21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3017 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

106. mál, landnýtingaráætlun

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Eins og þm. vita eru sveitarfélög skipulagsskyld. Með því er þeim að sjálfsögðu ætlað að skipuleggja landnýtingu innan síns svæðis. Þar er e.t.v. stigið fyrsta sporið inn á þá braut sem hér er verið að leggja til að lengra sé haldið á. Ég er hlynntur þessari till., en mér er jafnframt ljóst að undir ýmsum kringumstæðum getur það gerst að við­horf sveitarfélags til þess hvað það teldi æskilegustu starfsemi innan síns svæðis þarf ekki ávallt að verða það sama og þjóðfélagsins um æskilega starfsemi á því svæði. Það eru slíkir árekstrar sem e.t.v. eiga eftir að gera þetta erfiðara í framkvæmd en það virðist við fyrstu sýn.