21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3004 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

193. mál, rannsókn umferðarslysa

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þetta er þörf umræða. Hér hefur verið vikið nokkuð að bílbeltum eða öryggisbeltum. Ég átti nokkurn hlut að því máli þegar það var hér til umr. og samþykkt var að skylda menn til að nota bílbelti fyrir tveimur eða þremur árum. Þá fór það hins vegar svo, að ekki þótti fært að hafa viðurlög ef út af væri brugðið.

Nú er það hins vegar reynsla allra þjóða, þar sem ákvæði lík þessu eru í gildi, að þeim er ekki hlýtt nema viðurlög fylgi. Þess vegna held ég að brýnt sé að Alþingi samþykki nú hið fyrsta frv. sem liggur fyrir hv. Ed. um það að sektum verði beitt ef út af er brugðið um notkun bílbelta. Það er óumdeilanleg staðreynd að engin ein ráðstöfun, sem er jafn útlátalítil og það að spenna á sig bílbelti, getur sparað okkur jafn stórkostlegar fjárhæðir, ekki aðeins í beinum krónum, heldur getur líka sparað mannlegar þjáningar og örkuml sem aldrei verður til fjár metið. Þetta ættum við að hafa í huga. Þessi einfalda aðgerð, að skylda ökumenn og farþega til að nota bílbelti, getur sparað óhemju fúlgur fjár. Þess vegna má það ekki lengur úr hömlu dragast að koma þessum málum í það horf að þessum lögum verði hlýtt eins og til var ætlast. Og til þess virðist því miður vera sú eina leið að hafa sektarákvæði. Það hefur verið reynsla allra þjóða hér í kringum okkur að annars er þessum lögum ekki hlýtt. Og sé lögum ekki hlýtt þá eru þau verri en engin lög.