21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3010 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

421. mál, athvarf fyrir börn og unglinga sem neyta fíkniefna

Árni Johnsen:

Herra forseti. Að firra okkur þeim beiska raunveruleika sem við er að glíma, sagði síðasti ræðumaður, hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir. Þetta er svolítið stórt sagt en kannske ástæðulaust að segja það í því samhengi að eðlilegt sé að menn þurfi að firra sig beiskum raunveruleika á þennan hátt. Það getur ekki verið afsakanlegt en það getur verið skiljanlegt. Mér finnst ástæða til þess að taka undir orð hæstv. heilbrrh., að stærsta átakið til varnar hlýtur að vera í strangri löggjöf, ströngum viðurlögum gegn þeim aðilum sem flytja eiturlyf inn í landið.

Við vitum að á undanförnum árum hefur á skipulegan hátt aukist sala á eiturlyfjum í nágrannalöndum okkar, bæði veikum og sterkum eiturlyfjum. Þetta hefur haft áhrif á okkar samfélag. Þetta hefur einnig haft þau áhrif í nágrannalöndum okkar að aukist hafa rán og gripdeildir, líkamsmeiðingar á götum úti sem annars staðar. Einnig þetta er nýtt í okkar samfélagi sem við höfum orðið áþreifanlega vör við. Það undirstrikar kannske fyrst og fremst að við eigum að taka mjög fast og ákveðið á þessum málum.

Á margan hátt er hægt að ræða um fyrirbyggjandi aðgerðir en það hlýtur að verða gerður greinarmunur á hvort átt er við þann glæpalýð sem stundar innflutning á eiturlyfjum eða hvort átt er við þau fórnardýr sem verða fyrir barðinu á eiturlyfjunum.

Það er auðvitað ekkert algilt að geðrænir kvillar valdi því að börn og unglingar ánetjist eiturlyfjum, heldur er það kannske ekkert síður fikt og vanþekking. Það er einmitt á þessum sviðum sem við þurfum að taka okkur tak, að kynna æskulýð landsins meira en gert hefur verið þann skaða sem þessi eiturlyf og meðferð þessara svokölluðu vímuefna getur haft fyrir hvern og einn í okkar samfélagi. Þar þurfum við að taka á ekki síður en gegn því óhamingjusama fólki sem ber ábyrgð á því að flytja þessi efni inn í landið. En ég vil sem sagt árétta að taka þarf fast og ákveðið á í þessum efnum og það er mjög tímabært.