21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3013 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

422. mál, geðræn vandamál barna og unglinga

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra for­seti. Út af síðustu orðum fyrirspyrjanda er það að segja að rn. hefur ekki að gera með mannaskipan og ráðning­ar í ríkisspítalakerfinu. Hins vegar hefur rn. lagt ríkt á það við stjórn ríkisspítalanna að fyllsta aðhalds sé gætt í rekstri og reynt sé að spara og draga eins og kostur er úr rekstrarkostnaði.

Við skulum líta á fjárlög í heild, á þá miklu þenslu sem hefur orðið í heilbrigðiskerfinu, bæði í uppbygg­ingu kerfisins og á fjölmörgum nýjum deildum og stofnunum á flestum sviðum. Við skulum einnig minn­ast ákvarðana sem við höfum nýlega verið að taka, eins og um átak í rannsóknum á hjartasjúkdómum, þó að sjálf skurðaðstaðan komi til með að bíða nokkuð. Við tókum ákvörðun um það við afgreiðslu fjárlaga að hefja byggingu K-deildarinnar á Landspítalalóðinni. Þetta kostar allt saman samfélagið fleiri hundruð milljóna. Við skulum einnig hafa í huga að flestar nýjar stofnanir sem við tökum í notkun kostar jafnháa upphæð á þremur árum að reka og byggingarkostnaðurinn er. Kostnaður við heilbrigðiskerfið hefur því sífellt verið að aukast. Og við höfum á undanförnum áratugum verið að sigrast á vissum sjúkdómum, sem okkur hefur tekist, eins og berklaveikinni svo að eitt dæmi sé nefnt.

En það er annað sem veldur miklu örari breytingu í heilbrigðismálum á næstunni og er að byrja og sérstak­lega fyrir áhrif Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Við vorum nú nýlega að gera samning um forvarnar­verkefni, sem ég undirritaði fyrir nokkrum dögum úti í Kaupmannahöfn. Þær aðgerðir miða allar að því að koma í veg fyrir sjúkdóma, fræða fólk um hvað er því hollt og hvað er óhollt, breyta lífsvenjum til þess að koma í veg fyrir veikindi og sjúkdóma, koma í veg fyrir að við þurfum að halda áfram að byggja yfir sjúkt fólk. Við verðum fyrst og fremst að veita í auknum mæli fjár­magn til að koma í veg fyrir sjúkdómana, en ekki alltaf að einblína á það sem orðið er og að við þurfum að halda áfram að byggja upp nýjar stofnanir. Við verðum vitaskuld alltaf að vera að byggja upp nýjar stofnanir. Við verðum að byggja yfir nýja starfsemi með vaxandi þekkingu á sviði lækninga og heilbrigðismála. Ég vil í tilefni af þessari fsp. og umr. láta þessar þenkingar mínar koma fram.

Ég met mikils þessar fsp. Þær eru þess virði að þær séu ræddar og gaumur gefinn því að við þurfum sannarlega að hugleiða þennan þátt mála. Og það er til skammar fyrir þm., a.m.k. karlkynið, hvað illa er mætt við þessar umr. Ég verð nú að teljast, þó að ég sé ráðh., til karlmanna svo að hv. fyrirspyrjandi bætir þá einum við. En samt er slök mæting karlmanna við þessar umr.