21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3013 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

422. mál, geðræn vandamál barna og unglinga

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á einu atriði áður en ég þakka hæstv. heilbrmrh.

Það eru 51 þm. sem eru karlkyns og starfa í þessari stofnun og það eru níu þm. sem eru kvenkyns. Nú sitja hér inní og hlusta á umræðu þessa fimm karlar af 51, einn ráðh. að vísu, það eru sex, forseti verður að vera hér embættis síns vegna. Síðan eru hér fimm konur af níu.

Ég þakka hæstv. heilbrmrh. svör hans. Það hefur greinilega verið gert mikið átak í geðheilbrigðismálum barna og unglinga hérlendis og er það vel. Samt virðist vera að þörfin sé meiri fyrir slíka þjónustu en svo að unnt sé að anna henni. Á barnageðdeildinni eru rúm fyrir átta legubörn og átta dagdeildarbörn og það nægir hvergi nærri þeirri þörf sem er í þjóðfélaginu, því að biðtíminn eftir slíkri þjónustu er um það bil hálft til eitt ár. Heimili fyrir einhverf börn að Trönuhólum tók að vísu við nokkrum þeirra barna sem áður dvöldust á geðdeild barnaspítala Hringsins, en þar er líka langur biðlisti og mörg einhverf börn, sem gætu fengið með­ferð sem mundi gera þeim lífið þolanlegra og kannske meira virði, dveljast nú á heimilum fyrir þroskahefta. Göngudeildin sem rekin er á geðdeild barnaspítala Hringsins er líka yfirhlaðin. Þar er um það bil tveggja til þriggja mánaða biðtími. Það er því greinilegt að til að sinna bara þeim vanda sem beinist að þessari ákveðnu stofnun, og þá undanskil ég þá þjónustu sem ráðh. tiltók annars staðar, þarf að auka starfslið við barna­geðvernd. Flest börn sem sækja geðdeildina eru á aldrinum 4–10 ára og það er engin sérstök aðstaða til greiningar og meðferðar fyrir unglinga með geðræn vandamál á þessari stofnun. Á sama tíma og þörfin er svo brýn sem raun ber vitni er dregið úr starfsemi þessarar deildar án þess að sjá fyrir samsvarandi þjónustu annars staðar. Þarna álít ég að pottur sé illa brotinn og mig langar að spyrja hvernig hægt sé að réttlæta slíkt.