21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3017 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

107. mál, gjaldskrársvæði Pósts- og símamálastofnunar

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. á þskj. 129. Það er till. til þál. um breytt gjaldskrársvæði Póst- og símamálastofnunar. Flm. auk mín eru hv. alþm. Guðmundur Bjarnason, Páll Péturs­son, Stefán Valgeirsson og Stefán Guðmundsson. Tillgr. orðast svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að gjaldskrársvæði símans verði stækkuð þannig að í meginatriðum gildi sami gjaldflokkur innan sérhvers athafna- og viðskipta- eða greinistöðvar­svæðis.“

Eins og fram kemur í grg. hefur þessi till. verið flutt áður. Hún var flutt á liðnu þingi. Ég vil fyrst segja frá því að þá bárust umsagnir um málið og m.a. umsögn frá Póst- og símamálastofnun. Ekki verður annað sagt en að sú umsögn hafi verið mjög jákvæð og jafnvel talið mjög æskilegt frá sjónarhóli stofnunarinnar séð að gera þær breytingar á sem fjallað er um í till.

Þessi till. er afskaplega einföld að allri gerð. Raunar segir tillgr. sjálf allt það sem segja þarf um flutning þessarar till. Í grg. er vitnað til 11. gr. laga um stjórn og starfrækslu póst- og símamála frá 2. maí 1977, en þar er ákvæði sem kveður á um að stefnt skuli að því við gjaldskrárgerð að sömu gjöld gildi innan sérhvers svæðisnúmers, þ.e. innan 91, 92, 93, 94 o.s.frv. Nú er manni sagt að á því herrans ári 1977, þegar þetta var samþykkt, hafi menn e.t.v. ekki vitað hvað þeir voru að gera, en við flm. gerumst svo djarfir að vitna í þessa lagagr. og segjum: Hvar eru framkvæmdir í þessu efni? Það vantar æðimikið á að þessi lagagrein sé framkvæmd til fulls.

Eins og hv. alþm. er kunnugt voru samþykkt á árinu 1981 sérstök lög um lagningu sjálfvirks síma í sveitum. Sem betur fer hafa framkvæmdir við lagningu síma á grundvelli þeirra laga gengið nokkuð greitt og e.t.v. framar vonum miðað við áætlanir. Þetta hefur leitt af sér að reistar hafa verið fjölmargar minni endastöðvar með númerafjölda um og innan við 100. Sem kunnugt er gildir gjaldflokkur 0 innan endastöðva svæðanna. En mjög margar þeirra eru mjög smáar og fáir notendur, eins og ég gat um, og það þarf í allt of mörgum tilvikum að hringja á gjaldflokki 1, sem er margfalt dýrari, út af þessum svæðum og til ýmissa viðskiptaaðila. Till. sem hér er á ferðinni felur í sér að svæðin verði stækkuð enda þótt ég vilji taka fram að sú skipting sem hér er gerð till. um og tíunduð er í grg. er ekki algild í huga okkar flm. Hún er aðeins hugmynd og að sjálfsögðu byggð upp í samráði við Póst- og símamálastofnun. Þetta er ekki einvörðungu hugdetta okkar flm., skipulag á gjaldskrársvæðunum eins og við gætum hugsað okkur að þau litu út að tillögunni samþykktri. — En ég vil bæta því við, að eins og hv. alþm. er að sjálfsögðu öllum kunnugt um er sími til hagræðis hér í þéttbýlinu og hann er það í dreifbýlinu ekki síður. Að mínum dómi þarf einmitt að haga svo til að í dreifbýli sé síminn það tæki sem fólk á kost að nota án þess að greiða fyrir óhóflegt gjald.

Nú kann einhver að leiða að því hugann að till. fylgi allverulegur kostnaður. Satt er það. Svo gæti farið. Hins vegar vil ég minna á að Póst- og símamálastofnun hefur eftir því sem ég veit best á þessu ári haft í gangi talningu símaumferðar víðs vegar á landinu einmitt í því skyni að glöggva sig á því hvern kostnað, ef einhver er, stækkun gjaldskrársvæðanna hefði í för með sér, hvort því yrði samfara verulegur kostnaður. Því miður hef ég ekki niðurstöður þessarar símaumferðartalningar, en sjálfsagt er hægt að afla þeirra upplýsinga hjá Póst- og símamálastofnun og vænti ég þess að sú nefnd sem fær tillöguna til meðferðar muni afla þeirra upplýsinga.

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um till. Hún skýrir sig að mestu sjálf. Tilgangurinn með flutningi till. er augljós. Hann er að hamla gegn því að fólkið verði fráhverft því að nota síma vegna gífurlegs kostnaðar. Hitt skal ég viðurkenna, að enda þótt símakostnaður gæti orðið og sé mikill verður vonandi ætíð ódýrara að hringja en aka um svæðin.

Að þessum orðum sögðum legg ég til að till. verði vísað til allshn. að loknum þessum hluta umr.