21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3015 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

106. mál, landnýtingaráætlun

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 128 er till. til þál. um landnýtingaráætlun. Flm. auk mín eru eftirtaldir hv. alþm.: Þorv. Garðar Kristjánsson, Helgi Seljan, Ingvar Gíslason og Jóhanna Sigurðardótt­ir. Till. er á þessa leið með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að hafinn verði undirbúningur landnýtingaráætlunar sem taki til allra meginþátta landnýtingar. Drög að landnýt­ingaráætlun skuli liggja fyrir í árslok 1985. Við gerð þeirra verði áhersla lögð á sem hagkvæmasta nýtingu og varðveislu landgæða.“

Eins og hv. alþm. er kunnugt hefur slík till. verið flutt áður á undanförnum tveimur þingum, en ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu. Í bæði skiptin var till. flutt við mjög góðar undirtektir innan þings og utan. Ástæðan fyrir því að till. náði ekki endanlegri afgreiðslu var því síður en svo af þeim toga að andstaða ríkti gegn efni hennar, heldur hitt, að það skal viðurkennast að hér er um nokkuð viðamikið mál að ræða og eðlilegt að nokkurn tíma þurfi til athugunar.

Formlegar umsagnir bárust þeirri nefnd sem hafði málið til umfjöllunar á sinni tíð hér í þinginu. Mér vitanlega eru allar þær umsagnir mjög jákvæðar og eru að sjálfsögðu í fullu gildi, enda hafa forsendur ekki breyst að marki á svo skömmum tíma sem liðinn er síðan þær umsagnir voru látnar í té. Nú er þessi till. flutt í svo að segja óbreyttri mynd. Efni hennar og framsetn­ing kemur því síður en svo ókunnuglega fyrir sjónir.

Að mínum dómi hefur ríkt alger samstaða um þetta mál og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að svo sé einnig nú og vísa ég þá ekki síst til minna meðflm. í því sambandi.

Með tilliti til þess sem ég hef sagt um fyrri málsmeð­ferð og að ekki er ástæða til að eyða miklu af dýrmætum tíma þingsins í að ræða tillögur sem hér hafa verið fluttar áður sé ég ekki ástæðu til að fara nema örfáum orðum um till.

Í sem fæstum orðum má segja að áætlun um landnýt­ingu sé ætlað að svara þeirri víðtæku spurningu hvað við ætlumst fyrir, hvernig við ætlum að umgangast landið. Slíkri spurningu verður að sjálfsögðu aldrei svarað afdráttarlaust í smáatriðum í eitt skipti fyrir öll. Eftir­leiðis sem hingað til mun vafalaust verða breyting á nýtingu lands og landgæða og útilokað að allt verði séð fyrir í fjarlægri framtíð.

Að sjálfsögðu getur sitt sýnst hverjum um hvað eru landgæði og hvernig ber að umgangast landið. Verð­mætamat hlýtur ætíð að verða afstætt og eftir atvikum ólíkt eftir því hver á í hlut. Ég vil leyfa mér að tala um landgæði og nefna landgæði hvort heldur er í efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti.

Að mínu áliti er tilgangur áætlunar um landnýtingu fyrst og fremst eins konar sáttmáli um ráðstöfun og nýtingu lands á sem flestum sviðum. Ég geri mér nokkuð ljósa grein fyrir því að það er allt annað en áhlaupaverk að gera slíka áætlun um landnýtingu, eins og ég hef raunar vikið að áður.

Ég talaði um það áðan að sjónarmiðin væru fjölmörg og þarfirnar breytilegar. Þess vegna er óhjákvæmilegt að fjölmargir komi með einum eða öðrum hætti að þessu starfi, einstaklingar, samtök og stofnanir, ef menn á annað borð vænta árangurs og að afraksturinn verði sæmilega skýr heildarmynd. Þrátt fyrir allt ætti að vera mögulegt að ganga til slíks starfs með það markmið að sameiginlegu leiðarljósi að auka fremur en rýra landkosti.

Ég sagði í upphafi máls míns að óþarft væri að fara mörgum orðum um efni þessarar till. og þóttist ég færa nokkur rök fyrir því. Ég mun þess vegna ekki telja upp né heldur fjalla um einstaka þætti landnýtingar. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að vitna til grg. sem fylgir till. Þar er drepið á nokkra helstu þætti landnýtingar. Ég leiði ekki hugann að öðru en hv, alþm. sé fullkunnugt um hvað gerð landnýtingaráætlunar felur í sér og þar með hvert er innihald þessarar till. Eins og ég talaði um áðan hefur till. auk heldur verið til umfjöllunar á tveimur undanförnum þingum og ekki ástæða til að vera með málalengingar.

Það er auðvitað von flm.till. fái eðlilega og jákvæða meðferð. Með tilliti til þeirra jákvæðu við­bragða sem hún hefur fengið, eins og ég talaði um áðan, bæði utan þings og innan við fyrri umfjöllun finnst mér ástæða til að ætla að till. fái afgreiðslu á þessu þingi.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að till. verði vísað til allshn. að loknum þessum hluta umr.