afleiðingar slysa heldur að gera allt sem unnt er til að koma í veg fyrir þau. Það er eins og á skipunum. Það er auðvitað nauðsynlegt að hafa mjög fullkominn björgunarbúnað, en best er að þurfa aldrei að grípa til hans. Það er aðalatriðið. Það er ekki aðalmálið að vera nógu fljótur að kippa mönnum upp, sem hafa lent útbyrðis, heldur að haga skipi sínu þannig að enginn detti nokkru sinni í sjóinn. Í þessu máli gildir nákvæmlega það sama. Ég tel að það þurfi að finna einhverjar leiðir til að koma í veg fyrir þessi voðalegu slys og dýru, t.d. með því að bæta ökukennslu og herða á kröfum. Til greina kæmi að hækka það aldursmark þegar menn mega fara að aka bifreiðum. Hin mjög alvarlegu vélhjólaslys sem orðið hafa eru þannig, að ég tel að taka þurfi til mjög alvarlegrar athugunar hvers konar mótorhjól eigi hér að leyfa, hvort eigi að leyfa unglingum meðferð þeirra eins og gert hefur verið og hvort það eigi t.d. ekki að krefjast hreinlega meira prófs til að nota þessi tæki. (Forseti hringir.) Því þegar menn hafa tekið meira próf þá væru þeir komnir af unglingsárum. Slysin eru svo alvarleg að það þarf að grípa mjög hart á í þessum efnum og vera ekki hræddur um atkvæðin sín.

Herra forseti. Þá eru það að lokum örfá orð um bílbelti sem kölluð eru, það er vont orð. Það er skylda að brúka bílbelti, en meira en helmingur ökumanna á Íslandi notar þau ekki. Það er alveg nauðsynlegt að nú þegar verði sett viðurlög við því að brúka ekki þessi bráðnauðsynlegu slysavarnatæki.