21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3017 í B-deild Alþingistíðinda. (2613)

106. mál, landnýtingaráætlun

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég kem upp aðeins til að lýsa stuðningi mínum við þáltill. sem hér er til umr. Byggðastefna hefur verið þó nokkuð mikið á dagskrá á þessu þingi og að nokkru leyti fyrir frum­kvæði BJ. Má þar minna á þáltill. sem við fluttum snemma, í upphafi þings, um skipan byggðaáætlana. Þar kom fram, sem ég vildi aðeins minna á hér, að ég tel landnýtingaráætlun fram setta af hálfu ríkisvalds algjöra grundvallarforsendu fyrir því að menn geti útfært byggðastefnu með skynsamlegu móti. Slík áætlun, þeg­ar hún kemur fram, er alltaf meira og minna metin pólitískt, það fer ekkert milli mála, eins og frsm. gat um, en þá eru menn líka að taka á málum þannig að þeir vita nokkurn veginn um hvað þeir eru að ræða. Það fer þá heldur ekkert milli mála á hvaða þætti menn kjósa að leggja áherslu og fer af byggðastefnuumræð­unni sá bragur, sem oft hefur verið á á undanförnum árum, að menn slíta hluti nánast úr öllu samhengi við heildina og taka bæði ákvarðanir eða þátt í umr. án þess að horfa á nema mjög einangruð fyrirbæri í einu. Þess vegna tel ég þetta eitt með gagnlegri málum sem fram hafa komið á þessu þingi og styð það heils hugar.