21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3006 í B-deild Alþingistíðinda. (2599)

421. mál, athvarf fyrir börn og unglinga sem neyta fíkniefna

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Á. s.l. 20 árum hefur neysla vímuefna meðal ungs fólks á Vesturlöndum færst stórfelldlega í aukana. Ætla má af könnunum að víða hafi um 80% ungmenna á gagnfræða- og menntaskólastigi neytt eins eða fleiri vímuefna í því skyni að komast í einhvers konar vímuástand. Þegar ég tala um vímuefni á ég við einhvern eftirtalinna efnaflokka:

1) Róandi efni eins og áfengi, svefnlyf, valíum og önnur róandi lyf.

2) Örvandi efni eins og amfetamín, kókaín og ýmis megrunarlyf.

3) Kannabisefni eins og marihuana og hass.

4) Skynvilluefni eins og LSD og meskalín.

5) Kvalastillandi efni eins og ópíum, morfín, heróín, kódeín, petidín og metadon.

6) Lífræn leysiefni eins og lím, þynni og úðunarefni.

7) Ofnæmis- og sjóveikilyf.

8) Ýmis önnur efni eins og t.d. englaryk.

Lengi vel vorum við Íslendingar lausir við þennan vágest ef undan er skilið áfengi og þess var ekki neytt í verulegum mæli meðal barna og unglinga. Á s.l. árum hefur þó ástandið breyst til hins verra og virðist almenn vímuefnaneysla meðal barna og unglinga fara vaxandi. Engar tæmandi rannsóknir liggja fyrir um vímuefnaneyslu unglinga hér á landi en þó má draga ályktanir af þeim könnunum sem gerðar hafa verið. Ef ég má vitna í heilbrigðisskýrslur, fylgirit 1982, með leyfi forseta:

Ef bornar eru saman kannanir á áfengisneyslu 1972 og 1980 kemur fram að stöðugt fleiri unglingar telja áfengisneyslu eftirsóknarverða og að marktæk fylgni er á milli þessa viðhorfs og hærri tíðni eigin neyslu. Enn fremur að notkun áfengis meðal íslenskra unglinga hefur aukist verulega hin síðari ár. Unglingarnir drekka oftar og meira í hvert sinn en áður. Það var einnig ljóst af þessari könnun að áfengisnotkun fullorðinna er veruleg og vaxandi og trúlegt er að notkunarvenjur unglinga endurspegli þær venjur sem almennt tíðkast í landinu.

Árið 1970 kom fram í könnun að kannabis var nær óþekkt meðal 15 ára unglinga í Reykjavík. Síðari kannanir 1972 og 1980 sýndu að þeim unglingum sem hafa notað kannabisefni hefur fjölgað mikið. Enn fremur kom greinilega í ljós fylgni milli notkunar áfengis og kannabisefna.

Á allra síðustu árum hefur svo aukist verulega bæði framboð og fjölbreytni þeirra vímuefna sem eru á boðstólum og aldurshópur neytenda er orðinn breiðari. Samkvæmt upplýsingum þeirra sem vinna að málum unglinga er í dag hópur unglinga frá 13 ára aldri a.m.k., jafnvel yngri, sem neytir vímuefna reglulega. Þessi hópur notar flest þau efni sem aðgengileg eru á markaðnum hverju sinni. Í þessum hópi eru unglingar sem flestir eru hættir í skóla og margir án þess að hafa lokið lögboðnu skyldunámi. Þeir eru ekki í vinnu eða stunda hana stopult og eru að miklu leyti lagstir út. Þessir unglingar fjármagna neyslu sína á ýmsan hátt, með ígripavinnu, sölu og dreifingu vímuefna, eitthvað er um þjófnaði og önnur lögbrot og sögusagnir hafa heyrst um vændi barnungra stúlkna. Þessi harði kjarni er e.t.v. um 20–30 börn og unglingar og hann hefur síðan óæskileg áhrif á svonefndan áhættuhóp sem telur marga tugi unglinga. Þar eru börn allt frá 10 ára aldri sem farin eru að nota vímuefni í einhverjum mæli. Og stöðugt verða þau börn yngri sem þreifa fyrir sér í þessum efnum. Oft er um að ræða einstaklinga sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður á heimili og í skóla og koma frá láglaunahópum þjóðfélagsins. Þetta er þó ekki einhlítt því að börn sem alist hafa upp við góðar aðstæður geta líka ánetjast vímuefnafíkn. ótrúlegt er að nokkur ætli sér eða vilji verða háður vímuefnum en það sem byrjar annaðhvort sem flótti frá beiskum raunveruleika sem unglingurinn ræður ekki við eða þá sem fikt, rekið af ævintýralöngun eða löngun til að upphefja sig í augum félaganna, getur fyrr en varir orðið að líkamlegum og sálrænum bindandi vana og unglingurinn missir stjórn á neyslu sinni. Öll þessi vímuefni sem ég nefndi áðan geta valdið líkamlegum eða andlegum skemmdum, sum ef neysla þeirra er mikil og langvarandi, önnur geta haft varanlegt og óbætanlegt heilsutjón í för með sér, þótt þeirra sé aðeins neytt í eitt sinn. Dæmi um slík efni eru LSD, englaryk og sniffefni. Mörg þeirra barna og unglinga sem eru reglulegir neytendur vímuefna hafa þegar beðið tjón á heilsu sinni. Önnur eru í mikilli hættu. Þau ráfa um umhirðulítil og vanrækt á þeim stöðum þar sem unglingar leita saman í hjarðir, t.d. á Hallærisplaninu og Hlemmi. Sum eru illa haldin eða ósjálfbjarga og eiga í ekkert hús að venda vegna félagslegra vandræða eða þá að þau þora ekki heim. Flest þurfa þau læknismeðferð, hjúkrun og aðhlynningu í lengri eða skemmri tíma.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. heilbrrh.: Hverjar eru aðstæður hér á landi til að veita athvarf og heilbrigðisþjónustu þeim börnum og unglingum sem eru illa haldin andlega og líkamlega um styttri eða lengri tíma vegna fíkniefnaneyslu?