21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3004 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

193. mál, rannsókn umferðarslysa

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þessi umr. er þörf, en hitt er jafnframt hollt, að menn geri sér grein fyrir að með lögum útilokum við ekki umferðarslys á Íslandi. Ef málið væri svo einfalt þá væri bara að setja lög þar sem þau væru bönnuð. Ég hygg að það séu allmargir þættir sem komi þar inn í. Stærsti þátturinn er trúlega mannleg tillitssemi, hvort hún er nægilega mikil í umferðinni.

Það blasir aftur á móti við að mál eins og skipulagsmál hér á höfuðborgarsvæðinu eru í mjög miklum ólestri og valda umferðarslysum í stórum mæli. Við sem komum utan af landi eigum gjarnan erfitt með að átta okkur á því hvar Reykjavík endar, hvar seltjarnarnes tekur við, hvar Kópavogur tekur við, hvar Garðabær, hvar Álftaneshreppur og hvar Hafnarfjörður. Hitt er þó öllu verra, að það er eins og þeir sem staðið hafa að skipulagsmálum hver fyrir sitt svæði hafi undir sumum kringumstæðum varla gert ráð fyrir því að það þyrfti að aka á milli svæðanna. Þannig er ástandið. Og það er grátlegt að horfa á það að beinlínis vegna togstreitu um hvar eigi að leggja vegi er afleiðingin sú, að umferðarslysum á ákveðnum gatnamótum og ákveðnum vegum fer ört fjölgandi.

Ég vil þess vegna eindregið beina þeim tilmælum til hæstv. dómsmrh. að hann láti athuga í samráði við félmrh. hvort ekki er hægt að breyta yfirstjórn skipulagsins hér á stór-Reykjavíkursvæðinu á þann veg að tryggt verði í nánustu framtíð að vegir standist á milli þessara byggðarlaga og af þeirri ástæðu einni saman verði ekki fjölgað umferðarslysum hér á höfuðborgarsvæðinu.