21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3009 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

421. mál, athvarf fyrir börn og unglinga sem neyta fíkniefna

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af þeirri viðbótarspurningu sem kom fram hjá hv. 3. landsk. þm. hvernig eigi að verja þessari 1 millj. til forvarnarverkefna, þá er verið að vinna að því í samráði við landlæknisembættið. Ég veit ekki hvort það er búið til fullnustu. En ég vil segja að hér er um tiltölulega nýtt vandamál að ræða, fíkniefnaneyslu og vaxandi áfengisneyslu.

Þegar ég var ungur var ekkert til sem hét fíkniefnaneysla og áfengisvandamál var sáralítið hjá börnum og varla til. Þetta hefur ekki versnað vegna versnandi efnahags þjóðarinnar því að það hefur verið mikil peningavelta og jafnframt mikil gróska í sambandi við þessa auknu fíkniefnaneyslu og áfengisneyslu. Það er ekki fátæktin sem hefur innleitt þetta. Það má kannske heldur segja að það hafi verið peningarnir sem hafi innleitt þennan ósóma.

Það sem er hendi næst er ekki að byggja alltaf ný og ný sjúkrahús og nýjar og nýjar greinar. Það er fyrst og fremst að uppræta þennan ósóma. Leiðin er fyrst og fremst að finna kvikindin sem standa að baki þessu smygli og nota þetta sem féþúfu til þess að gera börn og foreldra og nánustu aðstandendur að aumingjum á tiltölulega skömmum tíma. Þar liggur meinsemdin. Hún liggur hjá þeim glæpalýð sem þetta stundar og það er raunalegt til þess að vita að það skuli vera í jafn litlu þjóðfélagi og okkar. Þar á baráttan fyrst og fremst að vera til að koma í veg fyrir þetta vandamál.

Við skulum ekki reyna að koma hér öllu af stað með því að einblína á það að nú hefur syrt í álinn í fjármálum þessarar þjóðar og lífsafkomu. Ég sé ekki að það sé fyrir neina guðsvolaða aumingja peningalega að kaupa þessi fíkniefni eftir því verðlagi sem er verið að segja manni að sé á þessu eitri. Þeir fá það ekki sem hafa enga peninga. En hitt er rétt að þeir sem eru komnir út í þetta — og það þarf ekki þetta land til — leiðast til glæpaverka, innbrota og þjófnaða, til að komast yfir peninga. Þetta hefur verið flutt til landsins m.a. frá okkar nágrannaþjóðum þar sem þetta sama vandamál hefur verið við að stríða.

Við skulum reyna að sjá vítt yfir þetta vandamál. Við deilum ekki um að það er staðreynd að þetta vandamál er til og við þurfum að sigrast á því. Það gerum við fyrst og fremst með því að finna sökudólgana og koma því inn að hér sé um alvarlegan glæp að ræða, alvarlegri glæp en nokkurn annan, sem þetta fólk er að innleiða og hefur orðið þess valdandi að lífshamingja fjölda ungmenna og nánustu aðstandenda þeirra hefur hrunið í rúst.